151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

sjúkratryggingar.

401. mál
[19:09]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar. Frumvarpið snýst um endurgreiðslu kostnaðar en lögin um sjúkratryggingar eru frá 2008. Þetta er í þriðja sinn sem ég mæli fyrir þessu máli og Viðreisn leggur það fram en það hefur ekki fengið framgang innan þingsins til þessa. Það er alveg ljóst að það er enginn vilji hjá ríkisstjórnarflokkunum til að hleypa þessu máli í gegn. Það felur í sér að hægt verður að grynnka á biðlistum, að mjaðma- og liðskiptaaðgerðir verði gerðar hér heima þannig að við getum ýtt fólki út af biðlistum með jákvæðum hætti og aukið lífsgæði þess verulega. Það er mun hagfelldara fyrir ríkið og þjóðhagslega hagkvæmt.

Því miður er það þannig að flokkarnir, Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn og Framsóknarflokkur, hafa ekki viljað ljá máls á þessu og hafa m.a. fellt tillögur okkar í tengslum við fjárlögin til þess að koma til móts við þennan hóp. Ástæðan er fyrst og fremst sú að það er stefna ríkisstjórnarinnar að semja ekki við sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk, í þessu tilviki fólk sem getur komið til móts við sjúklinga sem glíma við sársauka. Oftast er verið að skipta um mjaðmakúlur eða lið og við sjáum líka að biðlistar eru að lengjast annars staðar, t.d. hvað varðar sálfræðiþjónustu. En það er önnur saga.

Frá því að Covid þeystist hingað inn til landsins, um mánaðamótin febrúar/mars, hafa biðlistar ekki styst, aðstæður hafa ekki skánað. Þvert á móti hefur þörfin fyrir að forgangsraða málum hér í þinginu aldrei verið meiri. Það þarf að setja þetta mál framarlega til að koma til móts við fólk sem er á biðlistum. Í haust lýsti Alma Möller landlæknir þeirri skoðun sinni að kórónuveirufaraldurinn hefði dregið fram ákveðna veikleika heilbrigðiskerfisins. Veikleikarnir lúta að mönnun á sjúkrahúsum, mönnun innan heilbrigðisgeirans og plássleysi. Það er með öðrum orðum erfitt fyrir hið opinbera að sinna grunnþjónustunni almennilega. Þótt margt hafi verið gert ágætlega og menn og konur hafi reynt að leggja sitt af mörkum þá er það einfaldlega þannig að hið opinbera kerfi er þungt í vöfum og það er fyrst og fremst skortur á mannafla og plássleysi sem hefur leitt til þess að erfitt er að taka á biðlistunum, ekki síst þegar tregða er innbyggð í kerfið, tregða hjá stjórnvöldum við að leita til sjálfstætt starfandi aðila. Það bara má ekki, sama þótt það væri til heilla fyrir allan almenning, ekki síst þá sem eru á biðlistum.

Landlæknir sagði í þessu sama viðtali, sem ég vitnaði í áðan, að nauðsynlegt væri að líta til eininga sem væru utan opinbera kerfisins til að mæta þeim biðlistavanda sem aukist hefur á síðastliðnum árum. Ég held að við ættum að taka Ölmu Möller á orðinu. Það má segja að þetta frumvarp, þó að verið sé að leggja það fram í þriðja sinn, komi mjög til móts við það sem landlæknir var að benda á. Það er ekki ásættanleg ráðstöfun opinbers fjár að senda einstaklinga, sem hafa verið á biðlistum eftir því að komast á biðlista og hafa brutt verkjatöflur á meðan þeir bíða, í mjaðma- og liðskiptaaðgerðir til Svíþjóðar í staðinn fyrir að semja við sjálfstætt starfandi aðila hér heima sem gera nákvæmlega sömu aðgerðir. Og það sem meira er: Það eru oft sömu læknarnir sem gera aðgerðir á einkaklíník hér heima en það má ekki semja við hana af því að það samræmist ekki stefnu ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er betra að senda fólk til Svíþjóðar á einkaklíník þar. Og viti menn, oftar en ekki er læknir að heiman sendur með hópnum og umsvifin í kringum hvern einstakling eru hátt í 3 millj. kr. Það er meira en tvisvar sinnum dýrara að fara þessa leið en að sinna sjúklingunum hér heima. Þetta er auðvitað ekki boðlegt, virðulegi forseti.

