138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil enn og aftur vekja athygli forseta á því að nokkuð margir eru á mælendaskrá. Enn eiga vonandi töluvert margir stjórnarliðar eftir að setja sig á þá skrá til að taka þátt í umræðunum. Ég veit, frú forseti, að forsætisráðherra og fjármálaráðherra eru hér á fundi og væri ágætt ef forseti gæti beitt sér fyrir því að bæði yrðu í fundarsal að loknum þeim fundi.

Mig langar að vekja athygli, hæstv. forseti, á þeirri grein sem búð er að vitna aðeins í í dag, sem Lárus Blöndal, Sigurður Líndal og Stefán Már Stefánsson lagaprófessorar skrifuðu í dag, en þar er m.a. sagt að halda megi því fram að verið sé að skerða fullveldi landsins umfram það sem stjórnarskrá heimilar. Frú forseti. Er hægt að halda áfram með þennan fund ef einhver vafi leikur á því að við alþingismenn séum að brjóta þann eið sem við skrifuðum undir með því að ganga gegn stjórnarskránni?