154. löggjafarþing — 36. fundur,  23. nóv. 2023.

aðgerðaáætlun til að efla Sjúkrahúsið á Akureyri.

83. mál
[15:05]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka flutningsmanni þessarar tillögu, hv. þm. Ingibjörgu Isaksen, fyrir hennar framsögu hér og hv. þm. Loga Einarssyni fyrir hans greinargóðu og upplýsandi ræðu um stöðuna á Akureyri og víðar. Það er ljóst að þessi tillaga er sett fram í því skyni að skapa vandaða umræðu um þetta mikilvæga mál og ég held að það væri til bóta að þessi tillaga fengi brautargengi. Þetta er liður, eins og í mörgum öðrum málum sem hér koma fram, að efla þjónustu í landsbyggðunum. Þetta er líka liður í því að velta upp nýjum vinklum á þeim vanda sem heilbrigðiskerfið á Íslandi stendur frammi fyrir, m.a. mönnunarvanda og þá kannski ekki síst mönnunarvanda í landsbyggðunum.

En það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Loga Einarssonar, og gott ef ekki líka í máli hv. þm. Ingibjargar Isaksen, að þau sem mennta sig á landsbyggðinni eru líklegri til að setjast þar að og halda áfram að starfa þar. Og það er nú bara þannig að við Íslendingar þurfum á því að halda að vera með lækna í landsbyggðunum. Þetta ágæta mál tengist líka að einhverju leyti má segja máli sem við í Samfylkingunni höfum komið á framfæri um staðsetningu sjúkraþyrlu á Akureyri, að gera þann stað að miðstöð heilbrigðisþjónustu á þessum helmingi landsins. Eins og kom fram í máli þingmanns hér áðan þá er Sjúkrahúsið á Akureyri vel í sveit sett til að þjónusta bæði Norðurland og Austurland og þá kannski ekki síst í því augnamiði að auka öryggi bæði landsmanna og svo auðvitað þess fjölda ferðamanna sem þetta svæði heimsækja, sem eykst nú jöfnum skrefum og jafnt og þétt. Þetta getur líka orðið til þess að létta álagi á Landspítalanum, eins og kom fram áðan.

Ég ætla nú kannski ekki heldur, ekki frekar en hv. þm. Logi Einarsson, að endurtaka ræður mínar frá því í gær þegar við vorum að fjalla um hjartaþræðingar á þessu sama sjúkrahúsi en það er mikilvægt að við í þessu stóra landi förum að hugsa það að við eigum fleiri en eina borg. Akureyri er vissulega staður sem hefur flest það til að bera, ef ekki allt, sem borgir þurfa að hafa, hann er bara mjög lítill, svona eins og ágætur þingmaður nefndi í gær má kalla þetta Bonsai-borg, hann gerir það alla vega, þannig að við þurfum að finna leiðir til að styrkja þann stað. Þetta er klárlega ein af þeim leiðum og ég held að það sé lag líka vegna þess að ég veit til þess að nú eru uppi hugmyndir um að styrkja þá háskólastofnun sem er á Akureyri, m.a. með viðræðum tveggja háskólastofnana um sameiningu og samstarf. Það mætti líta á þetta sem hugsanlegt tækifæri til að koma á fót, bara svo að það sé sagt berum orðum, læknadeild við Háskólann á Akureyri, þannig að það séu þá fleiri en einn háskóli og fleiri en einn staður á landinu sem útskrifar lækna þá með þeim bónus að þeir séu líklegir til að setjast þar að og þjóna þessum hluta landsins.