143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Viðvaningsbragur, byrjendamistök, fúsk og handarbakavinnubrögð. Það eru svona í aðalatriðum þær einkunnir sem hægt er að gefa fyrstu fjárlögum þessarar ríkisstjórnar. Þeir þurftu ekki bara frestun á þingsetningunni sjálfri til að geta komið saman frumvarpi sem þeim fannst þó jafnharðan vera alveg ómögulegt heldur er stendur hér nefndarmaður í fjárlaganefnd Alþingis, samviskusamur og málefnalegur nefndarmaður, sem leggur sig fram um að sinna störfum sínum og kynna sér þau efni sem fyrir eru í nefndinni, og 17. desember liggur það ekki fyrir og hefur ekki komið fram fyrir nefndinni hvort þær breytingar sem gerðar voru á fjárveitingum Landspítalans föstudaginn 13. desember séu fullnægjandi fyrir rekstur spítalans á komandi ári.

Það þýðir að við stöndum hér í umræðum að kveldi dags 17. desember og þyrftum helst að ljúka fjárlögum eigi síðar en hinn 19. desember, þ.e. daginn eftir morgundaginn, og það hefur bara engin umfjöllun farið fram um það. Ekki eru komnar fram skriflegar umsagnir spítalans um það hvaða áhrif þessar breyttu fjárveitingar hafi og hvort þær nægi til þess að halda uppi lágmarksþjónustustigi á kjarnaheilbrigðisstofnun þjóðarinnar þar sem spurningarnar eru um líf og dauða á hverjum degi.

Virðulegi forseti. Þetta er náttúrlega slíkt fúsk, slíkur viðvaningsháttur í fjárlagagerð og svo óvönduð vinnubrögð um lykilstofnanir í íslensku samfélagi sem mest má vera og auðvitað stórkostleg öfugmæli að kalla slík handarbakavinnubrögð þjóðarsátt.