133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

skattlagning lífeyrisgreiðslna.

382. mál
[17:27]
Hlusta

Flm. (Ellert B. Schram) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram tillögu til þingsályktunar ásamt tveimur öðrum hv. þingmönnum, Jóhönnu Sigurðardóttur og Ágústi Ólafi Ágústssyni.

Tillagan fjallar efnislega um skattlagningu lífeyrissjóðsgreiðslna og þá breytingu á tekjuskattslögum að lífeyrissjóðsgreiðslur skuli skattlagðar eins og um fjámagnstekjur væri að ræða. Þar sem ég er varamaður á þingi og er að falla á tíma hafa þingforsetar verið svo vinsamlegir að greiða fyrir því að málið komist á dagskrá og mér gefist tækifæri til að fylgja því úr hlaði. Ég þakka þá tillitssemi og mun ekki eyða of miklum tíma þingsins í að gera grein fyrir þessari tillögu.

Í gær fór reyndar fram mikil umræða um kjör eldri borgara við 2. umr. fjárlagafrumvarpsins og sú tillaga sem hér liggur fyrir er sömuleiðis um hagsmuni eldri borgara. Málalok afgreiðslunnar í gær sem sneri að bættum kjörum aldraðra voru mér mikil vonbrigði og voru í rauninni sorgleg því að þau kosta ríkissjóð ekki mikil útlát í hlutfalli við veltu ríkissjóðs og í ljósi þess að fjárlög gera ráð fyrir 9 milljarða kr. afgangi. Afgreiðslan í gær var eins og, leyfi ég mér að fullyrða, blaut tuska framan í andlit eldri kynslóðarinnar.

Tillögur minni hlutans sem felldar voru í morgun gengu út á að hækka frítekjumark og lagfæra tekjutryggingu, hækka vasapeninga eldri borgara o.s.frv. og snerust að mestu leyti um það fólk sem þarf að sækja bætur til Tryggingastofnunar ríkisins, fólkið sem ber minnst úr býtum, og sumt af því verður að lifa á strípuðum bótum og þess heldur var þessi niðurstaða dapurleg sem við urðum vitni að í morgun.

Sú tillaga sem ég er framsögumaður að snýr aftur á móti að þeim hópi eldri borgara sem þiggur greiðslur úr lífeyrissjóðum sínum, þar sem þeir hafa greitt af launagreiðslum áður. Samkvæmt lauslegum athugunum kemur í ljós að 90% fólks 67 ára og eldri, eða um 25 þúsund manns, fá greiðslur úr lífeyrissjóðum. Að meðaltali eru lífeyrisgreiðslur ekki, merkilegt nokk, nema um 60 þús. kr. á mánuði. Auðvitað er margt af þessu fólki með aðrar tekjur og ýmist atvinnutekjur eða fjármagnstekjur. Samtals voru tekjur að meðaltali hjá 67 ára gömlu fólki og eldra, ef miðað er við árið 2004, 154 þús. kr. Dreifingin var sú að helmingur lífeyrisþega var með í heildartekjur 114–140 þús. kr. á mánuði og 40% með tekjur á bilinu 140–220 þús. kr. á mánuði. Um 8% voru með minna en 100 þús. kr.

Af þessum tölum má sjá að þessi hópur skattþegna er ekki á háum tekjum með vísan til þess að samkvæmt útreikningum Hagstofunnar er neysluþörf hvers einstaklings á þessum aldri u.þ.b. 200 þús. kr. eftir skatt. Til samanburðar má geta þess að meðaltekjur fólks á aldrinum 25–65 ára voru 285.500 kr. á árinu 2004. En hvort heldur tekjur einstaklings eru 150 þúsund eða 280 þúsund og hvort heldur þeirra er aflað með vinnuframlagi eða þær fengnar úr lífeyrissjóði greiðir viðkomandi almennan tekjuskatt.

Á sama tíma hefur verið lögleiddur annar skattur, fjármagnstekjuskattur, sem eins og allir vita er lagður á vexti og arð og nemur 10%. Með öðrum orðum: Annars vegar er um að ræða fólk sem leggur fé sitt inn á bankabók eða fjárfestir í verðbréfum eða leigir út fasteignir sínar og nýtur ávöxtunar af þeim sparnaði og ávöxtunin eru tekjur sem bera 10% skatt. Hins vegar er hinn almenni launamaður sem greiðir iðgjöld sín í lífeyrissjóðinn og fær lífeyri þegar hann nær lífeyrisaldri en hann greiðir almennan tekjuskatt, 37 eða 38%. Þetta þarf varla að útskýra og þetta þekkja allir en í þessu felst mikið óréttlæti og mismunun. Sparnaður er alltaf sparnaður í eðli sínu og þar á fólk að sitja við sama borð þegar kemur að skattbyrði eða skattútlátum vegna þessa sama sparnaðar. Þessi tillaga til þingsályktunar gengur út að jafna þennan rétt.

