151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[19:19]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég verð svo sem að viðurkenna að ég róast ekkert við það þó að hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir leggi það til að ég hafi ekki áhyggjur af þessu, hún ætli að passa upp á þetta. Ég held að hv. þingmaður hafi misskilið mig. Gagnrýni mín stendur öll upp á punkt þrátt fyrir innlegg hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur. Gagnrýni mín stendur alveg upp á punkt hvað það varðar að aðgengi okkar þingmanna að upplýsingum og sjónarmiðum sem fram hafa komið á læknisfræðilegum forsendum er mjög takmarkað, einfaldlega vegna þess að í frumvarpinu er ekki farið inn á þau sjónarmið sem téðir læknar höfðu uppi í þessum starfshópi. Það er bara alls ekki. Það sem skín helst í gegn og maður gefur sér er að frá þeim séu komnir þeir varnaglar sem þó eru þarna inni.

Síðan kemur nefndarálitið, og af því að ég sé að hér inni eru alla vega tveir nefndarmenn í augnablikinu, þrír með hæstv. forseta, þá er ekkert sem bendir til þess að málið hafi verið skoðað með þeim hætti að okkur þingmönnunum hinum sem ekki höfum þetta góða aðgengi að upplýsingum eða nefndarstarfinu geti liðið bærilega með það. Það eina sem kemur út úr nefndaráliti meiri hlutans er að það eigi að vera í algjörum forgangi hvort ekki sé rétt að afnema þessa sérreglu. Það eru skilaboðin. Önnur skilaboð, hvað þá skilaboð út frá læknisfræðilegum forsendum, eru ósköp lítil fyrir okkur almennu þingmennina sem ekki erum hluti af nefndinni og enginn okkar var í þessari nefnd. (Gripið fram í.)