154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

gjaldfrjálsar skólamáltíðir og umgjörð þeirra.

402. mál
[12:48]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er lítið en mikilvægt mál og mér fannst flutningsmaður færa ágætisrök fyrir nauðsyn þess. Greinargerðin er skýr og góð. Það er rétt að holl og góð fæða er mikilvæg fyrir börn og ungmenni og styður við vellíðan, eykur jöfnuð og getur stuðlað að bættum námsárangri eins og kom fram. Auðvitað þarf að huga að því að þessu fylgir kostnaður, samfélagslegur kostnaður. Sveitarfélögin, sem eru nú ekki of vel haldin, þurfa að leggja meira inn í þetta og það er eflaust hægt að finna leiðir til að styðja þau við það. Ég styð því markmið þingsályktunartillögunnar en mig langar að spyrja fyrsta flutningsmann hvort við gætum hugsanlega stigið ákveðið skref til að veita öllum börnum á Íslandi a.m.k. niðurgreiddar máltíðir. Ég er með litla þingsályktunartillögu sem liggur hér frammi sem snýst um að fela mennta- og barnamálaráðherra að leggja til að skólamáltíðir framhaldsskólanema undir 18 ára verði niðurgreiddar til jafns við það sem almennt tíðkast í grunnskólum. Þetta er á forræði ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans og á meðan við erum að undirbúa þessi næstu skref, sem fælu í sér ókeypis skólamáltíðir fyrir alla, er þá ekki flutningsmaður og hv. þingmaður sammála mér um að þarna gætu stjórnvöld stigið á undan með góðu fordæmi og gert það sem þau þó ein, ef við berum þau saman við sveitarfélög í landinu, eru ekki að sinna?