143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er stuttur tími fyrir stórar spurningar en hin spurning mín lýtur í raun og veru að því sama en þó á ólíku sviði. Hv. þingmaður nefndi líka í ræðu sinni stefnuna í málefnum framhaldsskólans sem vissulega er nokkuð óljós, ég get tekið undir það, og nú virðist vera til umræðu að því þurfi að breyta, þ.e. því mixi og bixi sem var hér og við ræddum ítarlega í kringum fjáraukalögin. Það sýnir þörfina á ítarlegri umræðu um þau mál, virðulegi forseti. Þar höfum við verið að spyrja eftir því hver stefnan sé og eins og hv. þingmaður nefndi er þar ýmislegt undir. Það er verið að ræða styttingu. Ég gat ekki ráðið annað af textanum sem fylgdi fjáraukalögunum en að í raun væri verið að tala um að halda óbreyttri stefnu með einhverjum nýjum formerkjum, en hins vegar er verið að ræða um sameiningar framhaldsskóla.

Ég vil spyrja hv. þingmann. Ég tel að stundum geti sameiningar skilað talsverðri faglegri samlegð en þegar verið er til að mynda að sameina skólastofnanir sem eru jafnvel langt hver frá annarri landfræðilega, snýst þetta þá ekki bara um að spara eina stöðu (Forseti hringir.) skólastjórnanda sem um leið getur haft verulega neikvæð áhrif á faglegt starf í skólum?