143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[22:11]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta og það er spurning hvort menn í efnahags- og viðskiptanefnd hafi fengið einhverja til að svara til um lögmæti þessarar gjaldtöku, þessarar hækkunar. Ég sé ekki betur en að anda nefndarálits meiri hlutans megi skilja á þann veg að menn séu lagðir af stað í skólagjaldaupptöku á Íslandi. Það er bara svoleiðis. Það er alla vega viljinn samkvæmt þessu. Ekki er því hægt að túlka hækkun skrásetningargjalda og andann að baki henni öðruvísi en með orðum meiri hlutans sjálfs: Skólagjöld til þess að stýra nemendum í námi. Það er bannað samkvæmt lögum.

Virðulegi forseti. Ég tel að námsmannahreyfingarnar hljóti að láta á þetta reyna og mér finnst að efnahags- og viðskiptanefnd ætti að kalla til sín sérfróða menn til að fara yfir þessa stöðu.