145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:48]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar niðurskurðarnefnd stjórnarflokkanna, eða hvað hún hét, fór af stað var það eitt af verkefnum hennar, sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir lýsti sérstaklega yfir í upphafi starfs þeirrar nefndar, að skorið yrði niður til þróunarsamvinnu. Menn hafa talað fyrir því innan Framsóknarflokksins. Þá lýsti hún því yfir eftir fyrstu lotu niðurskurðarins til málaflokksins, sem var 1 milljarður, að það væri einungis fyrsta skrefið.

Við erum kannski að sjá að menn ákveða að koma ekki svona beint framan að þessu með því að fara beinlínis í mjög harðan niðurskurð á framlögunum, heldur láta þetta fjara út með því að taka stofnunina fyrst inn í ráðuneytið og fara þá aðra leið að þessu, því að það mætti náttúrlega mjög miklum mótbyr í samfélaginu.

Þess vegna held ég að það skipti máli líka að menn staldri við þegar þeir lesa hvað hér er verið að gera vegna þess að þetta er önnur hlið á sama peningi. Menn ætla sér að skera niður þróunarsamvinnu og gera það þá með öðrum hætti en beinlínis að taka fjármunina hægt og rólega niður og skilja stofnunina eftir berstrípaða, heldur ætla þeir að gera þetta á hinn veginn.

Ég skil ekki hvers vegna menn segja það þá ekki. Hvers konar pólitík er það? Ef menn trúa því að það sé rétt eiga þeir að koma fram og segja það. Mér finnst ákveðinn heigulsháttur vera í þessu máli öllu saman, svo það sé sagt líka.

Virðulegi forseti. Ég veit að hv. þingmaður getur ekki komið hingað upp og svarað mér af því að hann er búinn með andsvörin. En hefði honum einhvern tíma dottið í hug að það væri í lagi að taka Vegagerðina inn í innanríkisráðuneytið þegar hann var þar? Alls ekki. — Hv. þingmaður hristir höfuðið. — Vegna þess að þú tekur ekki fagstofnun sem þú vilt að sé öflug á sínu sviði inn í ráðuneyti. Það gerir enginn, nema hæstv. utanríkisráðherra. Þá er bara ein ástæða fyrir því að menn gera það. Það er af því að þeir ætla að láta málaflokkinn fjara út (Forseti hringir.) en ætla líka að stækka pottinn sem þeir hafa af fjármunum til ráðstöfunar.