140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

fólksflutningar og farmflutningar á landi.

192. mál
[23:22]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er svo forvitinn maður að mig langar til að vita hvaða fyrri ummæli þetta voru sem ég er sagður hafa haft úr ræðustól. Sennilega hefur það eitthvað að gera með nefndir, að vísa málum til nefnda — (GÞÞ: Umræður og nefndir.) Umræður og nefndir, já. Ég er ekki á móti umræðum og þetta mál þolir mikla og góða umræðu því að það er hið besta mál.

Að sjálfsögðu er það þingsins að ákveða hvort það tekur mál aftur til nefndar. En ég er einfaldlega að segja að ég tel að málið sé vel reifað og að öll sjónarmið liggi fyrir, að sveitarfélögin í landinu, allir þeir aðilar sem koma að þessu skipulagi, biðja um þetta frumvarp. Þeir biðja um þessa lagastoð. Ég skil ekki alveg hvað það er sem þarf að gerast núna í nefnd eftir að búið er að lýsa því yfir. Ég mun árétta það við atkvæðagreiðslu um málið, að kallaður verður til starfshópur fulltrúa úr ferðaþjónustunni og almenningssamgöngum, Vegagerðarinnar og annarra sem málið snertir, til þess að ræða og kortleggja landamærin á milli ferðaþjónustunnar annars vegar og almenningssamgangna hins vegar, enda vakir það ekki fyrir nokkrum manni að skerða hagsmuni ferðaþjónustunnar í landinu með þessu frumvarpi.