151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[13:07]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við göngum til þessarar atkvæðagreiðslu með það í huga að meira er betra en minna í þessu ástandi. Við leggjum til þrjár breytingartillögur sem eru í rauninni ákveðin lagfæring á göllum í fjárlagafrumvarpinu. Á einn veg vantar að bæta upp lífskjarasamningana fyrir þá sem eru á framfærslu hins opinbera, varðandi atvinnuleysistekjur og lífeyri, svo er það hallarekstur Landspítala – háskólasjúkrahúss og skortur á starfsfólki til að sinna persónuverndarlöggjöfinni. Þetta eru þrjár einfaldar gallalagfæringar. En eins og ég sagði þá göngum við til þessarar atkvæðagreiðslu með því hugarfari að meira sé betra en minna þannig að við styðjum ýmsar útgjaldatillögur, enda eru útgjöldin ekki vandamálið núna. Þau eru það sem þarf til þess að hjálpa til við ástandið eins og það er hérna úti.