133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[18:41]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er í sjálfu sér mjög athyglisverð og ekki óvænt spurning frá hv. þingmanni.

Í fyrsta lagi er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir að þær stuðningsaðgerðir sem eru heimilaðar af hálfu Evrópusambandsins til landbúnaðar, sérstaklega á norðurslóðum, eru aðgerðir sem hver og ein ríkisstjórn getur gert á eigin spýtur. Ef það er pólitískur vilji til hliðstæðra aðgerða hér og þar, þá getur ríkisstjórnin gert það á eigin forsendum. Þess vegna fannst mér mjög skondið þegar vitnað var í Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, í fréttum og hann sagði að það gæti komið að því að bændum væri betur borgið í skjóli Evrópusambandsins — en þá botnaði hann ekki setninguna — en í skjóli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Því að hverjir aðrir hafa vélað um landbúnaðarmál á Íslandi á undanförnum mánuðum og missirum en þeir flokkar? Það er ekkert í aðgerðum af hálfu Evrópusambandsins sem menn geta verið að vitna til sem íslensk ríkisstjórn getur ekki gert miklu ódýrar en að fara í gegnum Evrópusambandið með það. Vegna þess að þegar við erum komnir í Evrópusambandið, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson er að gæla við, þá er íslenska þjóðin skattlögð og verður að senda peningana til Brussel sem síðan mundi hugsanlega senda þá aftur til að styðja íslenskan landbúnað. Við mundum vilja koma til móts við aðgerðirnar beint.

Ég held að það sé alveg hárrétt, eins og ég mundi vilja lesa í orð Sigurgeirs Þorgeirssonar, að aðalmarkmiðið er, og nauðsynlegt fyrir landbúnaðinn, að losna við núverandi ríkisstjórn.