149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018 um breytingu á IX., XII. og XXII. viðauka við EES-samninginn.

339. mál
[23:33]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir það leitt að hæstv. utanríkisráðherra sjái sér ekki fært að biðjast velvirðingar á að hafa kallað mig talsmann Evrópusambandsins. Mér þætti vænt um ef hann gerði það. Ég er ekki talsmaður Evrópusambandsins og verð það sjálfsagt aldrei. Ég hugsa að Evrópusambandið sjálft væri ekki ánægt með það ef ég færi að kalla mig talsmann Evrópusambandsins, ég tala nú ekki um hér í pontu virðulegs Alþingis.

Það er alveg dæmalaust að hæstv. ráðherra vilji ekki eða geti ekki útskýrt fyrir mér hvaða tilgangi þetta þjónar í þessum greinargerðum. Ef markmiðið er að upplýsa um EES-samninginn, af hverju er þessi vettvangur valinn? Af hverju er þessu þá sleppt á einu skjali? Eru þetta einu upplýsingarnar sem varða mikilvægi og gildi EES-samningsins sem hæstv. utanríkisráðherra hyggst koma á framfæri, í gegnum greinargerðir með tillögum til þingsályktunar um það að staðfesta EES-gerðir? Eða megum við búast við stuttum fræðsluköflum, mismunandi eftir því hvenær og hvar þeir koma fram? Er ekki nær að halda sig við upplýsingarit, útgáfu, fræðslu um EES-samninginn, á þeim vettvangi? Ég efast satt að segja um, hæstv. utanríkisráðherra, að almenningur lesi mikið greinargerðir með tillögum til þingsályktana um upptöku á EES-gerðum. Ef það er einlægt markmið ráðherrans held ég að hann ætti að efla útgáfu, efla þáttagerð og umræðu, ekki nota þennan vettvang með þessum hætti.