Lífeyrissjóðakerfinu var á sínum tíma komið á hér á landi á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Upphaflega var það kerfi hugsað sem viðbót við almannatryggingakerfið sem hefur með tíð og tíma breyst í hálfgert ölmusukerfi með öllum sínum annmörkum og fólk verður í æ ríkari mæli að treysta á lífeyrissjóðinn sem það hefur greitt í og á aðild að. Það er þó engan veginn allt fast í hendi í þeim efnum og alkunna er að margir lífeyrissjóðir hafa ávaxtað sitt pund með misjöfnum árangri og aðilar sjóðsins og launagreiðendur hafa sumir hverjir farið illa út úr sparnaði sínum í lífeyrissjóði. Lífeyrisgreiðslur eru auðvitað hugsaðar til þess að fólk geti séð sér farborða og þær dekki lágmarksframfærslu en það er þó langur vegur frá því að svo sé. Þar tala tölurnar sem ég nefndi áðan sínu máli. Nær helmingur lífeyrisþega fær 114–140 þús. kr. á mánuði, eins og ég gat um áðan, úr sínum lífeyrissjóði og síðan er þessi hungurlús skattlögð af fullum þunga.

Því má heldur ekki gleyma að lífeyrisgreiðslur eru lögbundnar, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Launafólki er ekki boðið upp á neitt val. Þetta er lögþvingaður sparnaður og sparnaðurinn er háður ávöxtun og vöxtum og þar er aldrei á vísan að róa í þeim efnum.

Allt eru þetta að mínu mati röksemdir fyrir þýðingu og gildi þeirrar tillögu sem hér er flutt, að skattar af sparnaði í einu eða öðru formi eigi að búa við og lúta sömu grundvallarreglunum. Sparifjáreigendur eiga ekki að greiða skatt af slíkum tekjum eftir því hvernig til sparnaðarins er stofnað og ég held að það sé heila málið.

Virðulegi forseti. Þessi þingsályktunartillaga felur í sér að líta á allan sparnað sem sparnað og ekki tekjur í almennum skilningi tekjuskattslaganna. Með því að stíga það skref að samþykkja þessa tillögu er komið til móts við langstærsta og fjölmennasta hóp eldri borgara og þetta yrði hin raunverulega kjarabót sem sá hópur gæti fengið og kæmi honum best. Þetta er árangursríkasta skrefið sem við getum stigið til móts við þann hóp landsmanna sem hefur lagt grundvöllinn að ríkidæmi okkar.

Áætlað er að útlát ríkissjóðs nemi um 3 milljörðum ef þessar tillögur ná fram að ganga. Ég vek í því sambandi athygli á að hér er verið að tala um breytingu sem tekur gildi á þarnæsta fjárlagaári, þannig að hún hefur engin áhrif á þau fjárlög sem nú eru hér til afgreiðslu. Mestur hluti þeirrar skattalækkunar sem yrði lenti á sveitarfélögunum og við flutningsmenn tillögunnar leggjum áherslu á að það verði lagað samtímis þessari lagabreytingu. Enn fremur þarf sömuleiðis að skoða bætur frá hinu opinbera, eins og um er fjallað í tillögunni sjálfri, þ.e. að bætur almannatrygginga njóti sömu breytinga í skattlagningu þegar þar að kemur. Þetta hangir hvort eð er allt á sömu spýtunni, enda þótt ekki sé beinlínis gerð tillaga um það að sinni en lagt til að það mál verði skoðað. Það er eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra verði falin verkstjórn í þessu máli því að sjálfsagt þarf að skoða fleiri en eina grein í skattalögunum og málið getur að einhverju leyti verið flókið viðureignar sem sérfræðingar ættu þó að geta leyst úr. Það er hins vegar skoðun okkar flutningsmanna og vilji að Alþingi lýsi yfir stuðningi við tillöguna og við þessa kjarabót og rétti þannig eldri borgurum höndina þeim til sjálfsbjargar.

Að lokum við ég segja þetta, virðulegi forseti: Eftir þær umræður sem áttu sér stað í morgun er svo sem ekki við að búast miklum undirtektum frá meiri hlutanum og stjórnarliðinu sem hér situr á þingi, en ég held að það fari ekki milli mála að sú afgreiðsla var skilaboð í tvær áttir. Þar voru víglínurnar og átakapunktarnir markaðir, annars vegar að ríkisstjórnarliðið hefur engan skilning á högum þess fólks sem hér er um að ræða, það telur mikilvægara að skila 9 milljarða kr. afgangi á fjárlögum frekar en að hækka frítekjumark eldra fólkinu til handa. Þetta eru skilaboðin frá ríkisstjórnarliðinu. Á hinn bóginn eru skilaboðin þau, a.m.k. frá okkur í Samfylkingunni, að þetta mál sem hér er flutt og þær tillögur sem lagðar voru fram í morgun við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins hafi algjöran forgang. Málefni eldri borgara munu sitja í fyrirrúmi ef og þegar Samfylkingin kemst til áhrifa. Um það verður væntanlega kosið á komandi vori og þá vona ég að þar muni ríkisstjórnin mæta sínu Waterloo.

Ég legg svo til að lokum, virðulegi forseti, að þessari þingsályktunartillögu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og síðari umr.