154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

framlagning stjórnarmála.

[10:48]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er fínt að heyra hæstv. innviðaráðherra koma hér upp og taka undir gagnrýni okkar í stjórnarandstöðu um verkleysi ríkisstjórnarinnar. Hann tiltekur það að hann sé sjálfur búinn að skila þeim málum inn sem hann boðaði en skilur þó hina ráðherrana eftir í skammarkróknum. Auðvitað snýst þetta ekkert um eitthvert nýtt og bætt verklag ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í: Jú. ) Þetta er það sem við erum að ræða í mötuneytinu alla daga; það falla niður fundir í nefndum. Það liggur hérna fyrir þingmálaskrá, dagskrá ríkisstjórnarinnar sjálfrar, boðuð mál til Alþingis eru 109 talsins, 39 komin inn. Að þetta hafi með einhverja hugmyndafræði um bætt verklag að gera er bara gaslýsing. (Gripið fram í.) Ríkisstjórnin er orðin svo sundruð að öll málin deyja á ríkisstjórnarfundum og koma ekki til kasta Alþingis. (Gripið fram í.) Vaktstöð siglinga var ekki erindi ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.)