143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:00]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að hlýða á þessar rökræður því að þær eru gott vitni um þá greiningu sem er vel þekkt hjá þeim sem fást við stjórnmálafræði og stjórnmálagreiningu. Það er algeng retórík hjá þeim sem eru á hægri væng stjórnmálanna að setja upp mál sitt sem ekki meðvitað val um tilteknar aðgerðir heldur nauðsyn. Það hefur auðvitað verið mjög áberandi í þessari fjárlagaumræðu að í stað þess að stjórnarmeirihlutinn viðurkenni að hann tók meðvitaða ákvörðun um að afsala almenningi tekjum af hinu sérstaka veiðigjaldi, vildi ekki fara þá leið sem lögð var til á síðasta kjörtímabili að innheimta sanngjarna auðlindarentu, þar af leiðandi þarf að skera niður, en í staðinn fyrir að viðurkenna bara þá pólitísku ákvörðun sem hér var tekin fara menn í miklar æfingar í ræðustól og tala um nauðsynina sem hafi legið að baki, eins og þegar við ræðum þróunarsamvinnu.

Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur að þróunaraðstoð er eitt mikilvægasta verkefni okkar sem tiltölulega ríkrar þjóðar að standa vel að. Þar með ætla ég ekki að láta eins og Íslendingar hafi almennt staðið sig vel í þessu sögulega, það er ekkert þannig, ekki heldur á síðasta kjörtímabili. Það sem var gott þá var að hér var samþykkt þingsályktun með yfirgnæfandi meiri hluta, eins og hv. þingmaður fór yfir, um að við ætluðum að standa okkur betur. Eins og ég hef margoft rætt er þetta ekki einu sinni hægri/vinstri pólitík. Það dugir bara að leita til hægri stjórnarinnar í Svíþjóð sem hefur sýnt umtalsverða samfélagslega ábyrgð í þessum efnum og íslenskir hægri menn mættu kannski læra aðeins af þeim.

Ég ætlaði raunar ekki að ræða þetta. Ég ætlaði að ræða um niðurskurð sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni, þ.e. niðurskurði í ráðuneytum og stjórnsýslu og ekki síst í utanríkisráðuneyti, þá er ég ekki að tala um þróunarsamvinnu heldur bara stjórnsýsluna almennt. Þetta er áhyggjuefni því að við erum nýbúin (Forseti hringir.) að fá skýrslu frá rannsóknarnefnd Alþingis þar sem einmitt var talað um hina veiku stjórnsýslu. (Forseti hringir.) Deilir hv. þingmaður áhyggjum mínum af þeim þætti þessara breytingartillagna?