137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[20:30]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að blanda mér í umræðuna um val í stjórnir bæði þess félags sem hér um ræðir og þess verðandi félags, eins og stjórnarliðar tala um, sem heitir Bankasýsla ríkisins. Það vill þannig til að í því frumvarpi sem við ræðum er hvergi minnst á það, ekki einu einasta orði, hver á að skipa í stjórn félagsins og framkvæmdastjórann.

Í upphafi 2. mgr. stendur, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðherra er heimilt að stofna opinbert hlutafélag til að sinna þeim verkefnum sem um getur í 3. gr.“

Síðan er þess getið í 3. gr. að fjármálaráðherra setur reglugerð og í 7. gr. að ráðherra setur nánari reglur.

En í 4. gr. er ekki minnst einu orði á hæstv. fjármálaráðherra, að það sé hann sem skipi stjórn félagsins vegna þess að þar stendur, með leyfi forseta:

„Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og tveimur til vara. Skulu þeir kosnir á aðalfundi ár hvert.“

Hér er ekki með einu einasta orði nefnt að það skuli vera fjármálaráðherra sem eigi að skipa þessa aðila. Menn hafa talað um skipun stjórnar og ráðherraábyrgð en það er ekkert tekið fram að ráðherra eigi að skipa þessa aðila. Breytingartillaga meiri hlutans gengur út á að framselja megi eignarhlutinn í félaginu til Bankasýslu ríkisins, sem stendur til að koma á fót samkvæmt frumvarpi fjármálaráðherra á þessu löggjafarþingi. Ég verð að segja, frú forseti — ég sagði það líka á síðasta kjörtímabili — að mér hefði stundum þótt við þingmenn vera eins og afgreiðsludömur á kassa, segjandi já eða nei. Mér finnst það enn.

Hér er lagt fram frumvarp og framhaldsnefndarálit meiri hluta efnahags- og skattanefndar þar sem gert er ráð fyrir að til verði eitthvað sem heitir Bankasýsla ríkisins samkvæmt frumvarpi. Án þess að búið sé að ræða málið til fulls hefur meiri hlutinn ákveðið að engu að síður verði Bankasýslan til og síðan muni það félag sem við ræðum hér falla undir hana. Þetta er náttúrlega algjörlega með ólíkindum.

Þá hafa þingmenn jafnframt haldið því fram að Bankasýslan geti síðan ráðið stjórn þessa félags sem við ræðum hér skv. 4. gr., en svo er ekki. Í 2. gr. stendur að með yfirstjórn Bankasýslu ríkisins fari þriggja manna stjórn sem fjármálaráðherra skipar. Það er fínt. Síðan stendur í 7. gr., Valnefnd, með leyfi forseta:

„Stjórn Bankasýslu ríkisins skipar sérstaka þriggja manna valnefnd sem tilnefnir aðila fyrir hönd ríkisins sem rétt eiga til setu í bankaráðum eða stjórnum fjármálafyrirtækja í samræmi við hlutafjáreign ríkisins.“

Það félag sem við ræðum hér er ekki fjármálafyrirtæki. Eigi stjórn Bankasýslunnar að skipa í stjórn þessa félags hljóta hv. þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna að vera tilbúnir með breytingartillögu við það frumvarp sem heitir „Bankasýsla ríkisins“ þar sem í 7. gr. verði þessu breytt og inn komi einnig að það nái til opinbers hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja. (Gripið fram í.)

Það er með ólíkindum að hlusta á umræðu um þetta frumvarp og með hvaða hætti á að velja stjórn í þetta fyrirtæki þegar hitt fyrirtækið sem á síðan að ráða yfir þessu fyrirtæki er ekki orðið að lögum en menn eru búnir að ákveða hvernig þeir ætla að breyta lögum þarna til þess að geta framfylgt þessu. Virðulegi forseti, þetta tekur út yfir allan þjófabálk.

Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sagði áðan: Viljum við samfélag þar sem ríkið hefur upplýsingar um allt og alla? Ég segi nei. Ég vil ekki slíkt samfélag, ekki undir nokkrum kringumstæðum. Það samræmist ekki skoðunum mínum á nokkurn hátt.

Við veitum samkvæmt 5. gr. þessa frumvarps til laga þessu fyrirtæki lög sem eru öðrum æðri vegna þess að þar segir, með leyfi forseta:

„Fjármálafyrirtæki er skylt að verða við kröfu félagsins“ — þ.e. þessa félags hér — „um að láta í té hvers konar upplýsingar og gögn, þ.m.t. bókhald, sem félagið fer fram á og snerta starfssvið félagsins. Lagaákvæði um þagnarskyldu samkvæmt reglum um fjármálafyrirtæki takmarka ekki skyldu þeirra til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.“

5. gr. þessa frumvarps, ef það verður að lögum, er æðri öðrum lögum. Þrátt fyrir að við séum að ræða þetta í 3. umr. hlýtur einhverjum að hafa dottið í hug að í 5. gr. þyrfti í það minnsta að standa „ef brýna nauðsyn ber til“. Hér er allt galopið. Fjármálafyrirtæki er skylt, óski stjórn þessa fyrirtækis, sem hugsanlega verður skipuð af stjórn annars fyrirtækis, eftir þessum upplýsingum er öllum fjármálafyrirtækjum skylt að veita þær upplýsingar. Af hverju? Jú, af því það stendur í breytingartillögu og framhaldsnefndaráliti meiri hluta hv. efnahags- og skattanefndar — þeir sem komu fyrir nefndina gerðu athugasemdir bæði við 3. og 5. gr.

En meiri hlutinn segir, með leyfi forseta, að það væri: „íþyngjandi og kostnaðarsamar kvaðir á tilgreind fjármálafyrirtæki um miðlun upplýsinga sem raskaði samkeppni á fjármálamarkaði og drægi úr vernd sem viðskiptavinir nytu skv. 58. og 60. gr. laga um fjármálafyrirtæki“.

Þá kemur svarið: Á móti var bent á að ákvæðunum, væntanlega í 3. og 5. gr., væri ætlað að eyða tortryggni skattgreiðenda sem til komin væri vegna lífskjaraskerðingar í kjölfar bankahrunsins og jafnframt að aðilum vinnumarkaðarins væri tryggður umsagnarréttur áður en fjármálaráðherra setti reglugerð um tilgang félagsins samanber lokamálsgreinar 3. og 7. gr. frumvarpsins.

5. gr., sem er galopin og rétthærri öðrum lögum, er sett til þess að eyða tortryggni skattgreiðenda. Það er með ólíkindum, þetta er óvandvirkni. Ég bið um, frú forseti, að hv. formaður efnahags- og skattanefndar komi í andsvar við mig til þess að ég geti fengið svör við þeim vangaveltum sem ég hef lýst í máli mínu. Ég þarf ekki að taka það fram, frú forseti, að ég styð ekki þetta mál.