132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[23:42]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég er þakklátur fyrir að komast að í þessari umræðu. Ég þurfti því miður að láta færa mig aðeins til af mælendaskránni þar sem ég hafði öðrum skyldum að gegna úti í bæ um kvöldmatarleytið en það kemur vonandi ekki að sök því að hér er umræðan í fullum blóma og stendur með ágætum og vindur vel fram eins og þar segir.

Ég ætla að skipta ræðu minni upp í efnisþætti og byrja á því að fara lítillega yfir aðdraganda þessa máls og setja það síðan í sitt rétta samhengi sem hluta af þeirri þróun í orkumálum og virkjunarmálum sem hér hefur verið í gangi. Þetta mál á líka erindi við grundvallarstefnu okkar í rannsóknarmálum og hvernig við skiptum verkum með opinberum stofnunum, t.d. Orkustofnun og orkuiðnaðinum eða orkugeiranum annars vegar og stofnunum á vettvangi umhverfisins hins vegar.

Það hefur komið fram að þetta frumvarp er afkvæmi aðstæðna sem sköpuðust í iðnaðarnefnd á síðasta þingi en þá lagði hæstv. iðnaðarráðherra og viðskiptaráðherra, sem a.m.k. var hér í salnum áðan, fram frumvarp nokkurt um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum og á því var muðlað í hv. iðnaðarnefnd drjúgan hluta vetrar í fyrra. Málið fór út til umsagnar og það komu gestir til viðtals við nefndina út af því.

Það er skemmst frá því að segja að frumvarpið fékk heldur dapurlega einkunn. Ég hef ekki í langan annan tíma séð jafnviðamikla smíði tætta eins hressilega niður og gert var við þetta frumvarp af mörgum viðmælendum nefndarinnar og þeim sem sendu henni álit. Það skipti að vísu svolítið í tvö horn að þeir sem voru mjög hallir undir orkuiðnaðinn og stóriðjustefnuna sáu auðvitað í því grand að færa iðnaðarráðherra, Orkustofnun og orkugeiranum alræðisvald meira og minna á þessu svið og ýta til hliðar út af borðinu sjónarmiðum um umhverfisvernd, sjálfbæra þróun og nokkra aðra mögulega framvindu í samfélaginu en þá að við settum allt okkar traust á hinn nýja guð, álið. En það tókst að koma vitinu fyrir menn og leiða þeim fyrir sjónir að þetta frumvarp væri svo gersamlega á skjön við allt sem talist gæti eðlileg verkaskipting milli aðila og bryti svo gersamlega í bág við þá framvindu og þróun sem Íslendingar hafa a.m.k. í orði kveðnu þóst vilja vera hluti af. Til dæmis eins og að festa í sessi grundvallarreglur umhverfisréttarins sem hafa verið að þróast frá dögum fyrstu stóru umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Stokkhólmi, í Ríó og síðan Jóhannesarborg. Menn sáu sitt óvænna og kistulögðu þetta frumvarp um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum eða settu það í frystinn eða hvernig menn vilja orða það og síðan hefur það verið þar.

Óneitanlega vekur það athygli að hæstv. ráðherra skuli hafa farið þvílíka hrakför með þetta stjórnarfrumvarp að ekki er reynt að endurflytja það að hausti. Sumarið hefur greinilega ekki dugað til að lappa upp á það. Nei, það er fluttur þessi litli kálfur sem fæddist í vandræðaganginum og þeirri kreppu sem var komin upp eftir að iðnaðarnefnd hafði eytt drjúgum hluta vetrar í að reyna að fara yfir bráðónýtt frumvarp frá hæstv. iðnaðarráðherra. Ég hef sagt það áður og get endurtekið það, mér finnst það ekki sérstaklega stórmannlegt af meiri hlutanum, hv. þm. Birki Jóni Jónssyni né hæstv. ráðherra að reyna síðan að negla menn á því að þeir hafi verið að reyna að bjarga málum með þeim hætti sem þarna var verið að reyna með framlagningu hins litla frumvarps í fyrra til að afstýra öðru og enn þá verra slysi, að hin ósköpin yrðu mögulega keyrð í gegn. Þetta eru aðstæður málsins. Ég veit að hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur farið vel yfir þetta og ég er til vitnis um það að svona og nákvæmlega svona var þetta af því að ég starfa með iðnaðarnefnd.

Auðvitað eru menn frjálsir að því að skoða stöðuna og gera það sem skynsamlegast telst í þessum efnum. Iðnaðarnefnd er líka búin að átta sig betur á hvernig ýmislegt í þessu máli er vaxið. Það hefur m.a. tekist að fá menn til að afla sér vitneskju um hlutina. Það hefur stundum kostað smáerfiði. En nú er hv. formaður iðnaðarnefndar óskaplega glaður yfir því hvað nefndin hafi unnið vel og faglega í þessu máli. Það er út af fyrir sig kannski gaman að fara yfir það að nefndin eyddi heilum tveimur klukkutímum í rannsókn á þessu frumvarpi og það kostaði þó nokkur átök í iðnaðarnefnd að fá því framgengt. Það er auðvitað skylt að þakka það sem þó ávannst að í staðinn fyrir að rífa málið út án athugunar á einum og sama fundinum og það var fyrst tekið fyrir, þá náðist vopnahlé, við skulum kalla það vopnaðan frið um að taka sér tvo tíma í að ræða við valda gesti. Það voru annars vegar forkólfar orkuiðnaðarins og hins vegar þeir tveir forsvarsmenn tveggja lykilstofnana á vettvangi umhverfismála og það var mjög fróðleg yfirferð.

Ég hygg að mönnum hafi t.d. orðið það betur ljóst en kannski nefndarmenn vissu endilega áður hvað er í gangi og hvað er fram undan í kapphlaupi orkufyrirtækjanna um að helga sér land. Ég held að menn hafi haft gott af því að fá þá vitneskju.

Mótsetningarnar í málinu eru með þeim kostulegri sem lengi hafa sést á prenti. Ekki þarf að byggja þar bara á munnlegri geymd, þær eru hér á prenti. Þær eru á prenti í formi frumvarpsins annars vegar og breytingartillögu frá meiri hluta iðnaðarnefndar hins vegar sem endurvekur ákvæði til bráðabirgða um að skipa skuli nefnd til að vinna tillögur um grundvallarleikreglur í þessum efnum og við hvað eigi að miða og hvernig eigi að standa að úthlutun rannsóknarleyfa á komandi árum nákvæmlega því sem þetta frumvarp fjallar um, að veita hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra heimildir til að úthluta rannsóknarleyfum í vatnsafli. Er það þá ekki pínulítil mótsetning að segja nánast í sömu setningunni annars vegar: Ráðherrann þarf að fá heimildir til að úthluta leyfum. Hins vegar verður nefnd að taka til starfa til að finna út úr því hvernig eigi að gera þetta. Ha. Hef ég misst af einhverju? Vantar ekki eitthvað hérna? Er það boðleg stjórnsýsla að leggja hlutina svona upp fyrir opnum tjöldum. Okkur vantar allar forsendur, okkur vantar kortlagningu og leikreglur til að ákveða hvernig skuli að þessu farið í framtíðinni en við ætlum samt að byrja að gera þetta. (Gripið fram í.) Eftir hverju á hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að fara? Hvaða viðmiðanir, (Gripið fram í.) hvaða aðferðafræði á að nota í þessu millibilsástandi? Þar gataði sjálfur formaðurinn þegar hann var spurður í dag, margbeðinn að koma og reyna aðeins að fara yfir það. Við hvað ætlar ráðherrann að miða? Hvernig ætlar hún að fara að þessu? Á að klæðskera kannski nýja aðferð í hvert sinn eins og í einkavæðingum? Ýmsar útgáfur hafa verið prófaðar þar af blöndu af fegurðarsamkeppni, fyrstur kemur, fyrstur fær hæsta verðgildið. (Gripið fram í: Lægsta verðgildið.) Stundum lægsta, já, stundum hafa menn prófað þá aðferð, t.d. þegar þeir eru að selja banka. Þá er vinsælt að byrja á því að ræða það við lægstbjóðanda. Það var gert í Landsbankamálinu, lægstbjóðandi var tekinn til viðtals, hæstbjóðanda hent út, öflugum fjárfestingaraðilum í kjördæmi okkar hv. þingmanns. Ekki virtir viðlits, heldur var rætt við lægstbjóðanda. (Gripið fram í: Flokksskírteini ...) Já, svo eru auðvitað svoleiðis hlutir sem geta verið nytsamlegir, kannski er það einfaldast að láta bara vinina hafa þetta. Það eru þá menn sem þeir þekkja alla vega og vita að eru samkvæmishæfir.

Hæstv. forseti. Þetta eru auðvitað engin vinnubrögð og hægt að nota bara eina samlíkingu um það, að ríkisstjórnin og meiri hlutinn er með allt niður um sig í málinu, algerlega. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessum málatilbúnaði og menn lýsa því yfir sjálfir með því að flytja svona vandræðalega tillögu, viðhengi við frumvarpið um að skipa skuli nefnd til að fara í það að reyna að finna út úr því hvernig eigi að hafa þetta í framtíðinni. En áður verða menn væntanlega búnir að úthluta svæðum landsins, stórum hluta af því sem eftir er, því það munar um minna en vatnasvið stórfljótanna, bæði norðan og sunnan jökla, sem fyrir liggur og ég mun fara yfir í ræðu minni svolítið síðar í kvöld að búið er að sækja um rannsóknarleyfi á.

Hvað eigum við að giska á að vatnasvið Skjálfandafljóts sé stórt? Svona 3–4 þúsund ferkílómetrar. Hvað eigum við að giska á að vatnasvið jökulánna í Skagafirði sé stórt? Svipað trúlega, þær eru nokkurn veginn jafnlangar. Efri hluti Tungnaársvæðisins, Skaftá, Hólmsá, neðri hluti Þjórsár, Brennisteinsfjöll, Kerlingarfjöll, Torfajökulssvæðið. Það er farið að ganga dálítið á flatarmál Íslands, er það ekki? Er þó margt ónefnt enn. Svo ætla menn að móta leikreglur til að úthluta því sem eftir verður. Eru það Elliðaárnar eða bæjarlækurinn í Hafnarfirði? Hvað á eftir að skoða? Þetta er eins og hver annar brandari, herra forseti, að bera þetta svona á borð fyrir okkur. Algert lágmark væri náttúrlega, ef menn telja að lagastoð þurfi fyrir þessari nefnd, að taka það og það eitt í gegn eða haga gildistöku frumvarpsins þannig að afgangurinn biði með gildistöku þangað til nefndin hefði skilað störfum og þær tillögur lægju fyrir. Svo er það. Við skulum aðeins ræða það. Hvað liggur svona á? Það er fróðlegt að fara yfir það. Ætli ég geymi það ekki þangað til svolítið síðar því ég ætla nefnilega að leggja út af því með vissum hætti og vera þá búinn að fara aðeins yfir það sem undir er í þessu máli.

Ég held að nauðsynlegt sé að rifja það líka upp að þetta mál, öll þau ósköp sem það er, er náttúrlega ekki eitt á ferð í löggjöf eða lagasetningu eða fyrirhugaðri lagasetningu eða stjórnarframkvæmdum í landinu að þessu leyti.

Málið er í fyrsta lagi þetta afkvæmi óbermisins frá því í fyrra, ónýta frumvarpsins um nýtingu á jarðrænum auðlindum. Það hefur beina tengingu inn í frumvarp til vatnalaga sem liggur fyrir þinginu og við höfum í höndunum í iðnaðarnefnd og vitum talsvert um og er þar ekki félegu fyrir að fara að ýmsu leyti. Þetta er einmitt nátengt því og verður að skoðast í samhengi við það sérstaklega vegna þess að vatnalagafrumvarpið byggir á því að færa, hverjum vatnið í heilu lagi? Orkustofnun, orkugeiranum, iðnaðarráðherranum. Það á að slá eign orkugeirans á vatn á Íslandi, (Gripið fram í: Nei, nei.) ekki bara rennandi vatn, ekki bara fossa og straumvatn, nei, nei, allt vatn, í föstu, fljótandi og loftkenndu formi. Skýin eiga að heyra undir iðnaðarráðherrann. Einhverjum hefði nú dottið í hug umhverfisráðherra af því að hann er yfirmaður Veðurstofunnar. Nei. Vatnið og grunnvatnið neðan jarðar á að færast undir lögsögu iðnaðargeirans, orkuiðnaðarins, Orkustofnunar, iðnaðarráðherra með frumvarpi til vatnalaga. Það er bara þannig, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, „per definition“ í upphafsgrein frumvarpsins. Og frumvarpið sem setur vatn í orkuöflunarskyni undir ráðuneytið verður að skoðast í því samhengi.

Að hinu leytinu bólar ekkert á því sem talað hefur verið um að eigi svo að fylgja á verksviði umhverfisráðuneytisins, þ.e. vatnsverndarlög og fullgildingu þeirra hluta, vatnatilskipunar Evrópusambandsins sem við munum þurfa að taka upp í landsrétt hér. Ekkert bólar á því. Það er ævinlega þannig hjá hæstv. ríkisstjórn að allt sem snýr að umhverfinu mætir afgangi. Það kemur ekki. Rammaáætlunin er afvelta. Árósasamningurinn er ekki fullgiltur, vatnsverndarlögin sjást ekki. Hvernig stendur á þessu? Það er af því að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er sú að þarfir stóriðjustefnunnar, orkugeirans, ganga fyrir í einu og öllu. Umhverfisráðuneytið er því miður, svo dapurlegt sem það er að þurfa að segja það, eins og viðhengi utan á þessum iðnaðarhagsmunum eins og þeir hafa verið keyrðir fram af núverandi ríkisstjórn og virðist ekki ætla að batna mikið þótt þar hafi orðið húsbóndaskipti. Við þurfum náttúrlega ekki að rifja upp hörmungarnar þegar umhverfisráðuneytið brást jafnhrottalega skyldu sinni og það gerði þegar það tók faglegar niðurstöður mats á umhverfisáhrifum sem gaf Kárahnjúkavirkjun falleinkunn og sneri þeim við með pólitísku handafli. Það verður einhver ljótasti bautasteinn sem vonandi nokkur umhverfisráðherra í íslenskri stjórnmálasögu mun þurfa að burðast með, það sem Siv Friðleifsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, gerði. Það verður þannig á spjöldum sögunnar og verður kannski einstöku sinnum rifjað upp af þeim sem hér stendur á meðan ég skipti mér af málum á þessum vettvangi. En svona er þetta.

