145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:11]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þar kom afar margt athyglisvert fram. Mér og fleirum hefur þótt sem þessi gjörningur mundi leiða til vondrar stjórnsýslu yfir höfuð. Rannsóknarnefnd Alþingis, sem sett var á fót eftir hrunið, gaf út skýrslur um betri vinnubrögð, alls níu bindi, um afleiðingar hrunsins og hvernig þingið, stjórnsýslan og framkvæmdarvaldið mætti bæta vinnubrögð sín. Það að aðskilja stefnumótun, framkvæmd og eftirlit væri hluti af því sem við þyrftum að horfa til og hafa í heiðri. Með frumvarpi sínu er hæstv. ráðherra að ganga þvert á þau sjónarmið, eins og hv. þingmaður kom ágætlega inn á í ræðu sinni. Þarna eru gífurlegir fjármunir, undir eins og einnig var komið inn á. Stefna síðustu ríkisstjórnar var að lögð yrðu til 0,7% af vergri landsframleiðslu til þróunarsamvinnu til framtíðar, eins og Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt til. Núna hefur hæstv. ráðherra bakkað með fyrri áform sín frá því fyrr á árinu og sagt að framlagið fari úr 0,23% niður í 0,21% af vergri landsframleiðslu.

Sér hv. þingmaður fram á að hægt sé að hafa gegnsætt eftirlit með þessum gífurlegu fjármunum, að það rótist ekki saman við annað sem fer fram í utanríkisþjónustunni? Við höfum líka minnt á það í þessari umræðu að skorið var hressilega niður í ráðuneytinu 2013. (Forseti hringir.) Er hér verið að bregðast við þeim niðurskurði?