131. löggjafarþing — 37. fundur,  24. nóv. 2004.

Afsláttarkort.

108. mál
[13:00]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það kom í ljós eins og mig grunaði að hæstv. ráðherra veit ekki hversu margir hafa greitt umfram hámarkið og sækja ekki um afsláttarkortið. Það er hópurinn sem ég var að benda á. Fólk sem er það mikið veikt eða það mikið fatlað að það getur ekki borið sig eftir kvittununum, safnað þeim saman og borið sig eftir afslættinum.

Auðvitað verður að koma til móts við þann hóp því hann getur ekki nýtt sér kjörin með þessum hætti. Ég benti á dæmi þar sem aðstandandi hafði leitað til heilsugæslunnar eftir kvittun frá stjórnsýslu heilsugæslunnar þar sem sýnt er fram á að viðkomandi hafði borgað umfram hámarkið og Tryggingastofnun neitar að láta hann hafa afsláttarkort út á hana. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki tilbúinn til að beita sér fyrir því að þegar fram koma kvittanir, löggild frumrit frá yfirstjórn heilsugæslunnar, að sjá til þess að tekið sé mark á því í Tryggingastofnun alveg eins og bleiku miðunum eins og gert er þegar útskriftir koma frá apótekunum vegna afsláttar eða niðurgreiðslu á lyfjum. Þarna held ég að hægt verði að koma til móts við þennan hóp en auðvitað á að koma þessu þannig fyrir að viðkomandi hafi kort eða eitthvert skírteini þar sem hægt er að sjá á rafrænum upplýsingum hversu mikið er búið að greiða fyrir læknisþjónustu eða heilsugæslu á árinu, þannig að það komi sjálfkrafa fram á kortinu þegar menn eru búnir að borga hámarkið. Það er mjög viðkvæmur hópur sem líður fyrir það hvernig fyrirkomulag hlutanna er. Ég treysti því að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir því að gerð verði bragarbót á þessum hlutum því ástæðulaust er að láta þennan sjúklingahóp líða fyrir þetta. Það ætti að vera auðvelt að kippa því í liðinn að hvert frumrit, kvittanir frá heilsugæslunni, gildi þegar afsláttarkortin eru annars vegar eins og kvittanirnar frá læknum.