Tökum raforkulögin. Tökum markaðsvæðingu raforkugeirans, tökum það hvernig þetta er síðan fært yfir á markaðstorgið og gert að verslunarvöru og söluvöru í gróðaskyni fyrir fjármagnið. Síðan verður þetta að sjálfsögðu einkavætt og hvað er þá búið að gera, herra forseti? Þá er búið að færa þessa sameiginlegu auðlind okkar, vatnið, inn undir orkuiðnaðinn, skilgreina þetta allt á hans forsendum og síðan einkavæða það. Og þá er þessi sameiginlega auðlind okkar sem okkur er mörgum tamt að vilja trúa að sé, regnvatnið af himnum ofan, orðið að fullmarkaðsvæddri verslunarvöru og auðlind sem nýtt er í einkaþágu.

Ég held að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem kann að hafa forðað sér, er ef til vill þreytt eftir langan dag, væri nær að standa Alþingi reikningsskap gerða sinna í þeim efnum að undanförnu sem snýr að t.d. þróun raforkuverðs í landinu, snýr að hinum geigvænlegu hækkunum sem markaðsvæðingarbröltið hefur haft í för með sér fyrir þá sem kynda hús sín með rafmagni. (Gripið fram í: … hækka …) Já, það hrekkur nú skammt, hv. þingmaður, þó þeir lyfti þessu þaki um eins og 5000 kílóvattstundir. Það dregur skammt satt best að segja, því miður. Og það er ekki einu sinni hægt að fara alla leið í það sem það var áður.

Þetta heildarsamhengi, herra forseti, er mikilvægt að menn hafi í huga þegar þessi mál eru rædd, að frumvarpið er ekki ein einangruð eyja heldur er það hluti af miklu stærra samhengi. Og það er auðvitað hluti af þróuninni í þessum efnum. Það er hluti af þeim gríðarlegu breytingum sem eru í rauninni að verða á íslensku samfélagi en þó einkum og sér í lagi íslensku atvinnulífi og íslensku hagkerfi vegna þess hvernig stóriðjustefnan hefur verið rekin áfram og vegna þess sem þar er jafnvel boðað á komandi árum. Það er skrýtið að heyra hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra koma hér í vörn sinni og reyna eiginlega að gera lítið úr málinu, þetta sé ekki neitt, neitt og hvað menn séu að æsa sig. En ætli það sé ekki fiskur undir steini? Ætli það sé ekki dálítið á bak við? Það skyldi nú ekki vera svo?

Staðreyndin er náttúrlega sú, herra forseti, að orkuiðnaðurinn gín yfir hlutunum. Það er mikil frekja í því liði sem þar ræður ferðinni og mikill yfirgangur. Ég held að menn hafi ekki almennilega áttað sig á því á þeim bæ að þeir eru komnir inn í nýja tíma, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Forkólfar á þessu sviði hafa komist upp með það, að vísu í skjóli núverandi ríkisstjórnar af því að hún er fulltrúi fortíðarinnar og fortíðarsjónarmiðanna í þessum efnum, að hegða sér eins og þeir gerðu hér áður. Auðvitað vita allir sem þekkja þessa sögu að Landsvirkjun var dekurbarn og ríki í ríkinu þegar hún var stofnuð. Hún var algert ríki í ríkinu og þar gerðu menn það sem þeim sýndist. Það var einn fínasti klúbbur landsins að sitja í stjórn Landsvirkjunar og menn urðu þar yfirleitt miklir mátar og vinir. Það sást jafnvel hér í þingsölum að menn úr gerólíkum flokkum voru eins og síamstvíburar hönd í hönd af því að þeir höfðu setið saman í stjórn Landsvirkjunar í gamla daga.

Landsvirkjun var stofnun sem taldi sig ekki þurfa að hlusta mikið á eitthvert nöldur úti í þjóðfélaginu, hún væri í sínum eigin rétti og hefði landið undir og auðlindir þess. Vissulega hafði hún einkaleyfi, hún hafði líka skyldur. Sú var okkar ógæfa, frú forseti, að við lentum inn á það spor að það eina sem einhver verulegur akkur væri í væru stórvirkjanir fyrir stóriðnaðinn — þetta varð að trúboði, stundum kennt við ónefndan mann sem var stjórnarformaður Landsvirkjunar á löngu árabili. Það er svo sem ástæðulaust að nefna hér einstaklinga sem ekki eru til staðar til að svara fyrir sig. Auðvitað voru þetta sómamenn og velviljaðir sinni þjóð. En sjónarhornið var að mínu mati ákaflega þröngt. Það helgaðist kannski af þeirri tilfinningu að Ísland ætti fáa kosti. Við ættum hér ósköp lítið nema fiskinn í sjónum og síðan orkulindirnar. Sú var klisjan. Svo var sagt á 6., 7., 8. og 9. áratug síðustu aldar að það eina sem gæti leyst sjávarútveginn af hólmi og orðið ný stoð undir atvinnulíf í landinu væri orkuiðnaðurinn. Þannig var talað. Það var talað eins og það væri bara ein önnur stór auðlind sem gæti komið upp til hliðar við sjávarútveginn og aukið útflutningstekjur og skapað velsæld og það væri orkuiðnaðurinn. (Gripið fram í: Hann hefur gert það.) Bíddu nú við, hv. þingmaður. Eigum við að fara yfir það hver var síðan veruleikinn? Hver var veruleikinn? Veruleikinn var sá að sú skoðun að sjávarútvegurinn væri kominn að endimörkum vaxtar síns á 6., 7. og 8. áratug síðustu aldar reyndist algert kjaftæði. Sjávarútvegurinn kom mönnum hressilega á óvart með því að standa undir gríðarlegri viðbótarverðmætasköpun. (Gripið fram í: Kvótakerfið.) Það á ekkert skylt við kvótakerfi, hv. þingmaður. Það má frekar færa rök fyrir því að það hafi orðið okkur dýrt og eigi kannski eftir að verða okkur enn þá dýrara með þeirri einhæfni og fákeppni sem þar með er að myndast í greininni.

Sjávarútvegurinn sjálfur afsannaði ár eftir ár og áratug eftir áratug hrakspárnar um að nú væri hann kominn að endimörkum vaxtar síns og hér yrði enginn vöxtur og engin uppbygging nema annað kæmi til. En það var enn ánægjulegra að nýjar greinar skutu hér rótum og uxu þannig að það kom öllum að óvörum. Það er ekki langt síðan það komu ekki nema 10–15 þúsund ferðamenn á ári til Íslands, svipaður fjöldi og kemur til Grænlands í dag. Nú eru ferðamennirnir löngu orðnir fleiri en íslenska þjóðin, stefna í hálfa milljón á næsta ári eða þar næsta og verða kannski orðnir ein milljón á ári hverju innan tíu ára. Og ferðaþjónustan bara svona skaust úr kafinu og varð að næststærsta gjaldeyrisútvegi þjóðarinnar. Hún skipaði þann sess alveg fram undir síðustu ár þegar stóriðjan kannski núna með allri stækkuninni er aftur að taka annað sæti. Það komu ýmsar iðngreinar og ýmis verðmætasköpun sem auðvitað afsannaði að Íslendingar ættu enga aðra kosti en þá að reyna að selja orku í heildsölu til erlendra stórfyrirtækja á því sviði.

Þeim mun undarlegra er það, frú forseti, að gamla nordalskan skuli lifa svona góðu lífi, að menn skuli enn tala eins og það geti ekkert annað gerst á Íslandi nema þetta. (Gripið fram í: Jú, jú.) Menn tala þannig. (Gripið fram í: Nei, nei.) Víst tala menn þannig. Eða hvað þýðir spurningin: Já, bara eitthvað annað? Þegar við höfum andæft tilteknum stóriðjuframkvæmdum, t.d. vegna þess að virkjanirnar sem eiga að framleiða rafmagnið eru gersamlega óverjandi frá umhverfissjónarmiði, hvaða spurningu fáum við þá? Já, þið eruð á móti þessu og hvað viljið þið þá? Bara eitthvað annað? Málið er nefnilega það, einmitt, bara eitthvað annað. Og það er nóg af því. Það er það góða. Það hefur sýnt sig undanfarin ár. Möguleikarnir og tækifærin hafa verið óþrjótandi og Íslendingar hafa verið duglegir við að nýta sér það og byggja upp margar greinar, hátæknigreinar, þekkingargreinar, nýjar iðngreinar og vaxtagreinar sem hafa vakið undrun langt út fyrir landsteinana. Nú er að vísu verið að eyðileggja þetta í stórum stíl. Stóriðjustefnan er að eyðileggja þetta. Hún er að hrekja þessar greinar úr landi eins og ég mun koma betur að.

Ég legg að lokum sérstaka áherslu á, frú forseti — ég er ekki að ljúka ræðu minni heldur bara þessum þætti málsins, svona til að róa menn ef einhverjum skyldi hafa brugðið í brún — að orkurisarnir, orkuiðnaðurinn, orkugræðgin verður að átta sig á því að hún er ekki lengur eða á ekki að vera nein forréttindagrein í landinu. Hún hefur engan rétt til að krefjast þess að öðru atvinnulífi sé rutt úr vegi þannig að þessi gamla stefna geti haldið áfram á grundvelli 20, 30, 40 ára úreltra röksemda. Hafi þær einhvern tíma gilt þá gera þær það auðvitað enn þá síður í dag. (Gripið fram í.) Þau eru miklu verðmætari, hv. þingmaður, af því að ég heyrði þetta frammíkall um hálaunastörfin, þau eru miklu verðmætari störfin sem við erum einmitt að missa úr landi í staðinn núna eða hvað? Hefur hv. þingmaður t.d. kynnt sér meðallaunin hjá hátæknifyrirtækjunum sem eru að taka ákvarðanir þessar vikurnar um að loka á Íslandi og flytja störfin út? Þar eru hámenntaðir vísindamenn, geysilega verðmætur og eftirsóttur starfskraftur, sem hafa m.a. verið að koma heim úr sérnámi erlendis — þar sem annar hver, þriðji hver starfsmaður er með doktorsgráðu vegna þess að þessir möguleikar hafa verið að opnast í rannsóknum og þróun í hátækni- og þekkingarfyrirtækjum. Er það ekki grátlegt að horfa á eftir störfum eins og gerist þegar Medcare Flaga hverfur úr landi eða Hjartavernd segir upp sínu rannsóknarfólki? Kemur það ekkert við hv. þm. Birki Jón Jónsson? Svo bara kallar hann hér fram í „hátæknistörf“. Þau eru ekki há launin enn þá sem koma út úr þessum framkvæmdum hjá Portúgölunum og Kínverjunum á Kárahnjúkum. Ég hef ekki heyrt af því enn þá að þeir séu hálaunamenn. Ætli hneisan sé ekki frekar í hina áttina, þrælahaldið sem þar þrífst og er búið að innleiða í landinu í skjóli þessa ástands og verður auðvitað að skrifast á þess reikning. Það var augljóst mál hvernig þetta mundi fara.

Það er einn þáttur þessa máls, frú forseti, sem er óhjákvæmilegt að fara svolítið yfir. Ef þessi skipan mála verður tekin upp, að setja þessa hluti alla meira og minna undir orkugeirann og fela Orkustofnun öll þau samsettu og fjölþættu hlutverk, sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi er ýmist búinn að gera eða ætlar sér að gera — sem gert var að hluta til með raforkulögunum, sem stendur til að gera með vatnalögunum og sem stendur til að gera með þessu frumvarpi — þá er auðvitað verið að búa til hér mikið bákn þar sem er Orkustofnun og það er verið að fela henni mjög viðamikið og samsett hlutverk. Orkustofnun verður í raun og veru allt í senn: ráðgefandi stofnun fyrir stjórnvöld; hún á að sinna vissum grundvallarrannsóknarskyldum; hún á að fara með eftirlit á sínu sviði; hún á að skammta orkufyrirtækjunum tekjuramma, hún á að setja bæði þak og gólf í það hvað þau megi hafa raforkuverðið hátt; hún fær lögregluvald eða sektarvald þannig að hún getur farið að beita stjórnsýslusektum og refsingum — það er eiginlega fljótlegra að telja það upp sem á ekki að gera. (Gripið fram í: Gríðarleg þekking.) Ég held að hún eigi kannski ekki beinlínis að fara með landbúnaðarmál eða málefni ferðaþjónustunnar en það er ekki margt sem Orkustofnun verður ekki orðið viðkomandi. Það verður fátt mannlegt henni óviðkomandi ef svo heldur sem horfir. (Gripið fram í.) Í skjóli Orkustofnunar verður orkuiðnaðurinn meira og minna orðinn einráður í vísindarannsóknum í landinu og það er af þremur ástæðum:

Það er í fyrsta lagi vegna þess að peningarnir fara í það, nógir eru peningarnir þegar kemur að því að rannsaka eitthvað sem getur síðan orðið ávísun á virkjun. Það er í öðru lagi af því að með lögum er verið að útvíkka hlutverk Orkustofnunar á þessu sviði með því t.d. að færa vatnið undir hana, ef það verður gert. Og það er í þriðja lagi vegna þess að fagstofnanirnar, sem eiga að sinna því hlutverki að annast grunnrannsóknir og almenna þekkingarsöfnun um náttúru landsins, eru fjársveltar. Það er verið að stefna í verkaskiptingu sem er alger hneisa fyrir þjóð sem vill taka sjálfa sig alvarlega, vill rannsaka sitt land og hafa um það upplýsingar og vill geta tekið skynsamlegar og upplýstar ákvarðanir, t.d. um vernd umhverfis og náttúru. Ef vatnsaflinu verður skotið inn í gildandi lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, og fer undir verksvið Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytis — rannsóknir og leit, því verður væntanlega úthlutað á grundvelli umsókna frá orkufyrirtækjunum og það verða orkufyrirtækin sem útfæra það hvernig rannsaka skuli því það liggur ekkert fyrir um það að stjórnvöld, að iðnaðarráðuneytið eða Orkustofnun, enda ekki til þess bærir aðilar, ákveði hvernig þessar rannsóknir verða. Hvernig verða þær sem sagt? Þær verða nýtingarrannsóknir. Þær munu einbeita sér að þeim þáttum sem menn þurfa að safna vitneskju um til að nýta, til að virkja og sleppa hinu. Auðvitað verður ákveðin almenn þekkingarsöfnun alltaf fólgin í slíkum rannsóknum. En þær taka ekki útgangspunkt í því að rannsaka hið smáa, hið almenna, hið fróðlega, það sem hefur almennt þekkingarlegt gildi, það sem kann að tengjast menningarsögunni eða hvað það nú væri. Ég sé ekki annað en það stefni í það með þessu hugarfari, með þessari stjórnarstefnu, að rannsóknir almennt á Íslandi færist meira og minna úr grunnrannsóknaflokknum, því sem kallað er almennar grunnrannsóknir, og yfir í flokk nýtingarrannsókna. Það er auðvitað eðlilegt að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra — sem vel að merkja er fjarstaddur, ég leyfi mér að spyrja forseta hvort ekki hafi verið ætlunin að ráðherra yrði hér við og mundi þreyja þorrann og góuna, taka vökuna með okkur.

