135. löggjafarþing — 39. fundur,  7. des. 2007.

myndlistarlög.

306. mál
[18:42]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Ég ætla ekki að vera langorður um það frumvarp sem hér er lagt fram. Í fljótu bragði sýnist mér um mjög þarft mál að ræða, hér er verið að einfalda lagarammann og styrkja Listasafn Íslands og gera það að samstarfsvettvangi fyrir myndlistarmenn. Eins og kom fram í máli hæstv. menntamálaráðherra var nauðsynlegt að aðlaga lög nr. 58/1998 um listasafnið annars vegar að safnalögum og hins vegar að þau tækju frekar mið af rammalöggjöf um myndlistarmál en sérlögum um safnið. Heiti forstöðumanns hefur verið breytt í safnstjóri og um aðrar breytingar á högum hans sýnist mér í fljótu bragði að aðeins sé verið að breyta því fyrirkomulagi í þá veru sem viðgengist hefur hingað til.

Varðandi skipan myndlistarráðs tel ég það líka framfaraspor og einnig stofnun myndlistarsjóðs. Það er alltaf til bóta þegar kveðið er með skýrum hætti á um hvernig ráðstafa eigi fjármunum sem fjárlaganefnd veitir til sjóðsins.

Það er svo sem ekki meira um þetta mál að segja. Ég bíð eftir að málið komi til menntamálanefndar og þar munum við fjalla betur um það en eins og ég sagði áðan er alltaf til bóta að einfalda lagarammann, skapa samstarfsvettvang á sviði lista og styrkja Listasafn Íslands sem höfuðsafn.