Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2022.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

487. mál
[21:04]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir þetta. Kannski í blálokin, af því að við erum að ræða þjóðaröryggisstefnu, að jafnvel þótt maður hefði talað um samkomutakmarkanir, sóttvarnahólf, afkvíun landshluta og fleiri slíka þætti — allt var þetta til staðar í viðbragðsáætlunum og sóttvarnalögum — þá er það svo að þegar til kastanna kemur vil ég ekki gera lítið úr því hversu stórt skref það er að ráðast í slíkar aðgerðir sem hafa svo mikil áhrif á daglegt líf og frelsi fólks. Um leið og það er ofboðslega mikilvægt að hafa góðar viðbragðsáætlanir þá þurfum við alltaf á hverjum tíma að hafa stjórnvöld sem eru reiðubúin að velta fyrir sér öllum slíkum stórum ákvörðunum og taka þær ekki nema að vandlega íhuguðu máli, sem ég held að hafi gengið eftir þarna. Þegar öryggi fólks er ógnað, sama af hvaða orsökum, þurfum við alltaf að taka önnur sjónarmið með í reikninginn og finna þetta vandrataða einstigi. Ég þakka annars fyrir umræðuna, herra forseti.