(Forseti (DrH): Ráðherra er í húsinu og er örugglega að hlusta á hv. þingmann.)

Því má nú treysta, jafnkært og er með okkur, að hæstv. ráðherra sé að hlusta. En það væri gaman að hafa hér líka hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. menntamálaráðherra. Hvar eru hæstv. fagráðherrar sem eru yfir þessum málaflokkum eins og umhverfismálunum og öllu sem þeim tengist eða menntamálunum og almennum vísindarannsóknum í landinu o.s.frv.? (BJJ: Það er nú langt seilst.) Er það langt seilst, hv. þm. Birkir Jón Jónsson? Ég skal þá fara rækilegar yfir þetta þannig að hv. þingmaður átti sig á þessu.

Þetta er nefnilega meira en fullgilt sjónarmið sem ég er hér að færa fram og hv. þm. Birkir Jón Jónsson skal ekki halda að ég sé einn um þessa skoðun. Hún er mjög útbreidd meðal vísindamanna í landinu, ekki síst náttúruvísindamanna og ég þykist hafa sæmileg sambönd inn í þann hóp og það er auðvitað af því að menn hafa af þessu áhyggjur. Menn vilja ekki hafa þetta svona, að almenn þekkingaröflun í þjóðfélaginu, almennar grunnrannsóknir lúti ekki lögmálum faglegs frelsis og séu sjálfstæðar. En auðvitað eru þær það ekki ef þær eru pantaðar á forsendum orkufyrirtækjanna, miða eingöngu að nýtingunni og eru borgaðar af þeim.

Það er að vísu í lögum að stofnanir eins og t.d. Umhverfisstofnun, og auðvitað alveg sérstaklega Náttúrufræðistofnun Íslands, eigi að sinna þessu hlutverki. Þar á bæ hafa menn lögbundnar skyldur til að sinna undirstöðurannsóknum og er alveg sjálfsagt mál að lesa það upp, sérstaklega fyrir hv. formann iðnaðarnefndar ef hann skyldi ekki vera útlærður í þeim fræðum. (Gripið fram í.) Það segir t.d. hér í lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur í 4. gr., með leyfi forseta:

„Náttúrufræðistofnun Íslands stundar undirstöðurannsóknir í dýrafræði, grasafræði og jarðfræði landsins“ — og allan þann tíma sem ég hef stúderað þau fræði hefur grunnvatn í raun og veru verið flokkað þarna undir — „og annast skipulega heimildasöfnun um náttúru Íslands. Hún varðveitir niðurstöður og eintök í fræðilegum söfnum er veiti sem best yfirlit um náttúru landsins. Aðalverkefni Náttúrufræðistofnunar eru:

a. að stunda vísindalegar rannsóknir á náttúru Íslands. […]

c. að skrá kerfisbundið einstaka þætti íslenskrar náttúru og sjá um gerð og útgáfu korta, m.a. um jarðfræði og útbreiðslu tegunda. […]

e. að leiðbeina um hóflega nýtingu náttúrulegra auðlinda og aðstoða með rannsóknum við mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja og áhrifum mannvirkjagerðar og annarrar landnotkunar á náttúruna.“

Hvað þarf til að menn geti sinnt þessu hlutverki? Það þarf þekkingu sem er safnað á sjálfstæðum, faglegum forsendum og hún verður að vera það því annars er ekki hægt að treysta henni. Annars er ekki hægt að treysta því alveg óyggjandi að hinn faglegi, vísindalegi þekkingargrundvöllur sé hlutlægur, málefnalegur. Ekki bjagaður af einhverjum hagsmunum. Við viljum hafa mat á hlutunum eins og þeir eru. Svo tökum við ákvarðanir um hvort einhver nýting sé réttlætanleg eða ekki gagnvart gildi þess og mikilvægi að vernda.

Það var farið aðeins yfir það fyrr í umræðunni t.d. hvernig aðstæður þessara aðila eru eins og Náttúrufræðistofnunar. Hún er fjársvelt og það eru flestir ef ekki allir aðrir aðilar sem eru að burðast við að stunda faglegar sjálfstæðar grunnrannsóknir í náttúru Íslands. Þeir eru það. Þetta er ákaflega veikburða starf sem er unnið af fáum vísindamönnum og langt frá því að það sé búið þannig að þeim að sómi sé að. Það er alveg sama hvort við tökum Náttúrufræðistofnun og náttúrustofurnar, rannsóknarstöðina við Mývatn, háskólana og starfið þar í jarðfræðistofnun sem nú er, en var áður Raunvísindastofnun háskólans og Norræna eldfjallastöðin og þeir aðilar. Þetta er bara því miður svona. Hver er svo helsta fjáröflunarleið þessara aðila? Hún er oftar en ekki að komast í verkefni hjá Landsvirkjun eða orkufyrirtækjunum og þá gerist það sem er mikið umhugsunarefni en kannski ekki gott við að gera að okkar litli vísindaheimur verður þannig saman settur að tveir af hverjum þremur eða þrír af hverjum fjórum vísindamönnum og stofnunum verða háðar orkurisunum vegna þess að þaðan fá þeir peninga, þaðan fá þeir að hluta til sinn framfærslueyri.

Menn verða auðvitað að tala um þetta eins og það er. Það er ekki verið að ásaka neinn. Ég er ekki að halda því fram að menn reyni ekki samkvæmt bestu getu að halda hlutunum aðgreindum og standa í lappirnar, en svona er veruleikinn. Ég man eftir því á fundi í jarðfræðifélaginu, eða hvort það var í Félagi íslenskra náttúrufræðinga, að þar var verið að kynna frumvarp eða drög að nýju frumvarpi um breytingar á skipulagslögum eða mat á umhverfisáhrifum. Það var verið að ræða þessa hluti fram og til baka, hvaðan óháðir faglegir aðilar ættu að koma til að leggja dóm á áætlanir framkvæmdaraðilanna o.s.frv. Hvar finnum við þá í hinum litla íslenska vísindaheimi þegar staðan er orðin þannig að þrír af hverjum fjórum eru annaðhvort beint ráðnir af eða fá hluta tekna sinna eða rannsóknarfjár síns gegnum verkefni sem eru kostuð af orkufyrirtækjunum? Það er ekki auðvelt. Og þarna á fundinum voru þeir beðnir um að rétta upp hönd sem ættu einhverra hagsmuna að gæta í þessu efni og það var fyllilega þetta, þrír af hverjum fjórum fundarmanna viðurkenndu að þeir væru auðvitað ekki óháðir í þessum skilningi orðsins.

Þeim mun tilfinnanlegra er það auðvitað að þær stofnanir þar sem menn eru þó í fullu starfi og eiga að sinna þessu eins og vísindamenn á Náttúrufræðistofnun og annars staðar, að þar skuli ekki vera betur að slíku starfi búið þannig að það séu þó a.m.k. einhverjar sæmilega öflugar einingar sem geti einbeitt sér að grunnvísindastarfi á sjálfstæðum faglegum forsendum og séu ekki neinum öðrum háðar. Ég held menn hljóti að geta viðurkennt að það er ekki notaleg tilhugsun ef þetta þróast áfram í þessa veru og nú tek ég ákaflega diplómatískt til orða, frú forseti, því satt best að segja væri hægt að segja reynslusögur sem eru miklu ljótari en ég hef hingað til gefið tilefni til með mínum hógværu orðum, (Gripið fram í: Talar af hógværð.) ég tala af mikilli hógværð hér vegna þess að það er eiginlega svo leiðinlegt að fara að segja frá því sem ég hef því miður orðið vitni að og upplifað, hvernig vísindamenn sem hafa staðið í lappirnar og þorað að vera sjálfstæðir og gagnrýnir á framferði þessara stóru hagsmunarisa, sáldrandi silfrinu um þjóðfélagið, hafa farið út úr því. Það eru ekki allt fallegar sögur. Það hefur ríkt mikil tilhneiging til að kúska alla undir þessa stefnu, þessa meginstefnu að láta bara stóriðjustefnuna vaða áfram eins og snjóplóg í gegnum samfélagið og ryðja öllu til hliðar, öðru atvinnulífi og þeim vísindamönnum sem væru eitthvað að malda í móinn, t.d. vildu ekki láta spjalla Þjórsárver frekar en orðið er o.s.frv.

Þessi árekstur milli nýtingarsjónarmiðanna, orkugræðginnar, sem ég kalla svo, og annarra sjónarmiða sem lúta meira að vernd og varðveislu umhverfis, að grunnrannsóknum og almennri þekkingaröflun o.s.frv., endurspeglaðist í raun og veru mjög vel í mismunandi viðbrögðum manna við stóra frumvarpinu um jarðrænar auðlindir í fyrra. Ef menn hafa fyrir því að fara yfir þær umsagnir sem þá komu, þá eru þær að mörgu leyti mjög góð gögn og sláandi um þessa harkalegu árekstra þessara heima og það hefur ekki í annan tíma kannski komið jafnmikið af því upp á yfirborðið. Af hverju er það? Það er af því að menn veigra sér við því vegna stöðu sinnar sem opinberir embættismenn í stofnunum sem heyra undir ráðherra í ríkisstjórn sem hefur þá stefnu sem raun ber vitni. En það gerðist þó í fyrra og er lofsvert að það gekk svo fram af forstöðumönnum bæði umhverfisstofnana og samtaka að þau sendu frá sér nokkur hvassyrt álit, svo gersamlega gekk fram af mönnum og þar á meðal forsvarsmönnum stærstu undirstofnana umhverfisráðuneytisins. Þeir fengu að vísu bágt fyrir, það er vitað. Þannig er ástandið á Íslandi í dag. Menn eru teknir á teppið og fá bágt fyrir ef þeir hafa sjálfstæðar faglegar skoðanir og leyfa sér að láta þær í ljósi þegar það er reyndar skylda þeirra, eins og það er þegar Alþingi biður þá um álit. Menn hafa fyrir sér fordæmin, ef þeir eru með múður verða þeir bara lagðir niður eða fluttir norður á Hólmavík eða eitthvað. Annað eins hefur gerst. (Gripið fram í: Hólmavík er ...) Hólmavík er fallegur staður og góður staður en það var dæmi um það að einhver embættismaður var fluttur til og það var talið vera í tyftunarskyni. Mig minnir að það hafi verið á þann nefnda stað.

Ef við aðeins rifjum upp úr þessum umsögnum, frú forseti, þá er það mjög lýsandi fyrir árekstrana sem þarna urðu og það segir sína sögu. Þannig t.d. segir Náttúrufræðistofnun um þetta frumvarp af hverju litli kálfurinn sem við ræðum nú hér sérstaklega var hluti, með leyfi forseta: „Frumvarpið fjallar um jarðrænar auðlindir eða „hvers konar jarðefni, frumefni, lífræn og ólífræn efnasambönd, vatn og orkulindir sem vinna má á landi og úr jörðu“ án þess að fléttað sé inn í það ákvæðum um umhverfis- og náttúruvernd eða almannarétt.“ Með öðrum, þetta var bara hrátt orkunýtingarfrumvarp og öllu öðru hent út.

Áfram segir: „Verði frumvarpið að lögum óbreytt er hætt við að hagnaðarsjónarmið efna- og orkuvinnslufyrirtækja verði ráðandi við nýtingu náttúruauðlinda landsins á kostnað umhverfisverndar og félagslegs réttlætis sem eru hinar tvær meginstoðir sjálfbærrar þróunar.“ Hér er verið að vitna í Ríó-samþykktirnar sem Ísland hefur gengist undir. Jafnframt fengi stjórnsýslustofnun orkumála, Orkustofnun, óeðlilega mikil völd á kostnað stjórnsýslustofnunar umhverfismála Umhverfisstofnunar. Frumvarpið er að þessu leyti afturför frá fyrri auðlindalögum og í andstöðu við nútímaumhverfishugsun og stefnu ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun. Frumvarpið vekur enn fremur upp spurningar um verkaskiptingu og samstarf umhverfis- og iðnaðarráðuneytis og stofnana þeirra. Við gerð þess virðist ekki hafa verið tekið nægjanlegt tillit til lögboðinna hlutverka þeirra stofnana umhverfisráðuneytisins sem málið varðar samanborið t.d. náttúruverndarlög o.s.frv.

Þetta er ákaflega skýrt og vel orðað í samanþjöppuðu formi og lýsir í hnotskurn árekstrunum sem hér eiga sér stað þar sem orkugeirinn með Orkustofnun undir iðnaðarráðuneytinu í fararbroddi er að valta yfir hin sviðin og ryðja því til hliðar í krafti stefnu ríkisstjórnarinnar um að þessir hagsmunir skuli vera öllum öðrum æðri. Ef kemur til árekstra milli mögulegrar nýtingar og þarfarinnar á verndun þá víkur verndunin, þá er henni hent burtu. Þarf nokkurn að undra? Er þetta ekki sama ríkisstjórnin og lét umhverfisráðherra sinn snúa niðurstöðu Skipulagsstofnunar um Kárahnjúka við? Jú, er það ekki? Mig minnir það. Hvað var sagt? Það var sagt að það væri stefna ríkisstjórnarinnar. Það var sagt þegar við vorum að takast á um tillögu um málið, þá kom þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, núverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson upp og sagði: Það er búið að ákveða að byggja þessa virkjun. Sem sagt, ríkisstjórnin var búin að ákveða að gera það. Í rauninni var verið að segja: Hvað eru menn að röfla? Við erum búnir að ákveða þetta, við Davíð. Þetta er hugarfarið og það er þarna enn, því miður, hefur sáralítið lagast. Og hafi einhver haldið að það mundi bregða til betri tíðar með því að umhverfisráðuneytið flytti frá Framsókn yfir til Sjálfstæðisflokksins þá bíð ég enn eftir merkjum þess. Ég sé þau ekki, því miður.

Mér finnst það mikið metnaðarleysi t.d. að umhverfisráðherra skuli láta bjóða sér að frumvarp í þessa átt sé endurflutt. Ég vísa til umsagna höfuðstofnana umhverfisráðuneytisins sem var svo misboðið í fyrra að þær sendu frá sér svona harðorðar umsagnir, eins og t.d. þá sem ég vitnaði í áðan og lýsir, eins og ég segi, þeim árekstrum milli umhverfisverndarsjónarmiða og í raun allra annarra sjónarmiða og nýtingarkröfunnar, nýtingarfrekjunnar, hins vegar.

