145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[15:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég er mjög hissa á því að forseti hafi ákveðið að hafa dagskrána með þessum hætti. Nú er ég sannfærð um að forseti hefur hlustað oftar á umkvörtunarefni hv. þingmanna út af þessu máli en hann kærir sig um. Hæstv. forseti mátti auðvitað vita hvað mundi gerast ef hæstv. utanríkisráðherra væri ekki í salnum þegar málið kæmist á dagskrá. Ég vil því taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa lagt til að við gerum hlé á fundi þangað til hæstv. utanríkisráðherra kemur í salinn. Það er ljóst að út af standa margar spurningar sem enginn getur svarað nema hæstv. utanríkisráðherra og hv. þingmenn hafa kallað eftir. Ég vil sjálf minna hæstv. forseta á að hann er forseti okkar allra.