145. löggjafarþing — 36. fundur,  18. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir þá hugmynd sem komið hefur fram um að gert verði hlé á þessum fundi. Ég vil biðja hæstv. forseta um að beita sér fyrir því að það mál sem við ræðum hér fari í sáttafarveg. Það virðist vera pikkfast og hvorki hæstv. ráðherra né hv. þingmenn sem styðja ríkisstjórnina koma hér til að ræða það.

Ég held líka að það þurfi að skapa hér rými svo hæstv. ráðherrar, eins og hæstv. húsnæðismálaráðherra geti komið með mál sem kallað hefur verið eftir og hún hefur talað um að þurfi að koma á dagskrá. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur heldur ekki komið sínum málum á dagskrá um rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar og gjaldtöku af henni. Ég held að það séu mörg mál sem hæstv. ráðherrar hljóta að vera að brenna inni með við ættum frekar að taka hér til umræðu.