Mér verður vissulega tíðrætt um það frumvarp sem lagt var fram í fyrra, um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum, og vatnalagafrumvarpið sem líka er tengt því. Menn verða að átta sig á því á hvaða hugmyndafræði það byggir og hver hugsunin í því er til að skilja þetta. Tökum dæmi af bónda eða hvaða jarðeiganda sem er sem á jarðarskika. Á honum er falleg á, á þeirri jörð er falleg árspræna og í henni er foss. Þetta er fallegur foss og þó að þarna mætti skrúfa út einhver kílóvött með því að virkja hann hefur bóndinn eða landeigandinn ekki áhuga á því. Hann vill horfa á fossinn, vill að hann fái að renna til fegurðar og yndisauka sjálfum sér og öðrum og komandi kynslóðum. Hann er sem sagt að hugsa um unaðsstundirnar en ekki kílóvattstundirnar.

Hvernig eru lögin úr garði gerð? Hvernig er hugsunin í frumvarpinu eða frumvörpunum, vatnalagafrumvarpinu og þessu? Já, hún er sú að ef bóndinn er ekki innan tiltekins tíma, fimm ára, byrjaður að rannsaka fossinn í því skyni að virkja hann þá fyrirgerir hann rétti sínum sem landeigandi til að hafa ráð á því hvað um hann verður. Utanaðkomandi aðilar geta þá í krafti laganna og heimtufrekju orkugeirans komið inn á landareign bóndans og hafið rannsóknir á fossinum í því skyni að virkja hann. Það er sett upp þannig að það sé í raun og veru glæpur að eiga ársprænu sem eitthvert fall er í og sinna því ekki að rannsaka hana með því hugarfari að virkja hana. Þá ert þú bara ekki að standa þig góði, burt með þig. Síðan kemur einhver annar, hann fær rannsóknarleyfi, sem þetta snýst nú um, ekki satt? Hann fær rannsóknarleyfi á grundvelli laganna og ef þarf er síðan farið í eignarnámsmál til að hann geti þá virkjað á annarra manna landi. Ef hann ekki nær samningum um afnot fer það sína leið.

Sjá menn hugsunina í þessu? Hugsum okkur, ef við snúum þessu við, og segjum að það væri þannig að umhverfisverndarstofnanir gætu farið sömu leið til að ná landi til að vernda það. En það er og hefur nú aldeilis ekki verið þannig, frú forseti. Nei, það hefur verið þannig að ríkið hefur orðið að kaupa upp land til að auka verndunarstig þess og hefur engin svona úrræði í lögum. Það segir sína sögu um aflsmuninn sem þessir aðilar búa við í löggjöf og í stjórnarfari í landinu. Þetta er náttúrlega það sem við verðum að fara að taka til umræðu og ræða og átta okkur á. Viljum við hafa þetta svona, viljum við hafa þessa hluti nákvæmlega svona? Á að vera þessi gríðarlega framkvæmdanýtingarslagsíða á allri okkar löggjöf eða á kannski að nálgast þetta með öðru hugarfari og tryggja þessum aðilum a.m.k. meira jafnræði?

Í raun og veru er ég ekki tilbúinn til að segja að það eigi að vera þarna jafnræði, ég er það ekki, af því að verndarsjónarmiðin verða að vera æðri hinum og sönnunarbyrðin á að hvíla á þeim sem ætlar inn í náttúruna og fara að taka þar til við að framkvæma. Hann verður að sanna fyrst að af því hljótist ekki spjöll og skemmdir, óþolandi miklar og jafnvel aldrei endurbætanlegar.

Ég held, frú forseti, að það sem ég hef lítillega farið yfir og varðar þetta samhengi málsins láti ég duga að sinni um þann þátt málsins og samhengi þess við önnur frumvörp og almenna stöðu í þessum orkuöflunar- og búskaparmálum. Ég ætla að víkja svolítið sértækar að því sem fram undan er og líklegt er til að blasa við okkur allra næstu árin ef svo heldur sem horfir.

Eitt af þeim gögnum sem tókst þrátt fyrir allt að fá úr vinnu iðnaðarnefndar þó stutt væri var listi, ekki endilega tæmandi, ég skal ekki segja hvort hann sé það alveg en a.m.k. allmikill listi og unninn örugglega eftir bestu samvisku af starfsmönnum Orkustofnunar og ráðuneytis um þau rannsóknarleyfi og nýtingar- og virkjunarleyfi sem núna liggja fyrir. Það er fróðleg lesning. Hvað er fram undan? Af hverju liggur svona mikið á, var spurt hér áðan, hvað liggur á? Hvaða fiskur er undir steini að hæstv. ríkisstjórn eða hæstv. iðnaðarráðherra setur þetta mál í algjöran forgang og virðist ætla að láta það mæta afgangi að afgreiða öll önnur mál nema þá fjárlögin sem kláruðust í dag? Jú, það er nefnilega þannig að m.a. með breytingum á raforkulögum á að heita svo að hér hafi verið innleidd samkeppni í orkumálum.

Nú er það eins og hálfgerður brandari á sinn hátt að hægt sé að tala um samkeppni við aðstæður af því tagi sem hér ríkja milli opinberra fyrirtækja að verulegu leyti í eigu sama aðila, því að svo kostulegt sem það nú er þá krossast eignarbönd í öllum orkufyrirtækjunum, nema kannski á Orkuveitan eða Reykjavíkurborg ekki í Hitaveitu Suðurnesja. En ríkið og sveitarfélög eiga þetta þvers og kruss. Þannig á ríkið Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða, ríkið á helminginn í Landsvirkjun á móti Reykjavíkurborg og Akureyri og Reykjavíkurborg á síðan aftur 95% í Orkuveitunni. Ríkið hefur til skamms tíma a.m.k. átt eitthvað í Hitaveitu Suðurnesja, gott ef sá hluti var ekki til sölu eða kannski seldur núna. Þannig krossast þetta allt saman meira og minna. Landfræðilegar og náttúrulegar aðstæður eru auðvitað líka þannig að í veruleikanum er nánast ekki tæknilega mögulegt að um eiginlega samkeppni sé að ræða, jafnvel horft fram hjá þessum eignarböndum.

Þetta eru ekki nema þrír stórir aðilar og kannski fjórir ef við tökum Norðurorku með, sem mega sín einhvers á þessu sviði og þar af er einn algjör yfirburðarisi þegar kemur að framleiðslunni, þ.e. Landsvirkjun. Hún er með nánast alla vatnsaflsframleiðsluna og er að fikra sig inn í jarðhitann og þar af leiðandi eru fyrirtækin nokkuð sitt á hvoru sviðinu, tvö þeirra, Orkuveitan og Hitaveita Suðurnesja fyrst og fremst sérhæfð í virkjun jarðhita en Landsvirkjun sérhæfð í virkjun vatnsafls. Og það er ekki þannig að menn sippi sér þar á milli átakalaust einn góðan veðurdag þegar á að heita að komin sé samkeppni í lögum. Það er nú flóknara mál en það. Ýmislegt mætti um það segja en skiptir kannski ekki öllu máli.

Framtíðin er hins vegar sú, og búið er að ákveða það, ríkisstjórnin er búin að ákveða að þetta skuli markaðsvætt og síðan einkavætt eins og allt annað. Ekki er rætt um að gera nokkurn skapaðan hlut af hálfu ríkisstjórnarinnar lengur nema það sé hlutafélag og helst einkavætt strax. Fyrirtækin fara auðvitað að horfa til þeirrar framtíðar og búa sig undir hana, m.a. með því að horfa á alla þá álitlega virkjunarkosti sem eftir standa í landinu og enginn einn aðili hefur fengið einkaleyfi á eða helgað sér og reyna að klófesta þá, hremma þá. Eðlilega, fullkomlega eðlileg viðbrögð af hálfu fyrirtækjanna og þeir fara sem betur fer ekkert dult með það. Þeir koma á fund í iðnaðarnefnd og segja: Við teljum mjög mikilvægt að fá þessi rannsóknarleyfi og að þeim tengist fyrirheit um nýtingu. Þeir eru ekkert að fara í launkofa með að þannig vilji þeir hafa það og þannig ætlist þeir til að þetta verði, og ég er alveg viss um að hæstv. ráðherra hefur það í huga líka. (Gripið fram í: Hvar er ráðherra?) Hvar er hæstv. ráðherra? Sem hefur greinilega þurft að bregða sér frá og er nú lengur í burtu en kannski mætti búast við eftir því hver erindin eru.

Fróðlegt væri að hæstv. ráðherra færi aðeins yfir það síðar við umræðuna hvernig hæstv. ráðherra hefur hugsað sér að halda á þessum málum ef hún fær þessar heimildir í hendur, þó ekkert kæmi annað til en það að Alþingi ber ekki og á ekki að framselja óútfyllta víxla af þessu tagi til framkvæmdarvaldsins leiðbeiningalaust um hvernig með þá sé farið. Það er eðlileg krafa til að hér séu teknar upplýstar ákvarðanir um mál að upplýsingar liggi fyrir að svo miklu leyti sem það getur verið um þá hluti.

Það sem er fram undan, frú forseti, í sambandi við þau rannsóknarleyfi sem hafa verið lögð inn að undanförnu eru eftirtalin vatnsföll eða vatnasvið: Landsvirkjun hefur sótt um að fá að rannsaka allt vatnasvið Skjálfandafljóts. Ég giska á svona upp úr mér að það geti verið um 3.000–4.000 ferkílómetrar að stærð. Landsvirkjun hefur sótt um að rannsaka allt vatnasvið Tungnaár ofan Sigöldu. Landsvirkjun hefur sótt um að fá rannsóknarleyfi á vatnasviði Þjórsár neðan Búrfells, sem út af fyrir sig er athyglisvert vegna þess að Landsvirkjun á þegar nokkurn veginn fullhannaðar virkjanir á því svæði, Núpsvirkjun eða virkjun í Hreppum og aftur niður við Urriðafoss. En það skyldi nú ekki vera að þeir vilji treysta enn stöðu sína á svæðinu með því að fá útgefið, ef þetta frumvarp verður að lögum, rannsóknarleyfi með vilyrði um nýtingarrétt þannig að það sé bara í höfn. Landsvirkjun hefur sótt um að rannsaka vatnasvið Vestari og Austari Jökulsár í Skagafirði, allt vatnasvið Héraðsvatna og jökulsánna upp að jökli. Það er nú spilda. Landsvirkjun hefur sótt um rannsóknarleyfi í Brennisteinsfjöllum, vissulega til jarðhitavirkjunar. Brennisteinsfjöllin eru nú einu sinni síðasta stóra ósnortna háhita- og eldstöðvakerfið á Reykjanesi. Og Landsvirkjun hefur sótt um rannsóknarleyfi á Gjástykki og nágrenni, þ.e. nýja virkjun norðan Kröfluvirkjunar.

Hitaveita Suðurnesja hefur sótt um rannsóknir á jarðhita á Reykjanesskaga. Orkuveita Reykjavíkur hefur sótt um háhitasvæði í Reykjadölum í Rangárþingi ytra og háhitasvæðið í Kerlingarfjöllum. Þar ætla þeir kannski að bera niður, blessaðir mennirnir, og kemur nú við hjartað í einhverjum. Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja sameiginlega hafa sótt um háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum, með öðrum orðum, allir orkurisarnir eru að keppa um að fá að fara í Brennisteinsfjöll. Það er heldur betur að þeim sótt.

Rarik hefur sótt um vatnasvið Hólmsár í Skaftárhreppi. Það er talsverð spilda. Hún er að vísu ekki mjög löng en tekur til svæðisins norðan Mýrdalsjökuls að vatnaskilum og upp að vatnaskilum á móti Skaftá. Þeistareykir ehf. Virkjanir í Skjálfandafljóti. Það eru líka tveir að keppa um Skjálfandafljót. Það eru sem sagt tveir aðilar búnir að sækja um Skjálfandafljót, tveir um jökulvötnin í Skagafirði og tveir um Brennisteinsfjöll. Þetta kapphlaup er hafið. Það er skollið á. Það er nú ekkert lítið sem þarna væri verið að úthluta og er þó ekki allt talið því það er ýmislegt í gangi sem ekki ratar inn í þennan lista. Þannig er t.d. Orkustofnun ekki með sjálfa sig á þessum lista. Þar er t.d. búið að forkanna, hvað? Torfajökulssvæðið, Landmannalaugar. Tvær af merkustu hálendisvinjunum í jarðhita, Torfajökulssvæðið með Landmannalaugum og öllu því og Kerlingarfjöll eru á listanum. Brennisteinsfjöll, eina stóra, ósnortna svæðið hér á suðvesturhorninu nálægt byggð.

Þegar við höfum það í huga að að bæði stóru jökulvötnin á Austurlandi eru farin eða eru að fara, Jökulsá í Fljótsdal og Jökulsá á Dal. Við vitum hvernig er með Þjórsá og Tungnaá. Það er verið að sækja um Skaftá, það er verið að sækja um Hólmsá, það er verið að sækja um Skjálfandafljót og það er verið að sækja um jökulvötnin í Skagafirði. Það er nú ekki mjög mikið eftir. Þá er aðeins ein af stóru korguðu jökulánum eftir, Jökulsá á Fjöllum. Og síðan Hvítárnar. Þetta er bara svona. Landið er að vísu stórt og það tekur þó nokkurn tíma t.d. að labba þvert yfir það, en það er samt ekki stærra en það að við erum nánast með í höndunum hugmyndir um að úthluta því sem eftir er af því til rannsókna. — Og býð ég nú menntamálaráðherra hjartanlega velkomna í salinn, glaðbeitta. (Gripið fram í.) Vonandi tekur hún nú til máls hið snarasta hér í umræðunni og það gæti jafnvel orðið til þess að ég stytti mál mitt ef hæstv. ráðherra lofaði því. (Menntmrh.: Má treysta því?) Það má hafa það í huga.

