132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:17]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég svari einu atriði hjá hv. þingmanni er varðar stóriðjuna þá er það hárrétt að stóriðjuframkvæmdirnar eru hluti af hagvextinum. Það væri eitthvað skrýtið ef svo væri ekki. En þær eru langt frá því að vera allur hagvöxturinn. Það er svo margt annað sem er að gerast í þjóðfélagi okkar sem skiptir máli og veldur því að hagvöxturinn er svo mikill um þessar mundir sem raun ber vitni.

Varðandi framhald á stóriðjuframkvæmdum þá er, eins og fram kemur í Þjóðarbúskapnum, fyrirhuguð stækkun á Grundartanga um 40 þús. tonn og eftir því sem mér skilst, samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir, er lokið umhverfismati og starfsleyfi fyrir stækkuninni. En fyrirtækið sjálft hefur ekki tekið ákvörðun um hvort í þetta verði ráðist eða ekki. Þar af leiðandi er ekki forsvaranlegt að taka þessa framkvæmd inn í áætlanir þar sem ekki er búið að taka ákvörðun um að fara í framkvæmdirnar. Miðað við gróft mat á því hvað svona framkvæmd mundi kosta og hve langan tíma tekur að ganga í gegnum ferlið þá verða það sennilega tvö ár. Líklegt er að ef yrði af framkvæmdum þá mundu bætast 0,2% við hagvöxt á ári í þau tvö ár sem framkvæmdin væri í gangi. Þá ætti hv. þingmaður að hafa allar þær upplýsingar um þetta sem völ er á.