138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:41]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætt svar. Stjórnarþingmönnum og ráðherrum hefur orðið tíðrætt um að þessi breyting sem verið er að gera á skattkerfinu, þessi tekjujöfnunarbreyting, muni leiða til skattkerfis sem þeir telja réttlátara og að það sé meira í stíl við það sem við sjáum í nágrannalöndunum o.s.frv. Ég geri svo sem engar athugasemdir við það þó að ég sé ekki sammála því að fara þessa leið.

En það er eitt sem mig langar til þess að spyrja hv. þingmann. Nú liggur ljóst fyrir að um áramótin á, samkvæmt núgildandi lögum, persónufrádráttur að hækka um 2.000 kr. vegna samningsbundinna hækkana á persónufrádrætti, samninga sem voru gerðir fyrir einu og hálfu eða tveimur árum. Í öðru lagi á að hækka persónufrádráttinn eða verðbæta persónufrádráttinn um 3.400 kr. samkvæmt lögum, þannig að samtals hefði persónufrádrátturinn, að óbreyttum lögum, hækkað um 5.400 kr. u.þ.b., 5.400–5.500 eftir því hver verðbólgan verður í desember. Það að hækkunin verður einungis 2.000 kr. í staðinn fyrir 5.400 kr. þýðir að þá verða fleiri sem borga skatta. Ég er ekki að segja að þeir borgi mikla skatta en þeir borga skatta af því að vísitölutengingin verður afnumin. Það verða fleiri sem borga skatta og allir munu borga hærri skatta út af þessu af því persónufrádrátturinn er lægri.

Á sama tíma kynnir ríkisstjórnin, talsmenn hennar, það fyrir landslýð trekk í trekk að verið sé að lækka skatta á tekjur undir 270.000 kr. á mánuði. (Forseti hringir.) Hvað vill hv. þingmaður segja um þetta?