Frumvarpið snýr að því að setja þarfir sjúklinga í forgang og hverfa frá þeirri opinberu stefnu ríkisstjórnarinnar að láta hlutina fremur snúast um óbeit sína á einkareknum einingum. Það gengur ekki að þessi stefna sé ríkjandi því að á endanum setur hún þarfir sjúklinga ekki í forgang heldur mjög aftarlega á blað. Sjálfstæðisflokkurinn hefur valið að þegja, flokkur sem áður kenndi sig við frelsi, og tekur með þegjandi samþykki þátt í þeirri aðför sem að mínu mati á sér stað, aðför heilbrigðisráðherra að þessu kerfi. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í hinum og þessum málum. Við sjáum að það er greinilega ekki langt í prófkjör. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru að viðra áhyggjur sínar af hinum og þessum málum, en ekki þessu. Þeir hafa einfaldlega ekki sagt neitt, ekki einu sinni lýst áhyggjum sínum yfir því að ekki sé verið að nýta framlag einkaframtaksins til að lina þjáningar fólks á biðlistum. Enginn hefur komið og rætt þetta. Allir hafa greitt atkvæði gegn tillögum okkar í tengslum við fjárlög og komið í veg fyrir að mál af þessu tagi verði afgreitt úr nefnd og tekið til atkvæðagreiðslu. Svo mikið er frelsið á þeim bænum.

Við þekkjum auðvitað áherslur Vinstri grænna og það má alveg hrósa hæstv. ráðherra fyrir staðfestu í því að koma meira og minna allri starfsemi undir ríkið þegar að þessum aðgerðum kemur. Gott og vel. Við vitum að hverju við göngum þar. Þau vilja ekki leita til aðila utan opinbera kerfisins. Ég bendi á þetta mál og ég vil líka benda á þá biðlista sem eru að myndast eftir sálfræðiþjónustu og svipaðri klínískri meðferð, atferlismeðferð. Það má ekki styrkja leiðir utan opinbera kerfisins til að hjálpa fólki. Áðurnefnd úrræði heyra ekki undir hið opinbera, heilsugæslu eða Landspítala, og þá má bara helst ekki gera þessar aðgerðir. Mér finnst það mjög mikil skammsýni. Það er ekki verið að einblína á þarfir sjúklinganna, á þarfir einstaklinganna. Ég er ekki að segja að ríkið eigi ekki að koma að málum, alls ekki. En við verðum að geta sinnt þörfum þessara einstaklinga og ef leita þarf til einkaaðila þá gerum við það.

Ég get borið virðingu fyrir skoðun heilbrigðisráðherra þó að ég sé allsendis ósammála henni. Ég hef sagt það upphátt mörgum sinnum og Viðreisn hefur lagt fram mál en ekki fengið stuðning frá öðrum flokkum sem kenna sig við frelsi. Á meðan, af því að þetta hlýtur ekki framgang, hrannast upp biðlistar og fólk bryður verkjatöflur. Við höfum reynt að ýta við þessu í þrjú ár, og ítrekað lagt fram frumvarp, lagt til breytingar á fjárlögum, allt til að auka lífsgæði fólks og stytta biðlista, sem ég hefði haldið að væri forgangsmál ríkisstjórnarinnar, án árangurs. Það er tiltölulega einfalt í framkvæmd að leyfa Sjúkratryggingum Íslands að semja við sjálfstætt starfandi aðila svo lengi sem þeir uppfylla þau skilyrði sem eru m.a. innan ramma EES-samstarfsins.

