138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:25]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lítið finnst mér leggjast fyrir hv. þm. Atla Gíslason. (AtlG: Af hverju persónugera?) Vinstri grænir lögðust hart gegn því … (Gripið fram í.) Ég skal ekki beina þessum orðum mínum til einstakra manna, ég biðst afsökunar ef ég hef gert það. En Vinstri grænir lögðust á sínum tíma gegn breytingunum á þingskapalögunum. Það eru þeir sem stjórna því að hér eru þingfundir langt fram á nætur. Það fer í bága við þær breytingar sem gerðar voru á þingskapalögum. Það fer í bága við það markmið að gera Alþingi að fjölskylduvænum vinnustað. (AtlG: Lestu þingsöguna.) Það þarf að ræða fundarstjórn forseta. Það er alveg á hreinu þegar forsetar svara engum spurningum sem að þeim er beint og neita að gefa upp hversu lengi standi til að hafa þingfund. Það má vel vera að Vinstri grænir hafi ekki farið oft upp í fundarstjórn forseta en það er vegna þess að þeir gátu talað út í hið óendanlega. Við erum að tala um Íslandsmeistarana í málþófi. Á hverju einasta ári þegar Vinstri grænir voru í stjórnarandstöðu, og þau ár voru mörg, hófu þeir málþóf. Þeir koma svo hér upp og leyfa sér að vera með einhvern geislabaug og skammast út í það að við viljum ræða þetta mál. Það var tekið með ofbeldi út úr fjárlaganefnd. Hvernig væri, vegna þess að ég hef ekki farið í fyrir fram ákveðin andsvör, (Forseti hringir.) að hv. þingmaður mundi ekki persónugera slíkt jafnvel þótt einhver úr stjórnarmeirihlutanum taki gögn (Forseti hringir.) einhvers þingmanns sem vill skipuleggja sig og lekur þeim í fjölmiðla?