138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni hvort ekki sé hægt að finna einhvern flöt á því að fá stjórnarliða í ræðustól sem eru byrjaðir að muldra aftur í hliðarherbergjum um mál sem ættu erindi hingað inn. Margt fólk fylgist með þessari umræðu. Hv. þingmenn líta á klukkuna en ég get fullyrt að þannig er það, fólk fylgist spennt með þessari umræðu og ég held að menn sakni þess sem stjórnarliðar muldra ofan í barminn, að fá það ekki inn í þingsal og í þingtíðindi. Ég held að það mundi skipta máli. Ég hvet virðulegan forseta til að finna leiðir til að koma stjórnarliðum hingað þar sem ég stend núna og jafnvel segja eitthvað.