149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

dvalarleyfi barns erlendra námsmanna.

[10:58]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Þessi fyrirspurn hv. þingmanns hefur breyst úr því að lúta að ólögmæti ákvarðana Útlendingastofnunar í það að ólögmætið nái líka til kærunefndar útlendingamála, sem hafi, ef ég skil hv. þingmann rétt, fellt úrskurð sem ekki er í samræmi við lögin.

Nú liggur það fyrir að í lagatextanum er kveðið á um sérstakar aðstæður og menn þurfa þá að meta það í hverju tilviki fyrir sig hvort um sé að ræða sérstakar aðstæður. Það gerir Útlendingastofnun í hverju tilviki fyrir sig, hvort aðstæður séu þvílíkar að ástæða sé til að víkja frá skýrum lagafyrirmælum sem kveða á um niðurstöðu í málinu. Ég hef enga ástæðu til annars en ætla að Útlendingastofnun sem í þessu tilviki, ef rétt er sem hv. þingmaður segir, hefur vísað til niðurstöðu kærunefndar útlendingamála, hafi fylgt þessu verklagi og þeim fyrirmælum í lögum að meta aðstæður í hvert og eitt sinn.