143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni alveg sérstaklega fyrir þessa stórkostlegu ræðu sem var flutt af innblásnum þrótti og mikilli reynslu hans af heilbrigðiskerfinu. Mér fannst hv. þingmaður færa alveg frábær rök gegn því að koma á sjúklingaskatti.

Mig langar að rifja upp af því tilefni að þegar sú hugmynd kom fram með miklu offorsi innan úr Sjálfstæðisflokknum í upphafi fjárlagaumræðunnar þá kom formaður Framsóknarflokksins og sagði að þetta væri nú bara vinnuplagg og þessi hugmynd væri nú bara vangaveltur. Við sjáum það eigi að síður að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og aðrir niðurskurðarberserkir hafa beygt Framsóknarflokkinn í duftið, svínbeygt hann. Það finnst manni dálítið nöturlegt.

Það er svo rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað var gengið nærri heilbrigðiskerfinu á síðasta kjörtímabili og farið of nálægt beini. En það sama má segja um ýmsa aðra flokka velferðar hér á Íslandi. Af hverju? Eins og hv. þingmaður sagði: Það varð eitt stykki hrun, það hlaut eitthvað undan að láta. Menn voru hér að berjast við það að koma þessu samfélagi aftur á réttan kjöl og tókst það. Það er þess vegna sem ég get verið sammála hv. þingmanni, en að öðru leyti segi ég það einfaldlega að það voru engin önnur úrræði.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það sem hann sagði um þróunaraðstoðina. Þegar maður les þetta skelfilega plagg sem eru breytingartillögur meiri hlutans kemur í ljós að enginn málaflokkur fær jafnmargar niðurskurðartillögur og þróunarsamvinnan, 13 talsins, og í öllum þeirra er að finna rangar forsendur. Þar er sagt að það sé gert með hliðsjón af því að afla hafi átt fjár til hækkunar til þróunarsamvinnu með veiðigjaldi. Ég kannast bara ekki neitt við það. Er þá ekki hv. þingmaður (Forseti hringir.) sammála mér um að mál sem byggt er á svona vondum grunni hljóti að vera hrákasmíð?