132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[16:59]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara að búa til einhvern ágreining milli hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar. Hins vegar leyfi ég mér út af þeim orðum sem hæstv. forsætisráðherra hafði hér uppi, um að veggjald væri fylgifiskur einkaframkvæmdar, að fullyrða að hæstv. samgönguráðherra er á öðru máli. Við áttum ágætar umræður á fyrri stigum málsins í þinginu og ég held að ég fari örugglega með rétt mál og minni mitt bregðist ekki þegar ég segi að hæstv. samgönguráðherra sagði það fortakslaust, að jafnvel þó farið yrði í einkaframkvæmd yrði það ekki með þeim hætti að tekin yrðu upp einhver sérstök veggjöld. Hann útskýrði nákvæmlega með hvaða hætti það væri kleift.

Ég ítreka hins vegar að ég er ánægður með það og skil hæstv. forsætisráðherra svo að nú liggi fyrir yfirlýsing af hans hálfu um að fjárveitingin til Sundabrautar sé ekki (Forseti hringir.) skilyrt við innri leiðina. Það voru orðrétt ummæli hæstv. forsætisráðherra og þeim ber að fagna.