131. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2004.

Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

4. mál
[14:45]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki að tala fyrir því að í landinu byggju tvær þjóðir þegar kæmi að fjarskiptakerfinu. Ég benti einfaldlega hv. þm. á, vegna þess að hann gerði mikið úr gloppum í fjarskiptakerfinu, að þær væru kannski ekki eins miklar og hann vildi vera láta í ræðu sinni. Þegar það liggur fyrir að 99,6% landsmanna, þ.e. hvert einasta heimili að 60 bæjum undanskildum, eru tengd inn á fjarskiptakerfi Landssímans þá mundi ég ekki segja að það byggju tvær þjóðir í þessu landi. Ég vildi halda þessu til haga og koma þeim upplýsingum á framfæri í umræðunni. Það hefur verið gert mikið úr því að fjarskiptakerfið sé ekki eins gott og nái ekki til jafnmargra landsmanna og er í raunin.

Hv. þm. hefur áhyggjur af því að verði Síminn einkavæddur þá leiði það til þess að fjarskiptaþjónustu verði ekki sinnt í hinum dreifðari byggðum og á ýmsum bæjum. Ég get sagt það fyrir mína parta að ég væri tilbúinn til að leggja tiltölulega háar fjárhæðir af mörkum til að koma þeim bæjum í samband ef það yrði til þess að einkavæða Símann.

Ég vil líka benda á það sem hv. þm. sagði í ræðu sinni. Hann sagði að Landssíminn hefði ekki sinnt öllum landsmönnum og öllum byggðarlögum og að ítölsk fyrirtæki og einkafyrirtæki hefðu þá komið til hjálpar og komið þeim aðilum í samband við umheiminn. Þetta eru einmitt þau rök sem við sem höfum talað fyrir einkavæðingu höfum notað. Menn þurfa ekki að hafa svo miklar áhyggjur af því að ríkið komi ekki að því að þjóna þeim sem vilja t.d. eiga viðskipti við símafyrirtæki. Hv. þm. nefndi einmitt rökin sem við, talsmenn frjálsa markaðarins, (Forseti hringir.) höfum fært fram, að einkaaðilar muni sjá landsbyggðinni fyrir þjónustu alveg eins og ríkið hefur gert og jafnvel betur.