146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

einkarekstur í heilbrigðisþjónustu.

[15:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það stefnir í annasaman dag hjá hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég ætla að spyrja hann um heilbrigðismál en ekki samgöngumál eða sjávarútvegsmál. Ég hef áður átt orðastað við hæstv. ráðherra um afstöðu hans til einkavæðingar eða einkareksturs í heilbrigðisþjónustunni og auðvitað hvatt hann til þess að standa með opinbera heilbrigðiskerfinu og verjast ásókn einkagróðaaflanna lengra inn í kjarna heilbrigðisþjónustunnar.

Það er ástæða til að taka málið upp nú, m.a. vegna frétta sem berast af einkarekna fyrirtækinu Klínikin. Með hliðsjón af svörum ráðherra fram að þessu, sem mér hafa þótt nokkuð fljótandi, þá vil ég spyrja: Hvar er hæstv. ráðherra staddur núna? Á hvaða stað er hæstv. ráðherra núna hvað varðar afstöðu til þeirrar málaleitunar einkafyrirtækisins að mega hefja sérhæfða sjúkrahúsþjónustu kostaða af almannafé? Spurningin er einfaldlega: Ætlar hæstv. ráðherra að hleypa einkareknu sjúkrahúsi af stað fjármögnuðu með greiðslum frá Sjúkratryggingum á grundvelli samnings eða ekki? Megum við treysta því að hæstv. ráðherra standi með opinbera heilbrigðiskerfinu?

Í öðru lagi held ég að ástæða sé til að spyrja hæstv. ráðherra: Verður ekki ráðuneytið að endurskoða skilgreiningu sína á þeirri starfsemi sem Klíníkin hefur með höndum nú þegar ljóst er og í fréttum að þar fer þegar fram sérhæfð sjúkrahúsastarfsemi, sérhæfðar skurðaðgerðir, þó svo að þær séu greiddar enn sem komið er að fullu af þeim sem aðgerðanna njóta? Dugar lengur að láta þetta viðgangast í skjóli af því að um sé að ræða starfsstöð sérfræðings þegar flóknar sérhæfðar skurðaðgerðir með svæfingum og öllu tilheyrandi fara þarna fram?

Um leið og ráðuneytið breytir skilgreiningu sinni til samræmis við afstöðu landlæknisembættisins um að þetta sé sérhæfð sjúkrahúsastarfsemi kemur til sögunnar leyfisveiting og meiri möguleikar hins opinbera til stýringar?