151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[14:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ástæða þess að ég var að fjalla um mikilvægi formfastrar umgjarðar. Það er alltaf hægt að gera betur, en það væri til bóta ef alla vega væri farið eftir því sem búið er að ákveða. Það er það sem ég tönnlast alltaf á, að byrja á byrjuninni. Byrja á að draga upp alla valkosti sem eru í boði til þess að leysa ákveðið vandamál. Tökum fráflæðisvandann sem dæmi. Hverjir eru valkostirnir? Að byggja fleiri hjúkrunarheimili, auka heimahjúkrun, fleiri dagdvalarrými, annars konar fyrirkomulag, samvinnuhúsnæði, ég veit ekki hvað og hvað. Það er hægt að draga upp fullt af mismunandi aðferðum og kostnaðargreina og ábatagreina hverja fyrir sig. Kannski er ekki til nein ein frábær lausn, kannski þarf blöndu af öllu þessu. Það er það sem stjórnvöld eiga að koma með til þingsins og segja að til þess að leysa vandann sem við höfum fyrir framan okkur þurfum við að bæta aðeins úr varðandi hjúkrunarrými, varðandi dagdvöl og heimahjúkrun og þess háttar. Þetta er upphæðin, þetta leysir vandann.

Við fáum aldrei þannig upplýsingar, það er það sem ég er að kvarta undan. Lögin kveða samt á um það að við eigum að fá þær. Hér hefur verið talað um að við séum enn í innleiðingarferli. Önnur lönd sem tóku upp lög um opinber fjármál taka fimm til tíu ár í innleiðingarferlið, en nú erum við komin með fimm ára innleiðingarferli í þessu og öll skilyrði laganna, um frest til að skila hinu og þessu, eru búin. Núna erum við bara með lög um opinber fjármál sem fara á eftir og ef lögin eru þannig þá á að fara eftir þeim. Það er ekki verið að fara eftir þeim, sem þýðir að við fáum ekki þessi grundvallaratriði eða eitthvað í staðinn fyrir þau, sem við myndum fá ef um væri að ræða innleiðingarferli. Slíkt innleiðingarferli myndi t.d. segja okkur að við næðum ekki að uppfylla ákveðin skilyrði en við gætum samt uppfyllt þau á óformlegan hátt með því að útvega þessar upplýsingar. En það er ekkert slíkt fyrir hendi.