131. löggjafarþing — 39. fundur,  25. nóv. 2004.

Fjárlög 2005.

1. mál
[21:25]

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get deilt þeim áhyggjum sem fram komu í máli hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar af því hvað útgjöld ríkisins hafa verið að aukast. Ég tel að hv. þingmenn ættu almennt að standa betur saman um að halda í taumana og finna leiðir til þess að halda útgjöldunum í skefjum. Ég heyri hins vegar miklu frekar í umræðunni sem hér fer fram tillögur til þess að auka útgjöld ríkisins. Mér finnst það hafa staðið algjörlega upp úr í þeirri umræðu sem fram hefur farið í dag að verið er að berja á ríkisstjórninni fyrir að skera niður í ýmsum málaflokkum. Er ekki verið að berja á mönnum fyrir að vera að skera niður í heilbrigðismálum? Er ekki verið að berja á mönnum fyrir að vera ekki með nógu mikil útgjöld í menntamálum?

Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að ég vil gjarnan finna fleiri leiðir til þess að skera útgjöld ríkisins meira niður.