149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:02]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Nú fá menn annað tækifæri til að gera þeim hópi aldraðra sem hefur vilja, kraft og þor til að vinna sér inn peninga, þ.e. laun, án þess að þau skerðist við hundraðþúsundkall, án þess að skerða lífeyri hans. Forstjórinn í Garðabænum, sem hæstv. fjármálaráðherra hefur svo miklar áhyggjur af fær ekki greiðslur úr almannatryggingakerfinu og skerðist því ekki nokkurn skapaðan hlut. (Gripið fram í.) Akkúrat. Venjulegur eldri borgari sem hefur kraft og getu til að vinna sér inn smáaukatekjur — þetta mál er sett fram fyrir hann. 1.100 milljónir kostar þetta, brúttó. Það kostar u.þ.b. 700 milljónir nettó þegar ríkið hefur fengið skatt af þessum peningum. En þetta sparar líka peninga því að þetta kemur í veg fyrir félagslega einangrun aldraðra og lengir jafnvel ævi þeirra. Þetta gerir aldrað fólk virkt miklu lengur en ella. Við erum að eldast sem þjóð, við þurfum á þessu fólki að halda í vinnu því að við flytjum inn fullt af vinnuafli (Forseti hringir.) og það er reynsla og þekking sem býr í þessu fólki. Við skulum ekki vanmeta hana, gera lítið úr henni. Við skulum samþykkja þessa tillögu.