141. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2012.

einelti í skólum.

252. mál
[17:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Það er hárrétt að orð eru til alls fyrst en þeim verða að fylgja gjörðir. Við getum sagt að með því að beita annan einelti sé unnið markvisst að því að draga úr hæfni viðkomandi einstaklings til að byggja upp traust til annars fólks til að eiga eðlileg og ástrík samskipti seinna í lífinu og það getur haft áhrif fram eftir öllum aldri.

Það er auðvitað mikill samfélagskostnaður af slíkri reynslu sem einstaklingar þurfa að ganga í gegnum og það er líka mikill samfélagskostnaður af því að veita þeim alla þá hjálp sem þeir þurfa jafnvel seinna meir til að vinna sig út úr þessu. Því segi ég: Komi upp einhverjir slíkir tilburðir er mikilvægt að skólar taki á þeim strax. Oft er hægt að leysa þessi mál á staðnum. Þar skiptir auðvitað margt máli. Það er til að mynda góður árangur af því að foreldrar taki virkan þátt í starfi skólanna með börnum sínum þannig að þeir séu líka meðvitaðir. Ég hef lagt áherslu á það. Það er auðvitað mikilvægt að skólarnir bregðist við en líka að foreldrarnir taki virkan þátt í skólastarfinu því að þeir geta haft mikið að segja um lausn slíkra mála.

Það sem við höfum gert er að setja þessa reglugerð þannig að nú er þetta orðinn eðlilegur hluti af starfi skóla rétt eins og að fylgja námskrá. Síðan er það auðvitað sveitarstjórna og ráðuneytis að fylgjast með því að þessum orðum fylgi gjörðir. Við tökum það hlutverk alvarlega.

Ég vil nefna að þegar ég tók við komu stundum upp mál þar sem fólk leitaði beint til ráðherra hreinlega því að það vissi ekki hvert það gæti leitað næst, það var þá búið að fara í gegnum allt kerfið. Ég vona að það fagráð sem við höfum sett á laggirnar virki þannig að það geti gripið inn í og tekið slík mál og reynt að finna lausnir á þeim. Stundum þarf hreinlega einhver að koma utan frá (Forseti hringir.) þegar í óefni er komið, en við viljum helst að engin mál fari svo langt.