146. löggjafarþing — 37. fundur,  1. mars 2017.

opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.

156. mál
[16:23]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Má Einarssyni fyrirspurnina. Mín skoðun á skipulagsvaldi, eða skipulagsskyldu eins og sumir vilja tala um, er að það er grunnatriði fyrir mér að öryggishagsmunir íbúa landsins séu hafðir að leiðarljósi í málinu. Það er grundvallaratriði að einstök sveitarfélög geti ekki gengið gegn öryggishagsmunum einstakra íbúa.

Þá hef ég talað um „riksintresse“ og hvernig menn gera í Svíþjóð, taka helstu grunninnviði undir riksintresse vegna öryggishagsmuna landsins. Við höfum mjög gott dæmi um hvernig menn hafa verið að taka á málum á Bromma-flugvelli í Stokkhólmi sem er mjög sterkt dæmi og gefur góða mynd af því hvernig við gætum staðið að málum. Í Svíþjóð eru um 30 af þeirra helstu 100 flugvöllum sem falla undir þetta hugtak, riksintresse. Þeir eru síðan með brýr, lestarteina, orkuinnviðina, þ.e. raforkuflutninginn og virkjanir og annað, líka undir þessu hugtaki. Ég tel og hef talið lengi að það eigi mjög eftir að þroska þessa umræðu hér á landi. Ef við tökum nágrannalöndin eru menn komnir miklu lengra í þessu, samanber Svíþjóð, Noreg, Danmörk, England, Holland varðandi þessi mál.

Auðvitað vil ég sátt í málinu. Hún hefði átt að vera komin á fyrir löngu síðan. Lóðaúthlutanir og vinna varðandi borg og ríki, sjálfsagt mál að taka þá umræðu. En þetta er kannski ekki alveg það sem við eigum við, flutningsmenn þessarar tillögu. Þetta snýst um (Forseti hringir.) að það er komið upp alvarlegt ástand og hvernig menn ætla að tækla það á næstunni.