Það er svolítið snúið að halda þessa framsöguræðu aftur og aftur en við leggjum málið fram til að undirstrika að til eru lausnir til að leysa biðlistavandann. Af því að hæstv. landbúnaðarráðherra nefndi orðið lífsstíl þá held ég að biðlistar séu að verða að lífsstíl þessarar ríkisstjórnar. Ekki er annað að sjá þegar engar undirtektir eru gagnvart málum eins og þessum, þegar tillögur okkar eru felldar, tillögur sem eiga að koma í veg fyrir að biðlistar myndist. Það er ákveðinn lífsstíll þessarar ríkisstjórnar að móta og mynda biðlista.

Sú undarlega staða er uppi að Sjúkratryggingar Íslands telja sér ekki heimilt að greiða kostnað við sams konar aðgerðir hér á Íslandi. Hin pólitísku skilaboð eru þau að stofnunin fær ekki heimild til þess þrátt fyrir að aðgerð sé gerð af aðila sem uppfyllir öll lagaskilyrði. Það tikkar einfaldlega ekki í hið hugmyndafræðilega box ríkisstjórnarinnar að gera þessar aðgerðir hér heima. Ef við skoðum aðstæður eins og þær eru í dag hefur heimsfaraldurinn haft það í för með sér að öll ferðalög eru erfiðari. Fólk hefur þurft að fresta alls kyns aðgerðum en ekkert gerist hjá ríkisstjórninni. Afleiðingin er því enn lengri biðlistar. Er verið að teikna upp einhverja framtíðarsýn í staðinn? Nei. Það eina sem gerist ef slíkar tillögur berast er að Sjálfstæðismenn, Framsóknarmenn og Vinstri græn fara sjálfkrafa á rauða takkann og hafna öllum leiðum til að fá allar hendur upp á dekk til að leysa biðlistamálin. Alltaf er svarið nei, ef finna á aðra lausn en þá að hrúga fólki inn í opinbera kerfið með tilheyrandi biðlistum þar líka. Við sjáum biðlista vera að myndast eftir sálfræðiþjónustu, það hefur verið bætt í heilsugæsluna út af sálfræðiþjónustu, en ekki má leita til annarra aðila. Nei, segir ríkisstjórnin, bara nei — ótrúleg skammsýni.

Ég vil biðja fólk að hafa það hugfast að ýmsir aðilar geta vel veitt skilgreinda opinbera þjónustu. Hér er ekki verið að tala um að menn borgi sig fram fyrir í kerfinu. Hér er verið að tala um skilgreinda þjónustu, verkferla, markmið. Það er alveg skýrt hvað hver aðgerð kostar. Markmiðið er að fólk fái lausn sinna mála, fái þjónustu þegar það þarf á því að halda. Stefna þessarar ríkisstjórnar er einmitt að veita ekki þjónustu þó að hægt sé að veita hana hér innan lands, heldur leyfa fólki að hafa það huggulegt eða hitt þó heldur á biðlistum.

Við erum ekki að ógna jöfnum aðgangi að heilbrigðisþjónustu með því að viðurkenna að það eru fleiri en ríkið sem geta sinnt ákveðinni þjónustu. Við skulum hins vegar viðurkenna þann vanda sem við stöndum frammi fyrir þegar kemur að því að stytta biðlista. Ég hefði viljað sjá plan frá ríkisstjórninni í þá veru að leysa biðlistavandann, að hún hefði sagt: Við verðum ekki með fólk á biðlista eftir þrjá mánuði, ekki eftir liðskiptaaðgerðum, mjaðmaaðgerðum, ekki eftir sálfræðiþjónustu eða annarri þjónustu sem verið er að leita eftir, af því að við ætlum að setja aukið fjármagn inn á spítalana, við ætlum að leysa mönnunarvandann þannig að við klárum biðlistana. En það er ekki einu sinni þannig plan sem er sett fram. Það er bara lok, lok og læs.

Það þýðir ekki að setja málin í nefnd. Það hefur verið svolítið þannig hjá þessari ríkisstjórn. Við í Viðreisn spurðumst einmitt fyrir um það hve margar nefndir hefðu verið skipaðar, og starfshópar, af þessari ríkisstjórn. Það hljóp á hundruðum. Það þýðir ekkert að setja þessi mál, hvað þá heilbrigðismál, aftur í nefnd, og skoða þau aðeins betur. Það eru nöturleg skilaboð til fólks á biðlistum, sem margt hvert hefur beðið mánuðum saman og sumt svo árum skiptir. Það er einfaldlega ekki boðlegt, virðulegi forseti, þetta gengur ekki.

