138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við þingmenn stóðum fram undir morgun hér við að ræða þetta eitt mikilvægasta mál Íslandssögunnar og gerðum það með okkar eigin krafti og af okkar eigin sannfæringu hvert um sig. Það stjórnar mér enginn með excel-skjali og hv. þingmenn stjórnarliðsins geta hér með skjalfest það í sínar minnisbækur.

Frú forseti. Það olli mér miklum vonbrigðum að sjá þau viðbrögð sem hæstv. forseti sýndi við þeim athugasemdum sem bárust í nótt frá stjórnarþingmönnum varðandi það að þingpallarnir væru lokaðir. Það tók tvo tíma fyrir hæstv. forseta að athuga hvort þetta væri raunin og kanna hvernig á stæði. Þetta er einfaldlega nokkuð sem við eigum ekki að líða á Alþingi Íslendinga. Ég heyrði það á máli hæstv. forseta í gær að í dag stæði til að halda fund í forsætisnefnd. Ég óska eftir því að hæstv. forseti upplýsi okkur um það hvenær sá fundur verður haldinn vegna þess að það er gríðarlega brýnt að forsætisnefnd og forseti (Forseti hringir.) reyni að ná einhverjum tökum á því hvernig við högum okkur í þingsalnum, bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar. Í nótt upplifði ég það (Forseti hringir.) að stjórnarliðar sátu í hliðarsal og kölluðu fram í.