Ég gæti síðan farið rækilegar yfir það, frú forseti, t.d. hvað þegar er útgefið af leyfum. Hellisheiðarsvæðið er nú í bullandi framkvæmdum og rannsóknum. Vesturhluti Kröflusvæðisins, en þar hefur Landsvirkjun nýfengið úthlutað leyfum. Þeistareykir, þeir eru allir afgreiddir. Þar er fyrirtækið Þeistareykir ehf. með leyfi. Hágöngusvæðið og Köldukvíslarbotnar, þegar úthlutað, búið að taka það frá fyrir Landsvirkjun. Og Landsvirkjun á fullbúnar virkjanir og er komin með framkvæmdaleyfi, með virkjanaleyfi t.d. á Búðarhálsvirkjun, Norðlingaölduveitu, Hellisheiðarvirkjun. Rarik er komið með leyfi á Lagarfoss o.s.frv. Enda stendur í þessu riti hér, skýrslu Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra um raforkumálefni, og mótmælir þá vonandi ekki hv. þm. Birkir Jón Jónsson, þó að vitnað sé þar í. (Gripið fram í.) Nei, því skal ég trúa. Það er þá líklega mark á því takandi. En hvað stendur þar? Jú þar stendur m.a., frú forseti:

„Undanfarin fjögur ár hafa verið lífleg í framkvæmdum og rannsóknum á orkulindum landsins.“

Já, en það stemmir ekki vel við þetta frumvarp. Þetta er búið að vera svona líflegt, bæði í rannsóknum og framkvæmdum. En hvernig stendur þá á því að hér í greinargerð stendur, með leyfi forseta:

„Samkvæmt upplýsingum frá iðnaðarráðuneytinu hefur komið í ljós að orkufyrirtækin eru tregari til að stunda rannsóknir á vatnsafli vegna þessa en heppilegt getur talist.“

Það er einhver tregða í þessu í frumvarpinu en það er svona bullandi gangur í þessu í skýrslunni. Á hvoru á nú að taka mark? Veruleikinn er auðvitað sá að þegar farið er yfir þetta hafa framkvæmdirnar verið gríðarlegar og það þekkjum við öll. Það er búið að undirbúa heilmikið sem bíður ýmist fullhannað eða hálfhannað. Búðarhálsvirkjun bíður algerlega tilbúin. Það er bara að bjóða út. (Gripið fram í.) Að vísu vilja þeir helst fá vatnið úr Þjórsárverum líka í gegnum Kvíslarveitur og Tungnaá. Það veit ég vel. En menn geta virkjað án þess. Þeir þurfa kannski ekki að fá allt, mennirnir, þó þeir fái mikið. En það er nefnilega þannig að Landsvirkjun er trú hugmyndafræði fyrrum formanns Alþýðuflokksins og heldur að það sé hægt að fá allt fyrir ekkert. Það er hennar pólitík í þessu, að fá allt fyrir ekkert. Fá bara alla náttúru Íslands fyrir ekkert. Er það nú ekki aldeilis með ólíkindum í raun og veru? (Gripið fram í: Er þetta þá ekki hugmyndafræði Samfylkingarinnar í dag?) Nei, þetta er hugmyndafræði Landsvirkjunar og ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Náttúra landsins er náttúrlega bara gratís. Hún er föl fyrir ekkert. Núll krónur á að greiða fyrir eyðilegginguna á norðausturhálendinu. Ekki ein einasta króna þó að tekin séu 40% af einu elsta friðlandi Íslands, Kringilsárrana. Ekki skóbótarvirði að mati ríkisstjórnarinnar og Framsóknarflokksins sérstaklega. Svona er þetta.

Þess vegna er auðvitað ekki nokkur minnsti grunnur til þess að reyna að halda því hér fram að það liggi á að fylla út fleiri rannsóknarleyfi. Það getur þá aðeins verið í einum tilgangi. Þeim að Framsóknarflokkurinn trúi því enn að villtustu stóriðjudraumar sínir geti orðið að veruleika með þremur nýjum álverkefnum og rafskautsverksmiðju í Hvalfirði í viðbót. Þá þarf auðvitað mikið til. Þá þarf u.þ.b. að tvöfalda raforkuframleiðsluna frá því sem hún verður eftir að Kárahnjúkavirkjun verður komin í gang. Úr 16 teravattsstundum í kannski um 30. Og hvað er þá farið? Þá eru farin 60% af því virkjanlega afli sem um langt árabil hefur verið miðað við að væri verjanlegt að hugsa sér að taka úr vatnsaflinu og háhitanum. Og er ég þá auðvitað ekki farinn að taka pælingar um djúpborun og annað þvílíkt inn í myndina. En við höfum lengi notað þá viðmiðun, ekki satt? Að þetta gætu verið svona 25–30 teravattstundir í vatnsaflinu og 20 í háhitanum. Og þá eru menn bara búnir með pakkann, búnir að ráðstafa þessu. Hvað ætla menn þá að gera eftirleiðis ef upp koma nýjar þarfir á komandi tímum, áratugum eða öldum og nota þarf orku til nýrra hluta, t.d. til að reyna að gera orkubúskap Íslendinga sjálfbæran, fara hér yfir í vetni eða aðra orkugjafa eða orkumiðla sem geta flutt orkuna úr fallvötnum og jarðhita út í farartæki? (Gripið fram í: Það er nú mál Framsóknarflokksins.) Það er mál Framsóknarflokksins, já, en ætlar þá Framsóknarflokkurinn bæði að éta kökuna og geyma hana? Bæði að virkja svo til allt virkjanlegt vatnsafl og háhita í landinu og líka að geyma hann til að framleiða vetni síðar meir þegar það verður orðið tæknilega og efnahagslega mögulegt? Það virðist vera. En það er nú eftir öðru hjá Framsóknarflokknum að hann haldi enn að þetta sé hægt, eftir öll árin, stofnaður 1916 og hann hefur enn ekki áttað sig á því. Hann hefur haft næstum öld til að fatta þetta en það hefur ekki dugað, að ekki er bæði hægt að éta kökuna og geyma hana. (Gripið fram í.) Það er ekki bæði hægt að taka drjúgan hlut af öllu því virkjanlega vatnsafli og háhita sem menn hafa reiknað með að hér væri verjanlegt að taka og þá er ekki mikið dregið undan. Ég veit vel hvað það er því ég hef séð forsendur þessara gömlu reikninga. Það eru í aðalatriðum bara Gullfoss og Dettifoss. Það er nú ekki miklu meira, satt best að segja, sem menn hafa reiknað með að ekki yrði farið í. Sennilega ekki í Geysi í Haukadal, ég hugsa að menn reikni ekki með að fara í það háhitasvæði. En miklu meira er það ekki sem menn hafa hugsað sér að skilja eftir.

Frú forseti. Þetta er náttúrlega ekki eins og við viljum hafa það. Það er ekki svona sem framtíð Íslands á að ráðast. Það er ekki með þessum hætti sem á að taka hinar stóru, óafturkræfu ákvarðanir um það hvernig við skilum af okkur landinu til komandi kynslóðar. Við höfum engan siðferðilegan rétt til að standa svona að fóstruhlutverki okkar, núlifandi kynslóð í landinu. Það verður okkur til ævarandi skammar ef við látum allt þetta ganga yfir landið sem ríkisstjórnin er með á prjónunum. Okkur verður aldrei fyrirgefið af komandi kynslóðum ef við stórskemmum landið með þessum hætti í þágu skammtímagróðasjónarmiða sem reynast svo ekki einu sinni gróðasjónarmið. Hvernig ætlum við að biðja um fyrirgefningu á því t.d. að eyðileggja Þjórsárver? Hver á að fyrirgefa okkur? Ef við vitandi vits og með opin augun og mitt í öllu góðærinu teljum allt í einu að við séum svo fátæk að við höfum ekki efni á að varðveita eina helstu perlu heimsins í flokki hálendisvinja og fuglaparadísa. (Gripið fram í: … þó það væri til.) Það hefur ekki hingað til orðið til, a.m.k. með því að eyðileggja Þjórsárver, alla vega ekki það sem eftir er af þeim. Ég held að þessir höfðingjar verði að fara að átta sig á því, bæði ríkisstjórnin og orkufurstarnir að þeir eru ekki einir í heiminum. Þeir munu ekki komast upp með þetta lengi, þeir verða settir af. Það er liðin tíð að menn geti hegðað sér eins og þeir séu ríki í ríkinu. Það er til yfirgengilegrar skammar, Friðrik Sophusson, ef þú heyrir mál mitt, að þú skulir ekki beita þér fyrir því að Landsvirkjun hætti í Þjórsárverum. Það er til yfirgengilegrar skammar að Landsvirkjun skuli ekki a.m.k. færa það fram til lágmarkssáttagerðar í þessum málum. Að vera enn að þjösnast á Gnúpverjum og öllum þeim sem reynt hafa að standa vörð um Þjórsárver er til skammar. Þið eruð litlir karlar sem getið ekki játað mistök ykkar og bjargað ykkur í land í málum af því tagi. (Gripið fram í: Hann er nú fjarstaddur.) Ég tala til hans í krafti þess embættis sem hann gegnir, að vera forstjóri Landsvirkjunar og áhrifamaður, og stjórnin að sjálfsögðu meðtalin, og iðnaðarráðherrann ekki undanskilin og ríkisstjórnin. Því skylt er skeggið hökunni. (Gripið fram í: Hvar er iðnaðarráðherra?)

Og hvað er nú að gerast? Flautustjórinn, hæstv. iðnaðarráðherra, bíður á hliðarlínunni að flauta kapphlaupið á um það sem eftir er að skipta upp af landinu á milli orkufyrirtækjanna. (Gripið fram í.) Það er ósköp einfaldlega það sem er að gerast. Flautustjórann vantar hérna snúru í flautuna til að geta hafta hana um hálsinn og blásið. (Gripið fram í: Þetta er nú heimsenda…) Þetta er nú bara svona. Menn eru að helga sér landið. Skipta því upp sem eftir er af því. Það er bara þannig. (Gripið fram í.) Og látum nú vera ef aðferðafræðin við að helga sér land væri sú hin forna, að þeir yrðu þá að leiða út kvígur og teyma þær um 4.000 ferkílómetra vatnasvið og sjá hvernig þeim gengi. (Gripið fram í: Og kveikja elda.) Eða kveikja bál og reyna að halda því lifandi þannig að sæist á milli þeirra. En það er ekki þannig sem á að fara að þessu. Ónei, það á að afhenda þeim þetta með einni undirskrift, bara með einum bírópenna ætlar hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að færa Landsvirkjun Skjálfandafljót og þeim sem með henni vilja vinna þar. Að færa Rarik og Kaupfélagi Skagfirðinga og fleiri góðum aðilum jökulvötnin í Skagafirði. Hver fær Brennisteinsfjöll til að rassakassast í? Ætli það verði ekki heimaaðilarnir hér, orkuveitan og Hitaveita Suðurnesja? Það er ekki ólíklegt. Fær Rarik Hólmsá? Það er ekki ólíklegt. (Gripið fram í: Þú ert bara með svör við þessu öllu.) Enda verður það í góðu lagi ef iðnaðarráðherra verður að ósk sinni, og hún getur síðan sameinað Rarik og Orkubú Vestfjarða og Landsvirkjun. Þá rennur þetta allt saman. (Gripið fram í.) Fær Landsvirkjun Skaftá? Langasjó? Mjög sennilega. Hún er þegar með miklar rannsóknir í gangi þar og vel að merkja, þarf ekki þetta frumvarp til. Menn hafa nú þorað öðru eins, eins og að leggja smáaura í rannsóknir hér og þar þó að þetta frumvarp komi ekki til. En það er svo sem út af fyrir sig hægt að gulltryggja þetta betur með þeim hætti.

Málið snýst um þetta að mínu mati. Þetta er minn spádómur ef þetta gengur eftir og ráðuneytið afhjúpar sig í málflutningi sínum hér þar sem það er að sýta tregðu orkufyrirtækjanna í að rannsaka. Þetta gangi ekki nógu vel, ekki nógu hratt. Auðvitað er það rétt að ef öll þessi ósköp eiga að ganga eftir og álframleiðslan á að tvöfaldast á fáeinum árum í viðbót við það sem hún verður orðin þegar Grundartangi og núverandi stækkun þar verður komin og Kárahnjúkavirkjun og Reyðarál á Reyðarfirði, þau rúmu 700 þús. tonn af áli á ársgrundvelli sem þá verða framleidd, að þá séum við að dobla það. En út á það ganga áætlanirnar. Nei, þá er að breytast ýmislegt í orkubúskap okkar.

Stóriðjuæðið er alvöruæði. Ég get ekki notað annað orð yfir það því að mér finnst þetta vera óðs manns æði. Ég skil ekki að menn skuli ekki að minnsta kosti fást til að staldra við og velta þeirri hugsun fyrir sér þó það væri ekki nema í um hálft ár. Sumir þurfa kannski lengri tíma að hugsa en aðrir. Framsóknarflokkurinn hefur t.d. ekki fattað þetta enn þá með kökuna alveg síðan 1916 að það sé ekki bæði hægt að geyma hana og borða hana. Af hverju staldra menn ekki við og segja: Er kannski komið nóg í bili? Ef við sláum striki yfir allt sem á undan er gengið, deilurnar og það og segjum: Heyrðu, hér erum við stödd við áramót 2005/2006 og það er allt þetta í gangi. Er kannski nóg komið í bili? Eigum við aðeins að staldra við og átta okkur á hvar við stöndum, hvernig þetta lítur út?

Einhverjum hefði kannski komið í hug að láta smáreynslu koma á nýlega teknar stórframkvæmdir og fjárfestingar á þessu sviði. Eigum við kannski að láta dóm reynslunnar skera aðeins úr um það? Er þetta skynsamlegt? (Gripið fram í.) Já, það er að vísu rétt. Það þarf kannski að hafa það í huga. Einhverju nýju þarf að vera hægt að lofa, slá um sig og einhvern veginn þarf að reyna að hífa fylgið upp á ónefndum svæðum. (Gripið fram í.) Eða Suðurnesjum. (Gripið fram í: Á ónefndum svæðum.) Já, ég er ófeiminn við að nefna það. Þrír staðir á Norðurlandi eru látnir keppa um hver á að hreppa hnossið, er það ekki? Er það ekki opinberlega þannig? Ég veit ekki betur en að heimamenn trúi því hver á sínum stað að þetta kunni að falla þeim í skaut, Skagfirðingar, Eyfirðingar, Þingeyingar. Dapurlega margir gína við þessari flugu og halda að eftir miklu sé að slægjast. Út af fyrir sig er það það ef við einblínum bara á umsvifin á framkvæmdatíma eins og við sjáum á veisluhöldunum fyrir austan um þessar mundir. En er það það sem menn vilja, að fá eitt, tvö þús. útlendinga í þrælabúðir í kjördæminu hjá sér í nokkur ár? Það væri kannski gaman og hyggilegt að sjá reynsluna af því þegar það verður allt um garð gengið og þegar eða ef vinnumarkaður og byggð á viðkomandi svæði leitar aftur jafnvægis, hvað stendur þá eftir. Er þetta þess virði? Er þetta skynsamleg ráðstöfun eða aðgerð í byggðamálum burt séð frá öllu öðru. Það hefur reynst misjafnlega í nágrannalöndunum. Sums staðar hefur það farið þannig að álver hafa orðið óstarfhæf af því að byggðarlagið í kringum þau hrundi. Fyrir ekki löngu síðan var álveri í Skotlandi lokað af því að það var orðið ómögulegt að manna það. Norðmenn hafa mjög blendna reynslu af þessu hjá sér. (Gripið fram í: Hvernig er með Straumsvík?) Með Straumsvík? Höfuðborgarsvæðið er ekki farið í eyði. Það sannar að þetta er einmitt svona, af því að höfuðborgarsvæðið er ekki farið í eyði. (Gripið fram í: Grundartangi?) Ætli menn vinni ekki við eitt og annað fleira á höfuðborgarsvæðinu en í álverinu í Hafnarfirði? Er hv. þingmaður enn þeirrar skoðunar að ekkert nema ál geti bjargað okkur? Hann hefur ekki tekið mikið mark á því sem ég fór yfir í sambandi við þróun atvinnulífs að öðru leyti í landinu. Honum þykir ekki mikið til þessara hátæknifyrirtækja koma. Þau mega fara, Össur, Marel og svona aðilar. (Gripið fram í.) Ja, hvert er hv. þingmaður að fara ef hann heldur þessu fram blákalt? Nefnir að allt sé blómlegt á höfuðborgarsvæðinu af því að það hafi verið byggt eitt álver í Straumsvík eins og það sé skýringin á því máli í heild sinni. (Gripið fram í: Einkavæðing bankanna.) Ætli það nú?

