151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[18:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisandsvar og gott að hún tiltók þá sérfræðinga sem komu að þessari vinnu. Ég saknaði þess reyndar svolítið að guðfræðingur skuli ekki hafa verið ráðinn til starfa líka, (SilG: Siðfræðingur.) já siðfræðingur, einmitt. Ég hef rakið það sem mér finnst vanta í þetta frumvarp og tel mjög mikilvægt sérstaklega þetta með tölfræðina. Mín tilfinning gagnvart þessu máli er sú að það sé verið að reyna að réttlæta, ef það má orða það þannig, frekar þessa vinnu vegna þess að það sé svo stór hópur sem þetta snertir. En svo þegar maður fer að skoða tölfræði erlendis frá þá stangast sá fjöldi algjörlega á við þær tölur sem maður getur séð, t.d. frá Bandaríkjunum. Maður hefur á tilfinningunni að það sé verið að setja miklu fleiri undir þennan hatt en hægt er að gera læknisfræðilega, sérfræðilega, eins og við sjáum í þeim tölum sem ég nefndi frá Bandaríkjunum. Mér finnst mjög einkennilegt við þetta mál hvers vegna menn setja fram þessa tölu en ég er þeirrar skoðunar að hún sé ekki rétt. Miðað við það sem ég hef skoðað og í þeim greinum og rannsóknum sem ég fletti upp á netinu og fór í gegnum þá stangast þetta á.