138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni, það fer allt eftir samningnum sem gerður er. Matsfyrirtækin sem hafa reyndar laskast ansi mikið í kreppunni undanfarið, sem gáfu íslensku bönkunum hæstu einkunn og íslenska ríkinu sömuleiðis í bólgnu efnahagskerfi, hljóta að fara að hugsa sinn gang mjög alvarlega. Ég hugsa að menn taki miklu minna mark á þeim núna en áður, þannig að „junk bond“ eða ruslbréfaflokkun Íslands mundi ekki virka eins mikið. Ég hugsa að þeir sem eru að lána peninga — sem er nóg til af, það eru til ógurlega miklir peningar í heiminum sem eru vaxtalausir, peningar sem eru mjög áhættufælnir, en það er mjög mikið til af þeim, og þeir eru núna að leita að einhverjum farvegi til að vinna. Þegar þeir sjá það sem er að gerast á Íslandi, afskaplega sterkan útflutning á áli og fiski, hvort tveggja vörur sem eru að hækka í verði, þegar þeir sjá hvernig heimilin hafa brugðist við með því að snúa úr því að vera mestu eyðsluklær Evrópu í það að vera með þeim sparsamari, hvernig fyrirtækin hafa brugðist við í útflutningi og hvernig krónan bregst við er þetta allt saman jákvætt. Svo er hæstv. fjármálaráðherra búinn að einkavæða alla bankana, búinn að bjarga því fyrir horn, þar inn þarf hann ekki að setja mikla peninga. Mjög margt er að breytast. Og bankarnir, þessir tveir, munu gefa okkur leið að fjármálamörkuðum erlendis sem var ekki þekkt áður og sem Landsbankinn fær væntanlega því miður ekki.

Mjög margt jákvætt er að gerast. Ég óttast ekki að við þurfum að sæta mjög háum vöxtum og alls ekki 5,55% eins og er á Icesave-reikningunum. Það eru ævintýralega háir vextir umfram pund og evrur.