Þetta er bókstaflega svona, frú forseti, nú er það aftur herra forseti. Þetta er mjög erfitt. Forsetar hafa skipt um sæti þarna fyrir aftan mig alveg stanslaust síðustu tímana þannig að ég er hálfruglaður í þessu. Með þeim framkvæmdum og stækkunum sem nú standa yfir fer álframleiðslan á Íslandi í eitthvað milli 700 og 800 þús. tonn. Það eru orðin 2,5–3% af heimsframleiðslu af áli. Það þýðir að ál, brúttó útflutningstekjur af áli verða orðnar 20–25% af vöruútflutningi þjóðarinnar. En ríkisstjórnin er með tvö ný álverkefni á borðinu og er þátttakandi í þeim báðum. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem er enn fjarri góðu gamni eins og maðurinn sagði forðum ... (Gripið fram í: Af hverju er ekki kallað á ráðherrann?) Ég nenni því ekki. Forseti gerir ekkert í þessu og þá verður bara að hafa það.

Ríkisstjórnin er samningsbundinn þátttakandi í því að byggja álver í Helguvík og álver á Norðurlandi. Ekki bara einhver áhorfandi að því, ekki bara aðili úti í bæ, hún hefur skrifað undir samning með fyrirtæki sínu, markaðsskrifstofunni eða hvað það heitir við heimamenn og viðkomandi álfyrirtæki um að gera þetta. Í þriðja tilvikinu þar sem er stækkun álversins í Straumsvík hefur ríkisstjórnin einfaldlega gefið út leyfi til að greiða götu þess máls. Er hægt að halda öðru fram en að öll þrjú stóru nýju álverkefnin, tvær nýbyggingar og ein gríðarleg stækkun þar sem á að meira en tvöfalda framleiðslugetu álversins í Straumsvík séu á fullri ferð? Ég fæ ekki séð annað. Hvernig ætlar ríkisstjórnin allt í einu að koma og segja, ef hún ætlar þá að segja það: Nei, bíddu, þetta gengur ekki. Þið fáið ekki að byggja. Hvernig ætlar hún að velja? Þarf þá að skipa nefnd með bráðabirgðaákvæði í lögum til að reyna að finna út úr því hvaða framkvæmd fái að fara af stað og hver ekki?

Hæstv. ráðherra lætur stundum eins og ráðherrann sé áhrifalaus aðili úti í bæ og þetta séu bara markaðsákvarðanir sem ekkert sé við að gera. Ef það er þannig gæti það gerst að þessar þrjár framkvæmdir færu allar af stað í einu á árunum 2007–2009? Þær eru miðaðar við það. Undirbúningnum er hagað þannig bæði hjá viðkomandi hópum og orkufyrirtækjunum sem eru að skoða möguleika sína á því að framleiða fyrir þau orku. Mér vitanlega eru enn í gangi hugmyndir um rafskautaverksmiðju í Hvalfirði sem er enn ein verksmiðjan sem spúir miklum reyk út í loftið. Hvernig þetta á svo að ganga gagnvart Kyoto-skuldbindingum okkar veit enginn maður en samt er þetta allt á fullri ferð. Hvernig í ósköpunum þetta á að komast í íslenska hagkerfið veit enn síður nokkur hugsandi maður. Það er enginn nema ríkisstjórnin sem í villtustu draumum sínum lætur sér detta það í hug að þetta geti allt saman gengið eftir. En svona er þetta, herra forseti. Þetta er allt í gangi og Sjálfstæðisflokkurinn ber fulla ábyrgð á þessu meðan hann ekki tekur í bremsurnar og kælir ónefnda aðila niður, stoppar þá af.

Mjög margt liggur fyrir um þau ruðningsáhrif sem núverandi stórframkvæmdahrina í landinu er sannanlega að hafa í för með sér. Það þýðir ekki að neita því lengur. Það eru ekki bara einhverjar hrakspár, svartagallsraus í okkur Vinstri grænum, eins og sagt var fyrir kosningar 2003, að þetta komi til með að hafa ýmsar afleiðingar. Nei, þetta er sannanlega þannig að stórframkvæmdirnar og stórfjárfestingarnar með væntingunum sem þeim tengjast og ýmsu fleiru eru að ryðja sér til rúms í íslensku hagkerfi og ryðja þá öðru um koll eða í burtu, undir yfirborðið eða úr landi. Þetta er veruleikinn. Það er alveg yndislegt að sjá iðnaðarráðuneytið og þessi batterí þar sem gefa út dýra og fína bæklinga. Sjáðu nú, forseti: Hátækniiðnaður: framtíðarsýn og spá. Hátækniiðnaður: þróun og staða á Íslandi. Auðlind framtíðarinnar. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Samtök iðnaðarins, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins. (Gripið fram í.) Já, allt er þetta svona skínandi gott og það eru prentaðar flottar skýrslur. Svo kemur að vísu út hefti, en það er frá Samtökum iðnaðarins og þá versnar nú í því. Þar er spurt: Eru hátæknifyrirtækin á förum? Þá er þetta ekki kannski alveg eins og í flottu bæklingunum frá ráðuneytinu um hina glæstu framtíð og miklu uppbyggingu. Nei, það er verið að spyrja spurninga sem reyndar þarf ekki að spyrja því svarið liggur fyrir. Eru hátæknifyrirtækin á förum? Já, þau eru á förum. Auðvitað. Þau geta ekki lifað af í þessu umhverfi. (Gripið fram í.) Það liggur fyrir og niðurstaðan er sú. Sérfræðingur eftir sérfræðing segir einfaldlega: Þetta mun aðeins enda á einn veg og það tiltölulega fljótt. Ef svo heldur sem horfir fer þetta svona.

Þetta er út frá ástandinu í dag. Hvernig halda menn þá að verði umhorfs í íslensku hagkerfi og atvinnulífi segjum árið 2009 ef þrjú eða fjögur ný risaverkefni eru meira og minna öll að fara af stað samtímis með þeim brjálæðislegu væntingum um gullöld, gleðitíð, þenslu, hágengi og allt sem það mun hafa í för með sér? Það mun auðvitað þýða að sjúklingnum verður bara gefið inn enn þá sterkara lyf og veislan heldur áfram þangað til hún endar með ósköpum og hún endar með þeim mun meiri ósköpum sem þetta heldur lengur áfram. Þá verður búið að grisja skóg hins almenna atvinnulífs og sérstaklega útflutnings- og samkeppnisgreinanna þannig að við verðum lengi að bíða þess bætur ef við gerum það nokkurn tíma. Þetta á þá eftir að reynast eitthvert dýrasta mistakaskeið í atvinnuuppbyggingarsögu landsins af því að við hrekjum frá okkur og kæfum í uppbyggingunni verðmætu fyrirtækin sem við ætluðum að skapa með hátækni- og þekkingarstörf og vel launuð störf í nýja þekkingarsamfélaginu á komandi áratugum. Fyrir hvað? Fyrir tiltölulega einhæf störf í gamaldags þungaiðnaði sem borgar miklu lægri laun og skilar sorglega lítilli ef nokkurri þjóðhagslegri arðsemi. (BJJ: Þetta er bara rugl.) Er þetta bara rugl, hv. þingmaður, hv. hagfræðingur Birkir J. Jónsson? Nú skulum við fara yfir það. Nú skulum við fara yfir arðsemina af þessu brölti. Það hefur ekki mátt mikið tala um það af því að líka þar (BJJ: Það er trúnaðarmál.) er byggt á gömlum trúarsetningum, gömlum nordælskum trúarsetningum aftan frá miðri síðustu öld. Það er bara þannig.

Nú vill svo til að á þessu hafa líka verið gerðar úttektir og rannsóknir. Það má auðvitað ekki tala hátt um þær í þessu samfélagi þar sem stofnanir eru lagðar niður ef þær eru með múður og Veðurstofan hefur varla þorað að spá vondu veðri í mörg ár af ótta við að hún verði lögð niður. Ástandið er bara þannig. (Gripið fram í: Það er fínt veður, Steingrímur.)

Gamlar hégiljur og gamlir frasar hafa verið lífseigir, t.d. um að tonn af áli sé jafnverðmætt og tonn af þorski, það hefur verið ein lífseigasta hégiljan, kennisetningin. Ég held að það séu ekki nema bara einhver missiri síðan hún stóð eins og heilagur sannleikur í leiðara Morgunblaðsins. Það er búið að taka þetta aðeins í gegn og fara yfir þetta (Gripið fram í: Hvar á sannleikurinn sér bót við þessu?) þannig að það kemur í ljós, sem auðvitað blasir við hverjum manni sem fer að hugsa málið, að innlendi virðisaukinn af fjárfestingum í stóriðju er sorglega lítill. Jafnvel þó menn nái að semja um sæmilegt raforkuverð og það standi undir sér er innlendi virðisaukinn samt ótrúlega lítill. Af hverju er það? Af því að innlendu kostnaðarþættirnir eru svo lágir í rekstrinum og af því að þetta er að svo miklu leyti ósköp einfaldlega flutningur á vöru hér í gegn. Um 70% kostnaðarins í álframleiðslu er erlendur þegar fyrirtækið er erlent og er með höfuðstöðvar sínar á erlendri grund. Það mundi að sjálfsögðu breytast ef arðurinn af rekstrinum sem slíkur kæmi þar.

Þetta er þannig ef við berum saman álframleiðslu, fiskvinnslu og ferðaþjónustu, það er nú mjög gilt því að það eru nákvæmlega þessar greinar sem keppa um pláss í íslensku atvinnulífi í dag — sjávarútvegurinn og fiskvinnslan eru að verða undir og álframleiðslunni er rutt inn í hagkerfið með handafli þannig að ónefndir húsbændur í austurvegi væru fullsæmdir af að keyra slíkar handaflsákvarðanir í atvinnumálum inn í sitt land. (Gripið fram í.) Það er nú ekki svo, hv. þingmaður og frammíkallandi.

Innlendur kostnaður er 30% — þetta er lífseigt frammíkall en menn gefa sér fyrst og fremst sjálfir einkunn með svona löguðu finnst mér nú — og þar af eru laun 10%. Vefengir hv. þm. Birkir Jón Jónsson þessar tölur? Hefur hann betri upplýsingar en greiningardeild KB-banka t.d.? Hefur hann það, veit hann eitthvað um þetta? Ég efast um það, af því að þetta hefur aldrei mátt reikna út. Við margbáðum um að einhverjir þjóðhagslegir arðsemisútreikningar yrðu lagðir til grundvallar ákvörðunum um byggingu Kárahnjúkavirkjunar og Reyðaráls. Það mátti aldrei. Það er pukrast með það eins og hernaðarleyndarmál hvað borgað er fyrir rafmagnið og menn hlæja að því í löndunum í kringum okkur. Þegar ég ræddi við kollega mína á norska Stórþinginu og spurði þá um orkuverðið í norskum stóriðnaði vissu þeir það allt saman, það liggur allt fyrir í skýrslum í norska Stórþinginu. Nú, er þetta ekki trúnaðarmál hjá ykkur? sagði ég, og þeir hlógu. Ha, trúnaðarmál? Heldur þú að við létum einhvern tíma bjóða okkur það að taka ákvarðanir um þessa hluti og hafa ekki upplýsingarnar uppi á borðinu? Hvað þarf að fara leynt? Ekki nokkur skapaður hlutur.

Hér rembast menn við að fara með það eins og trúnaðarmál að þeir eru að selja og ætla að selja stóriðjunni rafmagnið á rétt rúmlega eina krónu kílóvattstundina á sama tíma og bændur borga á þrettándu krónu fyrir kílóvattstundina sem þeir nota. Þetta finnast framsóknarmönnum eðlileg hlutföll. Þeir eru miklir vinir bænda eins og kunnugt er. Það er allt í lagi að menn borgi þessar upphæðir svona fyrir rafmagnsnotkun til sveita og jafnvel með einfasa rafmagni sem nýtir það 30% verr en ella væri. (Gripið fram í: Þetta er nú ekki hægt.) Þegar við brjótum þessa þætti niður skilur álframleiðslan merkilega lágt hlutfall af umsetningu sinni eftir í íslenska hagkerfinu og það er einfaldlega vegna þess að svo stór hluti kostnaðarþáttanna fellur til erlendis, stór hluti af tilkostnaðinum verður ekki eftir hér í formi neins virðisauka. (Gripið fram í.) Má ekki ræða þetta kannski?

Ég verð nú bara að biðja framsóknarmenn að fara úr salnum ef þeir þola þetta ekki, þeir eru orðnir eitthvað svo órólegir undir þessu. Ég skil vel að mönnum líði illa yfir þessu því að þetta hefur aldrei mátt tala um, auðvitað ekki. Það þorir enginn að tala um þetta. (Gripið fram í: Þetta skilaði nú góðum framsóknarmönnum inn á þing.) Launin eru um 10%, í álframleiðslu eru launin aðeins 10%. Þau eru 45% í sjávarútvegi. Ef við tökum laun sjómanna og laun fiskverkafólks og þeirra sem koma að verðmætasköpun í sjávarútveginum, þegar það er gert upp skilur sjávarútvegurinn eftir um 45% í laun. Það gerir hann m.a. jafngríðarlega mikilvægan í íslensku hagkerfi og hann er og í raun og veru umfram það sem ætla mætti miðað við hlutfall hans í útflutningsframleiðslunni af því að hann er mjög atvinnuskapandi grein. Ekki endilega í þeim skilningi að hann ráði mjög margt starfsfólk en hann hefur borgað sæmileg laun til sjómanna.

Í álinu skiptist þetta í grófum dráttum þannig að raforkan, sem notuð er til að bræða báksítið og breyta því í ál, er um 15% kostnaðarþáttur plús/mínus auðvitað eitthvað. Að sjálfsögðu verður að hafa í huga að hér er um rúnnaðar tölur að ræða og það er ekki hægt að hafa það öðruvísi — 15% en aðeins 15% eru þá þátturinn sem lokkar starfsemina hingað. Það ætti að segja mönnum að verðið fyrir raforkuna þarf auðvitað að vera mjög hagstætt til að taka ákvarðanir um að flytja slíka starfsemi landa eða heimsálfa á milli út á þó ekki stærri kostnaðarþátt í rekstrinum en 15 af hundraði. Þess vegna þarf auðvitað að hafa útsöluna ansi hressilega ef það á að lokka hana hingað en ekki eitthvert annað. Um 15% í rafmagn, 10% í vinnuafl, 5% í viðhald og þá erum við komin með þetta. Innlendir þættir eru gróft reiknað 30%, 70% erlendur kostnaður og hagnaður erlends eiganda.