Við í Viðreisn erum að gera lokatilraun á þessu kjörtímabili en ef guð lofar mun þetta breytast á næsta kjörtímabili. Ef og þegar Viðreisn kemst í ríkisstjórn munum við leggja áherslu á að nýta alla aðila, opinbera aðila sem og einkaaðila, til að sinna þeirri þjónustu sem fólkið okkar þarf á að halda, hvort sem það er innan heilbrigðiskerfisins, félagslega kerfisins eða menntakerfisins. Við megum ekki leyfa okkur að láta fordóma ráða för eða kreddur eða, með fullri virðingu fyrir stefnu Vinstri grænna, hugmyndafræðilega gamaldags pólitík. Ég vil þó ekki síst beina orðum mínum til þeirra sem á tyllidögum skilgreina sig sem frelsisunnendur, víðsýna og lausnamiðaða, og segja að við verðum að reyna að tryggja framgang þessa máls. Við getum ekki tekið okkur meiri tíma í að gera ekki neitt í biðlistavandanum. Við ríkisstjórnarflokkana segi ég: Reynið að hrista af ykkur þann lífsstíl sem felst í því að byggja biðlista á biðlista ofan.

Ég vil ítreka hvatningu mína til þeirra sem eru frelsisunnandi og lausnamiðaðir, ég vil ítreka hvatningu mína til þeirra sem eru hér á þingi og vilja leggja málinu lið: Það er hægt að breyta þessu. Það þarf bara vilja. Það þarf bara kraft. Ég vil undirstrika að mörgum sinnum hefur verið farið yfir málið í nefnd og þetta er í þriðja sinn sem við leggjum það fram. Ég vonast til þess og brýni velferðarnefnd til að afgreiða málið með hraði þannig að við veitum fólki sem er á biðlistum von og sendum skýr skilaboð um að við ætlum að sinna því. Þó að þetta fólk hafi verið þarna vikum, mánuðum og árum saman ætlum við að sinna því. Og við ætlum að stytta biðlistana, við ætlum að veita fólki þjónustu. Það skiptir fólk ekki endilega máli hvort það er ríkið eða einkaaðilar sem veita þjónustuna. Segjum við fólkið: Við ætlum að taka utan um ykkur. Við ætlum öll að vera í sama liði hvað það varðar.

Það þarf að hugsa til þeirrar leiðsagnar sem landlæknir veitti okkur einmitt í viðtalinu sem ég nefndi þar sem hún sagði að nauðsynlegt væri að líta til eininga utan opinbera kerfisins til að mæta þeim biðlistavanda sem við höfum staðið frammi fyrir. Og við höfum staðið frammi fyrir þeim vanda allt þetta kjörtímabil af því að ríkisstjórnin hefur lítið sem ekkert verið að vinna í þessu. Hér er enginn að tala um einkarekstur eins og menn vilja oft halda fram þegar þvæla á mál eða gera þau tortryggileg eða einfaldlega að setja mál í bið eins og þessari ríkisstjórn er tamt.

Ef einhverri ríkisstjórn mun takast að setja á fót á Íslandi tvöfalt heilbrigðiskerfi þá er það þessari ríkisstjórn. Það verður í boði ríkisstjórnar Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ef þau ætla ekkert að gera í biðlistamálum. Þótt þau hafi tækin, þótt þau hafi tillögurnar og tólin, til þess að leysa málin þá verður það í boði þessarar ríkisstjórnar að koma upp tvöföldu heilbrigðiskerfi. Það hugnast mér ekki. Þess vegna verðum við að vera með skýrt skilgreind markmið, þau eru í lögum og þau eru í þessu frumvarpi. Tökum utan um fólkið hvar sem það er á biðlistum, sinnum því og fáum alla þá sérfræðinga, þá sem eru sjálfstætt starfandi og þá sem starfa hjá hinu opinbera, til að koma fólki út af þessum biðlistum. Þetta frumvarp er tækifæri til þess.