151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

skattar og gjöld.

314. mál
[21:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, tryggingagjald o.fl., fyrir hönd meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Eins og kemur fram í nefndarálitinu fékk nefndin á sinn fund fulltrúa m.a. frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Alþýðusambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Samtökum ferðaþjónustunnar, Skattinum, BSRB og Félagi íslenskra atvinnuflugmanna.

Frumvarpið varðar ýmsar breytingar á lögum um skatta og gjöld, m.a. breytingar á tryggingagjaldi, þ.e. tímabundna lækkun, breytingar á tekjuskatti, vörugjaldi og bifreiðagjaldi auk breytinga og samræmingar vegna breytinga sem hafa orðið á öðrum lögum. Eins og kemur fram í nefndaráliti þá sendi Samband íslenskra sveitarfélaga umsögn þar sem óskað var eftir því að sveitarfélögum yrði tryggður rafrænn aðgangur að álagningarskrám.

Álagningarskrár og skattskrár hafa að geyma persónugreinanlegar upplýsingar um einstaklinga og lögaðila og fjárhagsmálefni þeirra sem njóta verndar 117. gr. laga um tekjuskatt og eftir atvikum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Meiri hlutinn telur þarft að sveitarfélög geti fylgst með tekjustofnum sínum. Þó verður að gæta að hagsmunum skattaðila og ekki síst einstaklinga og að miðlunin gangi ekki lengra en nauðsyn krefur. Telur meiri hlutinn vandséð að hagsmunir sveitarfélaga af varanlegri miðlun persónugreinanlegra upplýsinga um fjárhagsmálefni skattaðila til sveitarfélaga geti vegið þyngra en hagsmunir þeirra sem gögnin fjalla um.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að Skatturinn geti miðlað mánaðarlega og endurgjaldslaust til sveitarfélaga upplýsingum um samtímastaðgreiðsluskil með greiningu niður á flokkun atvinnugreina sem útfærð verði með sérstakar þarfir sveitarfélaga í huga. Meiri hlutinn telur þess háttar miðlun betur til þess fallna að ná framangreindum markmiðum án þess að gengið sé með íþyngjandi hætti á hagsmuni skattaðila.

Með lögum nr. 37/2020 var bætt við lög um tekjuskatt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að Skattinum væri, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 98. gr., ekki skylt að leggja fram álagningarskrá fyrir hvert sveitarfélag að lokinni álagningu skattaðila á árinu 2020 vegna tekna 2019. Í 8. gr. frumvarpsins sem hér ræðir er lagt til að ákvæðið verði framlengt og taki til álagningarskrár að lokinni álagningu skattaðila á árinu 2021 vegna tekna ársins 2020. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að mikilvægi ákvæðisins megi rekja til þess fjölda sem gerir sér ferð í afgreiðslu Skattsins við framlagningu álagningarskrár. Tryggja þurfi að Skatturinn geti uppfyllt lögbundnar skyldur sínar en þó tekið tillit til reglna um takmarkanir á samkomum sem og gætt að almennum sóttvarnasjónamiðum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Með sömu rökum er í 9. gr. frumvarpsins lögð til sambærileg undanþága um framlagningu virðisaukaskattsskrár.

Meiri hlutinn telur ótímabært að slá því föstu að sömu sjónarmið um samkomutakmarkanir og sóttvarnir muni eiga við þegar kemur að framlagningu skránna á árinu 2021. Leggur meiri hlutinn því til að 8. og 9. gr. frumvarpsins falli brott.

Í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið leggur meiri hlutinn til hækkun á neðri skerðingarmörkum tekna vegna barnabóta sem koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2021. Við það munu skerðingarmörk einstæðs foreldris fara úr 3,9 millj. kr. í 4,2 og hjá hjónum úr 7,8 millj. kr. í 8,4. Gert er ráð fyrir að þær hækkanir sem lagðar eru til á skerðingarmörkum tekjustofns leiði til 865 millj. kr. hækkunar á þeim útgjöldum ríkisins.

Þá er vert að benda á framlengingu bráðabirgðaákvæða er varðar lög um skatta og gjöld, en bætt var við lög um tekjuskatt, lög um staðgreiðslu opinberra gjalda og lög um virðisaukaskatt ákvæðum til bráðabirgða um að álag verði ekki lagt á samhliða sektum í skattamálum á árinu 2020. Ákvæðunum er ætlað að koma í veg fyrir að ágalli geti orðið á málsmeðferð skattrannsóknarstjóra vegna tvíhliða viðurlaga. Fyrir nefndinni liggur hins vegar frumvarp frá fjármála- og efnahagsráðherra um breytingu á lögum er varða rannsókn og saksókn skattalagabrota, tvöföld refsing, og á meðan er talið nauðsynlegt að framlengja gildistíma bráðabirgðaákvæðanna.

Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021, þ.e. 5. mál á yfirstandandi þingi og hefur þegar verið afgreitt, var gerð grein fyrir vanda ökutækjaleiga vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Lögðu samtökin til að heimilt yrði að lækka skráða losun ökutækja sem ökutækjaleigur flyttu inn um tiltekið hlutfall við útreikning vörugjalds.

Meiri hlutinn telur eðlilegt að skapaðir verði tímabundnir hvatar fyrir ökutækjaleigurnar til þess að fjárfesta í vistvænum ökutækjum með það að markmiði að hraða orkuskiptunum. Leggur meiri hlutinn til að við lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, bætist ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um að lækka skuli skráða losun koltvísýrings ökutækja sem falla undir 1. mgr. 3. gr. laganna um 30% áður en til álagningar vörugjalds kemur vegna ökutækja sem ætluð eru til útleigu hjá ökutækjaleigum. Lækkunin geti hins vegar aldrei numið hærri fjárhæð en 400.000 kr. á hvert ökutæki. Lækkunin er háð því skilyrði að ökutækjaleiga skuldbindi sig til þess að kaupa inn vistvænar rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðar sem nemi tilteknu hlutfalli heildarinnkaupa ökutækja, eða 15% á komandi ári og 25% árið 2022.

Markmið ákvæðisins er líkt og að framan greinir að hraða orkuskiptum með því að skapa jákvæða hvata fyrir ökutækjaleigur til þess að fjárfesta í vistvænum ökutækjum. Með það markmið í huga og til þess að koma í veg fyrir misnotkun úrræðisins er lagt til að þeim ökutækjaleigum sem ekki standa við skuldbindingu sína um lágmarkshlutfall vistvænna ökutækja verði gert að endurgreiða mismun á vörugjaldi samkvæmt ákvæðinu og fullu vörugjaldi að viðbættu 10% álagi og í ákveðnum tilvikum dráttarvexti.

Meiri hlutinn bendir hins vegar á að ráðast þurfi í gagngera endurskoðun á laga- og regluverki ökutækjaleiga hér á landi þar sem m.a. verði hugað að kröfum um gerð ökutækja hjá ökutækjaleigum, hagrænum hvötum til að stuðla að vistvænum bílaflota og reglum um hámarksnotkun og lágmarksendurnýjun ökutækja. Að baki þessu er sú sannfæring að ökutækjaleigur geti rutt brautina í orkuskiptum í samgöngum.

Að lokum leggur meiri hlutinn til í samráði við ráðuneytið að frestur til að veita stuðningslán samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020, verði framlengdur þannig að unnt verði að veita lánin út maí 2021.

Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til eru tæknilegs eðlis og er ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.

Að þessu sögðu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálit þetta rita hv. þingmenn Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Willum Þór Þórsson.