145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[16:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég mun að sjálfsögðu taka orðið ef það er eindreginn ásetningur forseta að halda umræðunni áfram að aflokinni þessari lotu án þess að hæstv. utanríkisráðherra sé kominn í þingsal og kannski jafnvel ef hann á tíu mínútur eða korter eftir í hús.

Mér finnst það dálítið sérstakt. Það mun þá aðallega hafa það í för með sér að ég flyt seinni aðalræðu mína við þessa umræðu að ráðherranum fjarstöddum þrátt fyrir allar óskir um hið gagnstæða, og bið umsvifalaust um orðið aftur en á þá ekki nema fimm mínútur til að fylgja eftir máli mínu við hæstv. utanríkisráðherra. Ég get að vísu gert það oftar ef þörf krefur. Þetta er ekki endilega sá svipur sem hefði verið skemmtilegastur á þessu máli fyrir okkur. Það er ekki eins og við séum í ægilegri tímanauð því að eins og kunnugt er hefur sama sem ekkert komið frá ríkisstjórninni, sem er í sjálfu sér ágætt, sérstaklega ef mönnum eru mislagðar hendur, þá er ágætt að menn séu ekki mjög duglegir. Við getum þar af leiðandi gefið okkur eðlilegan tíma til að skipuleggja og haga þinghaldinu og umræðum um þetta mál þannig að sæmilegur bragur sé á því. En þetta (Forseti hringir.) hefur ekki verið sérstaklega uppbyggilegt eins og það hefur gengið fyrir sig. Geng ég þá til sætis míns og næ í gögn mín og geri ráð fyrir því að ég eigi að hefja ræðu mína, herra forseti.