145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Staðreyndin er sú að hæstv. ráðherra er á stöðugum flótta frá þessu máli. Hann hefur aldrei viljað koma hingað og standa fyrir máli sínu. Hann nýtur einskis stuðnings í stjórnarliðinu. Það hefur enginn hv. þingmanna Framsóknarflokksins utan sá sem nú stýrir fundum Alþingis tekið til máls í umræðum um málið og þá var það einungis til þess að koma fram með athugasemd í andsvari. Ég ætla ekki að kalla hæstv. ráðherra rolu af því ég má það ekki. En það er alveg ótrúlegt að koma fram með svona mál sem engar röksemdir eru fyrir og þar sem ráðherra stendur meira að segja frammi fyrir starfsmönnum stofnunarinnar og segir: Það þarf engar röksemdir. Þetta er fullkomlega með ólíkindum. Enginn þingmanna Sjálfstæðisflokksins hefur stutt þetta mál í ræðu. Þeir hengslast til þess af því þeir þurfa þess. Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason hefur að vísu tekið til máls og lýst göllum á málinu og meira að segja ærlegum íhaldsmanni eins og fyrrverandi formanni Lögmannafélagsins liggur við uppsölum þegar hann (Forseti hringir.) gengur inn í sal þegar þetta er rætt. Ég fullyrði það, herra forseti, að aldrei hefur verið lagt fram mál af hálfu ríkisstjórnar sem nýtur jafn lítils stuðnings og þetta.