135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

fátækt barna á Íslandi.

127. mál
[14:47]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að vekja máls á málefninu en engu að síður er það svo að það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann. Það er orðið hlutskipti Samfylkingarinnar í núverandi ríkisstjórn, að ganga á bak orðanna sem hún lét falla í kosningabaráttunni sl. vor þegar hún ætlaði að gera allt fyrir alla og ekki síst fyrir barnafjölskyldur og fátæk börn. Við hljótum að velta fyrir okkur hvers vegna þess sér ekki stað í fjárlagafrumvarpi sem Samfylkingin ber a.m.k. að hálfu ábyrgð á fyrir næsta ár, að hækkaðar séu t.d. barnabætur og vaxtabætur. Af hverju hefur Samfylkingin fellt breytingartillögur við fjárlagafrumvarp frá okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, sem miða m.a. að því að bæta afkomu fátækra fjölskyldna í landinu. (Forseti hringir.) Ég er sannfærður um að hv. þm. Helgi Hjörvar getur gert grein fyrir afstöðu sinni á þeim tveimur mínútum (Forseti hringir.) sem hann hefur til umráða.