140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

umboðsmaður skuldara.

360. mál
[22:30]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Hv. þm. Lúðvík Geirsson, framsögumaður meiri hluta, fór í gegnum efnisatriði málsins. Í andsvörum spurði hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hvort menn hefðu ekki haft áhyggjur af hækkandi kostnaði við stofnunina. Það má segja að ég fjalli í nefndaráliti mínu fyrst og fremst um áætlaðan kostnað af rekstri og því verkefni að laga skuldir fólks að greiðslugetu þess.

Þegar lög um umboðsmann skuldara voru innleidd voru gerðar mjög umfangsmiklar lagabreytingar sem þáverandi félags- og tryggingamálanefnd stóð að, Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna var lögð niður og umboðsmaður skuldara tók við verkefnunum, en samhliða voru lög um greiðsluaðlögun einstaklinga, lög um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði og lög um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota lögfest frá Alþingi. Þetta var hins vegar ekki fyrsta tilraun til að innleiða greiðsluaðlögun á Íslandi. Þegar það var gert fyrst voru ákvæði nauðasamninga til greiðsluaðlögunar lögleidd með lögum nr. 24/2009. Við það tækifæri lýsti ég miklum áhyggjum mínum af því hversu umfangsmikið þetta verkefni yrði og af þeirri leið sem stjórnvöld höfðu valið, þ.e. að beina heimilum landsins í gegnum þetta greiðsluaðlögunarferli. Það hefur sýnt sig að þau viðvörunarorð sem ég hafði þar uppi hafa sannarlega orðið að raun.

Verkefnið varð, og er, mun umfangsmeira en stjórnvöld áætluðu. Stjórnvöld hafa líka haft mjög mikla tilhneigingu til að vanmeta kostnaðinn. Ég tel að það sé fyrst og fremst vegna þeirrar tregðu sem stjórnvöld sýndu mjög lengi við það að fara í almennar aðgerðir vegna skuldavandans.

Þegar við vorum að fara í gegnum þetta mál var áætlaður kostnaður við það 25–50 millj. kr. á ári miðað við að málafjöldinn yrði á bilinu 100–200. Þá benti ég á að væntanlega væri hægt að margfalda þá upphæð í samræmi við fjölda mála. Nú hefur sýnt sig að þarna hafði ég rétt fyrir mér. 5.900 mál hafa borist umboðsmanni skuldara og þá má segja að það sé mjög nálægt þessari áætlun sem ég var með um að það mundi kosta um það bil milljarð á ári þegar við erum komin upp í þennan fjölda mála. Ég tel það mjög sorglegt fyrir þá umsækjendur sem eru núna í ferli hjá umboðsmanni skuldara og raunar bara fyrir heimilin almennt í landinu og efnahagslíf okkar hvað menn voru tregir til að horfast í augu við þennan mikla vanda.

Ég leggst ekki gegn framgangi málsins. Ég tel að þetta sé afleiðingin af þeim ákvörðunum sem hafa verið teknar. Það er nauðsynlegt að borga þennan kostnað fyrst þessi leið var valin. Það má segja að það sé sátt milli fjármálafyrirtækjanna og stjórnvalda um að þau beri kostnað vegna þess að þarna eru fyrst og fremst skuldarar við þessi fyrirtæki og sjóði.

Eitt af því sem við ræddum í nefndinni var að ástæðan fyrir því að þessi mikli kostnaður er áætlaður núna hjá umboðsmanni skuldara er talin sú að um helmingur af þessum peningum muni fara til umsjónarmanna í þeirri von að hægt verði að ljúka mjög mörgum greiðsluaðlögunarmálum á næsta ári. Við þurfum einfaldlega að gera allt sem við getum til að tryggja að svo verði. Við verðum að þrýsta á um að kröfuhafar samþykki þá samninga sem er nú verið að senda út á þá. Ef það lagaumhverfi sem er nú til staðar, þau lög sem ég var að tala um sem voru samþykkt, dugir ekki til þurfum við að endurbæta þau lög. Ríkið þarf líka að huga að sínum stofnunum.

Það er mikið áhyggjuefni þegar við fáum ábendingar frá umsjónarmönnum um að til dæmis tollstjóri, sem ekki eru gerðar kröfur um að felli niður kröfur, virðist vísvitandi tefja mál fyrir jafnvel mjög lágar upphæðir. Í þessu tilviki var verið að tala um 27 þús. kr. til að hægt væri að ganga frá samningi um greiðsluaðlögun við viðkomandi skuldara.

Ég leggst ekki gegn framgangi þessa máls en hvet til þess að allar leiðir verði nýttar til að þrýsta á um lausnir skuldamála.