141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

rekstur framhaldsskóla.

250. mál
[16:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu efni. Ef svo færi að við færðum rekstur framhaldsskóla yfir til sveitarfélaga værum við að gera það sama og margar nágrannaþjóðir okkar hafa gert en þar gegna sveitarfélög miklu stærra hlutverki en þau gera hér á landi í ýmsum rekstri og þjónustu.

Undanfarin ár hefur efnahagsleg staða sveitarfélaga og ríkis hins vegar verið mjög þröng og innleiðing nýrra framhaldsskólalaga hefur líka staðið yfir. Mér finnst mikilvægt að við skoðum þessa spurningu bæði almennt, út frá þeim grundvallaratriðum sem hún byggist á, en líka út frá stöðunni eins og hún er. Auknar skyldur hafa verið lagðar á framhaldsskóla, með fræðsluskyldu nemenda yngri en 18 ára. Skólunum hefur verið veitt aukið sjálfræði til að endurskoða námsframboð og móta námsbrautir og ný námskrá hefur verið sett. Af því að hv. þingmaður nefndi samfellu skólastiga þá er í gildi ný námskrá sem gerir ráð fyrir samfellu með sömu grunnþáttunum og sama hæfnisþrepakerfinu frá leikskóla upp í framhaldsskóla. Er það fyrsta námskráin þar sem unnið er að því að endurskoða námstíma og skil milli skólastiga.

Mjög viðamiklar breytingar standa yfir. Sú lagatúlkun verið hefur staðfest hvað varðar ný framhaldsskólalög að landið er eitt innritunarsvæði. Ef farið yrði út í tilraunaverkefni eins og rætt hefur verið um, ef við færðum framhaldsskólann frá ríki til sveitarfélags í tilteknu sveitarfélagi, þyrfti að fara yfir framhaldsskólalögin og kanna hvort sá skóli mundi áfram þjóna landinu öllu eins og gert er ráð fyrir í lögum, eða ætlum við að breyta út af því. Þetta er ein þeirra spurninga sem þarf að svara. Bent hefur verið á að um leið og við gefum skólunum aukin tækifæri á að sérhæfa sig, bjóða upp á sérhæfðar námsbrautir, þá skipti máli að þær námsbrautir séu í boði fyrir landið allt. Kannski vill ekki mikill fjöldi sækja slíkar námsbrautir en eigi að síður þurfa þær að vera í boði. Þetta er það sem taka þarf tillit til þegar við ræðum þessa spurningu og líka staða sveitarfélaga sem taka nú við umfangsmiklum málaflokkum fatlaðra og aldraðra.

Hafandi sagt þetta þá er ég hins vegar ekki í grundvallaratriðum á móti því að sveitarfélög taki við rekstri framhaldsskóla. Ég tel meira að segja fremur líklegt en hitt að það verði í framtíðinni og ég tel fyrst og fremst að þær breytingar þurfi að undirbúa vel. Það þarf þá að svara því hvernig við ætlum að tryggja fjölbreytni í námsframboði, hvernig við ætlum að tryggja flæði nemenda á milli sveitarfélaga. Við höfum lent í vandræðum með það, til að mynda í tónlistarskólakerfinu, þar sem settar voru ákveðnar girðingar á flæði nemenda milli sveitarfélaga. Þetta þarf allt að hafa í huga. En ég hefði hins vegar talið æskilegt að innleiðingu nýrra framhaldsskólalaga væri lokið áður en farið væri að færa framhaldsskólana yfir til sveitarfélaganna.

En af því að hv. þingmaður spyr um umleitanir um þetta mál er skemmst frá því að segja að ekkert formlegt erindi hefur borist í minni tíð sem mennta- og menningarmálaráðherra frá neinu sveitarfélagi um að taka við rekstri framhaldsskóla. Ég hef þó haft af því spurnir núna, af því að sveitarfélagið Garðabær hefur verið í umræðunni, að það hafi óskað eftir fundi en ekkert formlegt erindi hefur borist. Því er til að svara að öll slík erindi eru skoðuð með opnum huga og þá út frá því hvaða hugmyndafræði er lögð til grundvallar hjá viðkomandi sveitarfélagi, hvernig ætlunin er að taka á þeim álitaefnum sem ég nefndi. En svona heilt yfir, af því að hv. þingmaður spyr hvort slík yfirfærsla væri möguleg yfir allt landið, hefði ég talið mikilvægt að innleiðingu nýrra laga og námskráa væri í öllu falli lokið.