154. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2023.

tímabundinn stuðningur til greiðslu launa vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ.

508. mál
[17:18]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég styð þetta mál eins og ég held að við gerum hér öll. Ég kem hér upp aðallega til þess að gera grein fyrir örlitlum fyrirvara sem ég setti við nefndarálit nefndarinnar, velferðarnefndar, sem afgreiddi þetta mál. Hann er svohljóðandi að ég riti undir álitið með fyrirvara um annars vegar að tilmæli og áherslur nefndarinnar sem fram koma í álitinu séu talin nægilega skýrt útfærð í texta og greinargerð frumvarpsins. Þennan fyrirvara geri ég vegna þess að þetta mál var unnið mjög hratt, enda brýnt, og ég fékk þau svör við vinnslu málsins í nefndinni að það væri litið svo á að tilmæli nefndarinnar væru komin nægilega skýrt fram í lagatexta. Mér hefur sjálfri þótt bera aðeins of mikið á því að þingmenn ofmeti vægi nefndarálita við lagatúlkun og því hafði ég áhyggjur af þessu og ákvað að setja þennan fyrirvara. Ég var engu að síður fullvissuð um þetta í nefndinni, án þess þó að mér gæfist tími eða tækifæri til þess sjálf að garfa í því með minni lögfræðiþekkingu og því set ég þennan fyrirvara við málið.

Hinn fyrirvarinn sem ég geri er í rauninni bara árétting á því að hér sé um sértæka en ekki almenna aðgerð að ræða og það þurfi að fylgjast vel með henni svo unnt verði að ná til fólks sem fellur utan gildissviðs frumvarpsins. Það er nefnilega svo mikilvægt þegar upp koma aðstæður á borð við þessar að við tökum utan um alla. Þetta frumvarp er mikilvægt skref en við höfum örlitlar áhyggjur af því að þetta nái ekki utan um alla og því beini ég því til ríkisstjórnarinnar að vera á varðbergi gagnvart því og grípa skjótt inn í þegar kemur á daginn hvort og hverjir það eru sem falla þarna á milli skips og bryggju.

Þegar fólk lendir í áföllum á borð við það sem Grindvíkingar hafa verið að ganga í gegnum núna síðustu daga og vikur, þetta er sannarlega mikið áfall, þá er margt fólk sem veit ekki einu sinni hvort það mun komast heim til sín eða ekki og hversu lengi það verður þannig. Þetta er gríðarleg óvissa og mikið áfall og það er óásættanlegt að í slíku áfalli þurfi fólk á sama tíma að hafa áhyggjur af sinni afkomu. Mögulega væri betra að hafa úrræði í formi styrkja til fólks sjálfs fremur fyrirtækja en það þurfti auðvitað að finna skjóta úrlausn og eitt markmið þessa frumvarps er að koma í veg fyrir að fólk missi vinnuna og koma í veg fyrir að fyrirtæki neyðist til að segja upp sínu fólki vegna þessara aðstæðna. Þetta er svipað úrræði og var komið á í Covid-heimsfaraldrinum og þar vitum við að mjög mörg féllu á milli stafs og hurðar. En ég styð þetta mál með þessum smávægilega fyrirvara.