Í fiskvinnslunni er innlendur kostnaður og hagnaður 80%. Það eru aðeins 20% sem eru erlend og gæti verið enn minna, t.d. ef við værum duglegri við að smíða okkar skip sjálf. (Gripið fram í: Olía.) Það er fyrst og fremst olía og vextir og eitthvert hráefni í skipin og reksturinn.

Í ferðaþjónustunni er þetta næstum því jafnhagstætt. Innlendur kostnaður og hagnaður eru 70% og þar af laun 50%. Það er engin grein sem kemst jafnhátt í þessum samanburði og ferðaþjónustan, hún er með helmingskostnað í laun þannig að hún er mjög atvinnuskapandi. Þar er stóriðjan auðvitað á engan mælikvarða enda eru atvinnutækifæri í stóriðju einhver þau dýrustu sem þekkjast á byggðu bóli, kosta fleiri, fleiri tugi ef ekki hundruð milljóna hvert miðað við störfin í álverinu. Þá veit ég auðvitað að menn koma og segja: Já, en hvað með afleiddu störfin? Þannig reikna menn alltaf dæmið, svo ótrúlegt sem það nú er, og það láta menn bjóða sér, þeir reikna ekki bara einhver 400 störf í álveri á Reyðarfirði eða 200 á Grundartanga heldur reikna álverinu til tekna öll afleiddu störfin annars staðar í samfélaginu í kringum þau. En skiptir það máli hvort það eru álver eða eitthvað annað? Verða ekki alltaf til afleidd störf? Jú. Það skiptir nákvæmlega engu máli. Menn mega auðvitað ekki gefa sér að annars sætu bara allir viðkomandi atvinnulausir á bótum. Ástandið er ekki þannig á Íslandi, það vantar vinnuafl. Það vinnuafl sem ekki binst í stórframkvæmdum af þessu tagi leitar inn í aðrar greinar, nýtir önnur tækifæri og það verða til afleidd störf utan um þau störf rétt eins og hin. Dæmið er nú svona valt.

Hver er þá niðurstaðan af þessum samanburði? Hún er sú að eitt tonn af áli er ekki jafngilt og eitt tonn af þorski. Það þarf tíu, ellefu tonn af áli til þess að skapa og skilja eftir í íslenska hagkerfinu sambærilegan virðisauka og af einu tonni af þorski. Heildaráhrifin af álbræðslunum í íslenska hagkerfinu reynast þess vegna merkilega lítil og það er ekkert að marka brúttótöluna þó að útflutningstekjurnar fari í 25, eða þess vegna 40% ef villtasti stóriðjudraumur Framsóknar gengi eftir — ef við færum hérna í 1,4 milljónir tonna af áli með nýbyggingunum og stækkun í Straumsvík færi álið sennilega upp í 40% af vöruútflutningi þjóðarinnar. En það er ekkert að marka þá tölu vegna þess að virðisaukinn sem eftir verður innan lands er svo lítill og það fer svo mikill gjaldeyrir út á móti í formi aðfanga og hagnaðar sem hinn erlendi eigandi dregur úr landinu. Nettóáhrif stóriðjunnar í hagkerfinu á komandi árum verða því miklu, miklu, miklu minni en menn hafa almennt talað um hingað til. Þau verða satt best að segja svo léttvæg að það verður sáralítil hjálp í þeim þegar kemur að því að borga af erlendum skuldum þjóðarinnar á komandi áratugum.

Hins vegar stendur sú fjárfesting fyrir verulegum hluta af þeim, það verður nefnilega svo kúnstugt, vegna þess að þannig háttar til að virkjanirnar eru síðan byggðar nánast alfarið fyrir erlent lánsfé þannig að frá nettógjaldeyrissköpun álframleiðslunnar á komandi árum verður í raun og veru að draga vaxtakostnaðinn vegna lántökunnar til að byggja virkjanirnar ef dæmið á að núllast eða koma rétt út í samanburðinum — að vísu að sjálfsögðu bara þau fyrstu 25–40 ár sem tekur að afskrifa þær, þá breytist það. En það er þannig að vaxtagreiðslurnar af fjárfestingum Landsvirkjunar eystra og Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja hér syðra vegna yfirstandandi framkvæmda verða væntanlega um 4 milljarðar kr. þegar þær verða allar komnar í framkvæmd og þá tölu þarf í raun og veru að draga frá gjaldeyrissköpuninni sem útflutningurinn á álinu skapar, þ.e. nettógjaldeyrisskilunum sem verða jafnlítil og léttvæg í hagkerfinu og ég hef verið að reyna að fara hérna yfir.

Hvernig stendur á því að stjórnarliðar eru ekki menn til þess að ræða þessa hluti svona? Af hverju má aldrei fara yfir dæmið í heild sinni og reyna að gera það upp? Er einhver glóra í þessu? Mín niðurstaða er sú að það sé engin glóra í þessu. (Gripið fram í.) Það er engin glóra í þessu dæmi. Við erum að stórskaða rekstrarskilyrði og vaxtarmöguleika annarra greina í atvinnulífinu. Við erum að fá hérna mjög dýr störf í þeim skilningi að fjárfestingin á bak við þau og erlend skuldsetning vegna þeirra verður gríðarlega mikil. Við erum að taka inn í landið eða troða inn í landið greinum sem hafa mjög lítil nettóarðsemisáhrif í hagkerfinu, skilja lítið eftir, á kostnað greina sem skilja mikið eftir. Tækni- og þekkingarfyrirtækin eru þau allra bestu í þessum skilningi vegna þess að yfirleitt eru aðföngin nánast ekki nein af því að það er verið að selja hugvit, þetta hérna, sem er það albesta og það er hér sem á að virkja. Eina almennilega virkjunarstefnan er sú að virkja þetta hérna, hausinn á okkur og nota hann. Þá komumst við að þeirri niðurstöðu að þetta er nú sennilega ekki mjög gáfulegt.

Af hverju vegnar Dönum svo vel sem raun ber vitni í atvinnulífi án þess að hafa neina Kárahnjúkavirkjun? (Gripið fram í: Þeir hafa engan Framsóknarflokk.) Nei, hann er a.m.k. mjög áhrifalítill þar á bæ. Það er af því að Danir eru snillingar í því að gera sér verðmæti úr þekkingu og hugviti og færni sinni sem sölumenn og gera margt mjög vel og mjög athyglisvert í þeim efnum. Af hverju seljast t.d. hljómflutningstæki Bang og Olufsen á svona u.þ.b. tvöföldu verði á við flestar aðrar græjur? Er það endilega af því að þau séu miklu betri, tvöfalt betri? Þetta eru að vísu ágætisgræjur en það er fyrst og fremst vegna þess að það er verið að selja hönnun, það er verið að selja hugvit og menn gera sér verðmæta vöru úr því, nota á sér hausinn.

Er nú ekki kominn tími til þess að framsóknarmenn byrji á því að reyna að nota á sér hausinn (Gripið fram í.) og búnir að hafa allan tímann síðan 1916 til þess? Þetta er ekki úthugsuð þróun í íslensku samfélagi. Hún byggist ekki á traustum málefnalegum eða rökrænum forsendum þegar farið er í gegnum það mál.

Ég er að sjálfsögðu alls ekki að segja að orkunýting með ýmsum hætti eigi ekki rétt á sér og eigi ekki að vera hluti af atvinnuuppbyggingu í okkar landi. Jú, hún á að vera það. En hún á ekki að ákvarðast með þessum hætti og á þessum forsendum og það síðasta sem við eigum að gera er auðvitað að selja orkuna okkar í heildsölu á útsöluverði til erlendra aðila. Við eigum að reyna að nota hana sjálf og láta hana skapa meiri verðmæti og fjölbreyttari og skjóta rótum undir fjölbreytni og grósku í okkar innlenda atvinnulífi.

Ég er algjörlega sannfærður um að ef öðruvísi hefði verið staðið að málum í orkumálum hér á landi og menn hefðu byggt virkjanir af hóflegri stærð fyrir innlendan notendamarkað, hagkvæmar rennslisvirkjanir í ám með jöfnu rennsli, hagkvæmar viðbótarvirkjanir á rafmagni samhliða nýtingu á heitu vatni, eins og t.d. á Nesjavöllum, sem er bráðhagkvæmt, að tappa rafmagninu af í leiðinni um leið og menn virkja jarðhitann til húshitunar, einhverjar hagkvæmustu virkjanir sem hægt er að fara í. Ef við hefðum staðið skynsamlega að þessum hlutum, ekki fjárfest um of, greitt niður þessar fjárfestingar, þá gætum við haft rafmagnsverðið einn þriðja af því sem það er til innlendra nota í dag. Ég er alveg sannfærður um það og auðvelt er að reikna þetta. Og hvaða vaxtarmöguleika og grósku gæti það nú skapað í almennum, fjölbreyttum iðnaði? Halda menn að bændurna mundi ekki muna um að kílóvattstundin væri ekki 13 krónur heldur 5? Er einhver vitglóra í því að selja þessa auðlind til útlendinga á svona algjörum útsöluverðum að reikna þarf arðsemina alveg niður í frostmark og setja þarf að veði fyrir fjárfestingunum gjörvallar eignir og gjörvallar tekjur Landsvirkjunar og ríkisábyrgð að auki og dugar varla til, selja þetta á 1,17 kr. eða 1,20 eða 1,30, skiptir ekki öllu máli, það er af þeirri stærðargráðu sem þetta er, það er auðreiknað dæmi.

Hvernig er þróunin síðan í þessum hlutföllum milli almenna markaðarins og iðnaðarins? Jú, hún er þannig að þegar það sem núna er í pípunum verður gengið yfir verða tæp 80% af raforkuframleiðslu í heild sinni í landinu til stóriðju á þessum verðum, rétt rúm 20% til almenna markaðarins. Ef stóriðjumartröðin mikla, fantasía Framsóknarflokksins nær fram að ganga skekkjast þessi hlutföll enn um 10%. Þá yrðu 90% til stóriðju og 10% til almennra innlendra nota í blönduðum fyrirtækjum. Hver er hættan í því dæmi? Hún er auðvitað geigvænlegri en nokkru sinni fyrr á því að innlendir notendur með minnkandi og minnkandi hluta af þessu eru í raun og veru bakábyrgir ef hitt dæmið gengur ekki upp. Og það verður alltaf erfiðara og erfiðara eftir því sem þessi hlutföll verða skakkari.

Auðvitað var það tilfinnanlegt þegar raforkuverðið var sérstaklega hækkað í tvígang á landsmönnum til að varna því að Landsvirkjun færi á hausinn vegna þess að samið var um svo lágt orkuverð í Búrfellsvirkjun í byrjun. Það er staðreynd að fara þurfti í björgunarleiðangra til handa Landsvirkjun á fyrstu árunum og hækka sérstaklega raforkuverðið á innlendum notendum til þess. En þá voru þau hlutföll um það bil öfug. Þá var aðeins ein virkjun að framleiða í eina umtalsverða stóriðju, að slepptri Áburðarverksmiðjunni sem ekki vó þungt.

Nú horfir þetta öðruvísi við og ábyrgðaraðilarnir, raforkunotendurnir eru landsmenn, skattgreiðendurnir sem eru með þetta allt saman á herðunum hvort sem er, á alla enda og kanta. Þeirra verður það að bíta úr nálinni með þau áhrif á atvinnulíf og lífskjör sem þetta hefur og þeirra er að standa undir ríkisábyrgðunum ef þær skyldu falla. Ég hef að sjálfsögðu engan áhuga á að gerast einhver heimsendaspámaður og ég vona svo sannarlega að þetta gangi og mönnum takist að láta þetta bera sig, en það getur enginn maður neitað áhættunni sem er tekin þegar 80% af orkuframleiðslunni í landinu verða orðin hengd á þessa einu breytu, heimsmarkaðsverð á áli upp og niður. Þá er eins gott að það klikki ekki, þá er eins gott að það gerist ekki eitthvað í tækninni eða á mörkuðunum sem allt í einu valdi því að þessi málmur dúndri niður, (Gripið fram í.) að það komi einhver ofurefni í staðinn og leysi hann af hólmi, koltrefjaefni, fjölliður eða aðrar málmblöndur. (Gripið fram í: Á þá Bandaríkjaforseti að hætta að fara í frí?) Það var t.d. þannig að ál er á útleið í mörgum greinum þar sem við þekktum það áður. Framsóknarmenn halda enn að bílar séu aðallega framleiddir úr áli en staðreyndin er sú að það er að uppistöðu til plast og slík efni sem hafa leyst álið af hólmi. Fleiri og fleiri hlutir í flugvélaiðnaðinum eru núna úr slíkum gerviefnum þar sem áður var ál og jafnvel aðrir málmar eru í vissum tilvikum farnir að koma inn, t.d. títan. Nú veit ég ekki hvort það er félegra en þó hafa títanblöndur vissa yfirburði, eru sterkari og jafnvel léttari en ál og leysa það sums staðar af hólmi.

Það er t.d. svolítið fyndið, ég get sagt frá því að framsóknarmenn, vinir mínir, voru svo huggulegir við mig að þeir gáfu mér göngustafi í afmælisgjöf í sumar. Þessi hlýhugur gladdi mig að sjálfsögðu. Það fylgdi með skemmtileg vísa, ort af hirðskáldi þeirra um að þarna fengi ég nú álstafina. Jæja, viti menn. Ég tek svo fram stafina núna um daginn og skondraði á Esjuna á sunnudagsmorguninn var og sé ég þá ekki að stafirnir eru úr títanblöndu. Þeir eru því alls ekki úr áli. (Gripið fram í.) Ég verð að hryggja þá vini mína með því að þessi annars ágæti brandari og góða vísa er ekki alveg sannleikanum samkvæm. Það er nú svona.

Einn af lærðustu doktorum, þó víðar væri leitað í sambandi við fjölliður og koltrefjaefni, segir mér að sannfæring hans sé sú að álið eigi engan raunverulegan möguleika á að hækka í verði á komandi áratugum. Það geti aðeins verið tímabundið ástand sem helgast af aðstæðum, aðallega í Kína, sem veldur því að tímabundin eftirspurn er sem heldur heimsmarkaðsverðinu uppi en þegar frá líður muni álið ekki eiga neinn annan kost en að lækka sig heldur í verði ef það ætlar að halda markaðshlutdeild sinni af því að hin efnin séu að koma sterkar og sterkar inn og sérstaklega á þeim enda markaðarins sem borgar hæst verð. Ergó, álið er líklegra til að þróast heldur niður á við í verðmætakeðjunni og verða kannski að meira massaefni í ódýrari framleiðslu. (SigurjÞ: Hvað með Sjálfstæðisflokkinn?) Teiknar það til mjög glæsilegrar framtíðar í hagkerfi þjóðar sem er búin að leggja öll þessi ósköp undir þennan eina málm? Nei, það gerir það ekki. Þess vegna finnst mér að þó að ekkert annað kæmi til en að við viljum ekki hafa öll eggin í sömu körfu þá ættum við þegar af þeim ástæðum að hugsa okkar gang, þó ekki væri nú allt hitt sem ég ýmist hef farið yfir eða á eftir að fara yfir.

