138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég biðst innilega afsökunar á því að hafa ekki verið í salnum þegar kallað var í mig í andsvar. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir hans ræðu. Ég held að við þingmaðurinn séum nú sammála, þó að maður vilji kannski ekki nota það orð of mikið, það hefur verið notað töluvert í þessari umræðu. Ég held þó að við séum sammála um það að þetta mál er ótrúlega viðamikið og alltaf eru að koma nýir og nýir vinklar.

Nú var mjög athyglisverð grein í Morgunblaðinu í morgun eftir tvo prófessora, Sigurð Líndal og Stefán Má Stefánsson og Lárus Blöndal hæstaréttarlögfræðing þar sem þeir fóru í gegnum það hvers konar fjárhagsleg skuldbinding þetta væri. Þeir telja að þessi lög, ríkisábyrgðin, geti hugsanlega stangast á við þrjár greinar stjórnarskrárinnar. Það væri mjög áhugavert að heyra frekar frá þingmanninum um það hvort hann tekur undir þessa skoðun eða ályktun þessara sérfræðinga, þessara virtu fræðimanna á þessu sviði, og hver væru þá mótrökin.

Mér fannst mjög leitt að ég skyldi ekki geta verið fluga á vegg á fundi fjárlaganefndar í gær þar sem kallaðir voru til fjórir sérfræðingar í stjórnskipunarrétti. Þar af virtust tveir geta tekið mjög afdráttarlausa afstöðu um það að lögin eða frumvarpið færi ekki gegn stjórnarskránni, en sá þriðji sagði með semingi að hún teldi þetta ekki stangast á við stjórnarskrána en Sigurður Líndal færði enn á ný rök fyrir sinni skoðun.

Þetta er það sem maður hefur lesið í fjölmiðlunum en ég geri ráð fyrir því að þingmaðurinn, sem er (Forseti hringir.) fulltrúi í fjárlaganefnd, geti farið aðeins betur út í það hver voru rökin (Forseti hringir.) með eða á móti.