151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kirkjugarðar, greftrun og líkbrennsla.

271. mál
[20:06]
Horfa

Flm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fjalla meira um það í greinargerðinni að mér finnist að þetta eigi að vera frjálst og þá er ég í rauninni að leggja til að við tökum það úr lögunum að ekki megi merkja þá staði þar sem ösku er dreift. Það er áfram reglugerðarheimild í lögunum þannig að ég held að slíkt þyrfti að útfærast í reglugerð, en minn vilji stendur til þess að það yrði frjálsræði utan um þetta. Ég tek sem dæmi þegar fólk lendir í því að aðstandandi týnist og ekki er hægt að jarðsetja viðkomandi, og á ég eitt svoleiðis dæmi, þá erum við með fallegan minningarreit, stein þar sem eru minningarorð. Við höfum fallega reiti um látna sjómenn og þá sem hafa týnst á hafi úti, hægt er að setja minningarreiti um þá. Ég sæi þetta fyrir mér að með sambærilegum hætti gætu verið trjálundir þar sem fólk fengi að setja upp minningarreiti eftir að hafa dreift öskunni.

Í allri þessari umræðu hefur líka komið fram að fjöldi fólks hefur óskað eftir því að láta dreifa öskunni á vinsæla fótboltavelli. Það er t.d. þekkt í Bretlandi að fólk vill hvíla á uppáhaldsvelli sínum. Ég veit ekki hvort fótboltavellirnir hér myndu taka jákvætt í það. Mér skilst að á allra vinsælustu völlum úti í heimi hafi verið orðin svolítið mikil ásókn í þetta, þannig að menn bjuggu til aukaminningarreit til hliðar svo að fótboltamennirnir þyrftu ekki að spila í öskunni, sem var jú vinsælt að dreifa.

En að öllu gamni slepptu þá held ég að það sé vel hægt að útfæra þetta af virðingu við hinn látna fyrst og fremst. Það er kannski annað sem þetta kemur inn á, því ég hef fengið ábendingar um að í eldri görðum, þar sem aðstandendur eru kannski ekki lengur að sinna leiðinu, sé kannski betra að þar sé minningarskjöldur og það svæði lifi sem minning um hinn látna og sé sinnt á meðan því er sinnt. En svo þegar liðnir eru margir áratugir eða árhundruð þá þarf enginn svo sem að sinna því leiði lengur.