Ég held að menn manni sig nú loksins upp í að fara í rækilega þjóðhagslega arðsemis- og samanburðarútreikninga í þessum efnum — hvernig geta menn forsvarað það að það skuli ekki hafa verið gert? Það þarf einhverja áhugasama unga hagfræðinga í greiningardeildum bankanna sem fara að kíkja í þetta og þá fær maður í fyrsta skipti í hendur almennilegar samanburðarupplýsingar um þessa undirstöðuhluti, af því að stjórnvöld hafa auðvitað aldrei viljað reiða fram neinar upplýsingar um þetta, það má ekki. Dæmið gæti stórskaddast. Auðvitað gerir það það. Það hrynja meira og minna undan þessu allar stoðir og voru þær þó ekki beysnar fyrir, harla fúnar.

Hvað er þá eftir í þessu? Ef þetta kostar í fyrsta lagi algerlega óverjandi spjöll á náttúru landsins, ef þetta öðru lagi ryður í öðru atvinnulífi í stórum stíl um koll eða hrekur það úr landi, og ef þetta er í þriðja lagi mjög slakur bisness í þeim skilningi að hann skilur lítið eftir í hagkerfinu. Virðisauki sem til fellur innan lands er alveg óvenjulega lítill í þessum fjárfestingum og launahlutfallið er það langlægsta sem við sjáum nokkurs staðar á byggðu bóli, svo mikið fyrir atvinnusköpunina sem á að heita í kringum þetta. Svo ekki bætist við þau ósköp, sem væri nú endirinn á öllu saman, að kannski kunni heimsmarkaðir að þróast þannig að tekjurnar dugi ekki til að standa undir fjárfestingunum sem ráðist hefur verið í við að byggja virkjanirnar og við landsmenn verðum með það á herðunum að bjarga því einhvern veginn því að auðvitað getum við ekki látið þetta fara á hausinn. Það er alveg augljóst mál, við getum það ekki. Það verður einhvern veginn að reyna að bjarga því.

Segir það ekki ákveðna sögu að hugmyndirnar um að kannski yrði ráðist í framkvæmdirnar fyrir austan af sjálfstæðu fyrirtæki, nýju sjálfstæðu hlutafélagi, gufuðu bara upp eins og dögg fyrir sólu? Landsvirkjunarmenn, þeir mega eiga það, hafa í hreinskilni viðurkennt opinberlega á ráðstefnum að auðvitað hefði aldrei verið hægt að fara í þetta nema vegna þess að Landsvirkjun er ríkisfyrirtæki með ábyrgðir ríkisins og sveitarfélaganna á bak við sig. Það er bæði hefðbundin ríkisábyrgð og eigendaábyrgð á bak við. Öðruvísi hefði ekki verið hægt að ráðast í þetta. Sem sagt, þetta hefði aldrei litið dagsins ljós sem venjuleg markaðsákvörðun, sem venjuleg fjárfesting sem varð að spjara sig á eigin arðsemisforsendum.

Það er nú alveg kostulegt, herra forseti, að það skuli vera Sjálfstæðisflokkurinn sem hjálpar Framsóknarflokknum í gegnum þessi ósköp með þessa ofboðslegu ríkishandaflsframkvæmd sem þetta er. Ég segi nú bara: Til hamingju, hægri menn í Sjálfstæðisflokknum. Þetta verður lengi á spjöldum sögunnar, að menn hafi komið þessum ósköpum í gegn.

Nei, ég held að þessi mál hafi lent inn á alvarlegan villuveg þegar sú ákvörðun var tekin í byrjun að reisa inni í einu og sama fyrirtækinu virkjanir fyrir almennan notendamarkað og stóriðju. Það skyldi aldrei verið hafa. Ef við hefðum borið gæfu til að halda þeim hlutum algerlega aðskildum og að stóriðjan yrði að sjá um sig algerlega sjálf í sérkerfi fjárhagslega og rekstrarlega hvað ábyrgðir snertir og alla hluti, algerlega aðskilið, værum við ekkert í þessum sporum í dag. Þá væri ekki þessa inngróna og eðlilega tortryggni sem almennir notendur hafa um að þeir séu látnir borga brúsann.

Ég held því fram, herra forseti, að mjög sé að fjara undan þessari stefnu. Ég hitti fleiri og fleiri sem eru alveg búnir að sjá að þetta er ekki leiðin sem þeir vilja fara með Ísland. En það vantar enn að opna augu og eyru ríkisstjórnarinnar, stjórnarflokkanna og vissra aðila í samfélaginu í viðbót. Þjóðin er ekki hrifin af þessu að mínu mati en það er auðvitað ekki hlustað á hana nema bara þegar það á þá við.

Þegar það svo bætist við, herra forseti, að kringumstæður þessara mála og ákvarðanatökuumhverfi, ef við getum kallað það svo, er þannig að það er engan veginn forsvaranlegt. Við getum ekki borið á móti því að t.d. sú staðreynd að rammaáætlunin er afvelta og ekkert með niðurstöður hennar gert að svo miklu leyti sem þær liggja þá fyrir sem er ekki nema að hluta til og til bráðabirgða. Við getum ekki mælt á móti því að þar með vantar veigamikinn grundvöll til að taka þessar ákvarðanir, eða til hvers eru menn að gera rammaáætlun ella? Er hún þá ekki óþörf ef ekkert þarf á henni að halda til að taka allar þessar stóru ákvarðanir? Staðan er samt sú. Það er sett í hægagang og hægagír.

Auðvitað á að taka þessa hluti í réttri röð. Það á að vinna almennar grunnrannsóknir og undirstöðurannsóknir og safna þannig þekkingu á hlutlægum og faglegum forsendum til þess að hægt sé að móta stefnu og taka ákvarðanir um annars vegar vernd og hins vegar nýtingu. Það á að ganga frá rammaáætluninni og gefa henni lagastöðu þannig að menn séu skyldugir til að horfa til þess að ráðast fyrst í þær virkjanir sem minnstri röskun valda í náttúrunni og síðast og síðan alls ekki í hinar sem eru á hinum endanum.

Það á að móta orkustefnu áður en við bindum fleiri virkjunarkosti til langs tíma með samningum á útsöluprísum og það eigum við auðvitað ekki að gera. Það á að móta orkustefnu um það hvernig Ísland ætlar að þróa sig áfram í átt til sjálfbærrar nýtingar í þessum efnum. Hvað ætlum við að gera í sambandi við vetnisverkefnin? Ætlum við að reyna að skipta út innfluttu kolefnaeldsneyti með innlendum orkugjöfum þegar við höfum einhverja miðla til þess að flytja orkuna á milli hvort sem það verður vetni eða eitthvað annað? Orkan er ekki ótæmandi eða að öllu leyti endurnýjanleg auðlind. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum frá byrjun lagt ríka áherslu á nauðsyn þess að móta hér það sem við köllum sjálfbæra orkustefnu. Ef hún lægi fyrir með útlínum um hvernig við viljum sjá þessa hluti þróast inn í framtíðina væri hér margt öðruvísi.

Þannig hafa Norðmenn farið að. Við erum ekki yfir það hafin að líta til reynslu annarra þjóða og læra af þeim. Norðmenn luku fyrir um 25 árum því sem við erum enn með í höndunum, að vinna rammaáætlun á grundvelli rannsókna og kortlagningar á orkukostunum í landinu. Þar svöruðu þeir þessum stóru spurningum: Hvaða vatnsföll og vatnasvið kemur til greina að virkja, hvaða vatnasvið og vatnsföll má mögulega virkja að uppfylltum skilyrðum og hvaða vatnasvið hreyfum við ekki? Þeir gengu frá málinu. Síðan hafa staðið eftir leifarnar af átökum um einar tvær virkjanir eða svo, sem í öðru tilviki var ráðist í þar sem var Alta-virkjunin og í hinu hætt við þar sem voru virkjanirnar við Svartafoss eða á Svartafjalli.

Norska Stórþingið mótar útlínur orkustefnu Noregs, það er ekki bara einhver skúffa í iðnaðarráðuneytinu. Nei, norska Stórþingið leggur línurnar um það hvernig orkubúskapur Norðmanna eigi að þróast hvort heldur er í sambandi við vatnsaflsvirkjanir eða vinnslu á gasi eða olíu og leggur línurnar með „stortingsmelding“ inn í framtíðina. Þar er ólíku saman að jafna. Þá er kominn grunnurinn til þess að taka vitrænar ákvarðanir um hvort þessi framkvæmd verði leyfð eða ekki.

Okkur liggur ekkert á, minna en ekki neitt á. Það er einmitt hið gagnstæða sem við þurfum, þ.e. að staldra við, að leyfa hagkerfinu að jafna sig, kólna niður og gefa okkur tíma til að hugsa okkar gang hvernig við viljum við fara í þetta á komandi árum. Hvernig viljum við að Ísland líti út? Það verður að sjálfsögðu áfram virkjað á Íslandi, af sjálfu leiðir. En það er ekki hið minnsta vandamál að mæta þörfum innlends iðnaðar og almennrar innlendrar notkunar með viðbótarþrepum í virkjunum, t.d. viðbótartúrbínum á háhitasvæðum á komandi árum og það þarf ekki að hafa nokkur minnstu óæskileg umhverfisáhrif í för með sér. Þetta snýst bara um það. Við leikum okkur að því að taka við fjölbreyttum meðalstórum iðnfyrirtækjum þó að þau noti frá nokkrum megavöttum og upp í nokkra tugi megavatta. Ekkert vandamál. Það eru risadæmin sem kalla á risavirkjanir sem skapa vandann. Þeim fylgja hin óviðráðanlegu þenslu- og vaxtarverkjavandamál þegar þeim er troðið inn í hagkerfið.

Við höfum nefnilega enn þá mjög góða aðstöðu til þess að móta hér sjálfbæran orkubúskap og höfum áfram möguleika til þróunar og vaxtar ef við offrum þeim ekki öllum á altari þessa stóriðjutrúboðs á örfáum árum. Það er einhver ótrúlegasta skammsýni að mínu mati sem nokkuð getur verið eða ætlum við enga möguleika að eiga og geyma til framtíðar?

Herra forseti. Ég er kominn þar að ég gæti alveg hugsað mér að fara eftir atvikum annaðhvort að gera hlé á þessari ræðu minni eða þess vegna geyma ýmislegt til seinni ræðu í þessari umferð, en það er náttúrlega fjarri því að ég hafi tæmt það sem um málið er að segja og í raun aðeins lauslega reifað ýmsa þætti þess. Það er nefnilega aldeilis einnar messu virði að fara yfir þessi mál því ætli þau séu ekki einhver þau stærstu sem við erum yfir höfuð með í höndunum á þessum árum og áratugum núlifandi kynslóð stjórnmálamanna í landinu? Ég held það. Fyrir utan kannski átökin um grundvallargerð hins mannlega samfélags þegar við svörum spurningunni um það hvort við viljum áfram vera norrænt velferðarsamfélag eða eitthvað annað þá held ég að fátt sé stærra og afdrifaríkara en þetta sem við ræðum.

Ég hef því ákaflega góða samvisku yfir því að eyða í það eins og einni kvöldstund og þó fleiri væru, herra forseti, og ég veit að forseti hefur líka gaman af því að hlusta á mig fara yfir þessi mál. Það er ekki bara rétt heldur skylt að menn taki upp á borðið og ræði grundvallarþættina í þessum málum. Þeir eru afdrifaríkir og stórir og koma til með að hafa mikil áhrif á það hvernig Ísland lítur út á komandi árum og áratugum og kannski ekki síst á það hvernig við skilum því af okkur til komandi kynslóða.

Ég á að vísu svo mikið efni eftir, herra forseti, að ég er hálftregur til að fara úr ræðustólnum. Ég á t.d. alveg eftir að ræða þetta rit hér sem ég tek gjarnan upp úr skjalasafni mínu með nokkru millibili og nota mönnum sem víti til varnaðar. Ég veit ekki hvort forseti — hann er e.t.v. það ungur að árum hér á þingi að hann hafi ekki barið það áður augum. Þetta er verðmætt eintak því að ég er einn örfárra manna sem ég veit að á frumeintak og hef undir höndum og gæti því að því eins og sjáaldurs augna minna. Þetta er bæklingur sem menn í orkusölugleði sinni og stóriðjutrúboði gáfu út hér á árunum, það eru rúmlega tíu ár síðan ef ég man rétt. Það lá mikið við að selja landið og kynna fyrir erlendum auðhringjum hvers konar gósenland Ísland væri fyrir aðila sem vildu koma og fjárfesta hér í orkuiðnaði.

Markaðsskrifstofa iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjun gáfu út þennan bækling, hún hét þá MIL. Svipað batterí er til núna og heitir eitthvað annað. Það voru ýmsar vitleysur að vísu í þessu, eins og það að Ísland væri 40 þús. fermílur o.fl., en látum það vera. Í janúar 1995 kom þessi bæklingur út. Á forsíðunni stendur risastórum rauðum stöfum: „Lowest Energy Prices in Europe.“ Kynningin var sem sagt á forsendunum „lægsta orkuverð í Evrópu“, komið þið, komið þið. Lægsta orkuverð í Evrópu. Þannig vildu menn fara í samningaviðræðurnar um sölu á einni af auðlindum þjóðarinnar. Þeir bættu ýmsu fleiru við sem fróðlegt gæti verið að fara yfir í annarri ræðu og kannski ég geymi mér það í aðalatriðum að ræða þetta. En það var miklu og fögru lofað um það hversu lítið menn væru að ergja sig út af umhverfismálum og öðru slíku.

Það er reyndar ekkert óskaplega mikill munur á bæklingunum þegar maður tekur nýrri útgáfur, þá er enn verið að reyna að lokka menn til landsins. Komið þið til Íslands, þar eru auðlindir til að vaxa o.s.frv.

Herra forseti. Ætli ég láti þá ekki nótt sem nemur og geri hlé á þessum ræðuhöldum mínum, enda á ég þess kost að koma í ræðustólinn aftur síðar í þessari umræðu. Verði frekara framhald á mun ég ekki draga af mér að reyna að vera fullgildur þátttakandi í þeim umræðum sem þetta mál kann að eiga eftir hér á þingi.